27.03.1935
Efri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

76. mál, flutningur á kartöflum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Undir þessum umr., bæði í gær og í dag, hafa nokkrir hv. dm. beint til n. aths. út af einstökum atriðum frv. með ósk um, að n. tæki þessi atriði til athugunar og bæri fram brtt. um þau.

Út af þessu vil ég taka það fram, að það þyrftu að vera nauðsynlegar breyt. á frv. til þess, að ég vildi fyrir mitt leyti vinna að breyt. á því, vegna þeirra sérstöku ástæðna, sem nú eru fyrir hendi, að það er, eins og allir vita, talað um að fresta þinginu nú innan skamms. (MG: Af hverjum?). Yfirleitt af þingmönnum, og ég geri ráð fyrir að hv. 1. þm. Skagf. hafi heyrt um það. (MG: Ég vildi spyrja um, hvenær það yrði gert). Mér hefir heyrzt á þessum hv. þm., að hann gangi út frá því sem gefnu, að þetta muni verða gert. Ég hefi ekki heldur heyrt neina rödd um, að það sé rangt að fresta þinginu, svo að ég býst við, að það verði gert.

Jæja, verði farið að breyta frv. nú, þá er ákaflega hæpið, að það geti orðið að l. áður en þessi þingfrestun á sér stað, og þá getur það ekki komið að gagni á þessu ári að því er snertir framleiðslu ársins. Þess vegna álít ég, að mikil þörf þurfi að vera til breyt. til þess að rétt sé að gera hana nú. Hinsvegar sé ég ekkert athugavert við það, þó að þessum l. verði breytt aftur, jafnvel þegar þingið kemur aftur saman í haust, ef þess þætti þurfa. Auk þess verð ég að segja það, fyrir utan þessa formshlið málsins, að mér sýnist ekki svo mjög mikil þörf á að breyta frv. T. d. það, sem hv. 10. landsk. minntist á, ákvæði 3. gr., sem hann taldi ekki nógu skýr og taldi nauðsyn á að taka það beint fram í l., hvað mætti setja í reglugerð og hvað ekki. Það kann nú að vera, að þetta hefði verið viðkunnanlegra. En þó hygg ég, að einmitt með reglugerðarákvæðum megi ákveða um það, sem hann var að tala um, t. d. um það atriði, sem hann minntist á, hver ætti að borga kostnaðinn vegna þeirra aðgerða, sem það opinbera hefði nú í þessum efnum.

Viðvíkjandi því, sem þessi sami hv. þm. minntist hér á og beindi því til n., hvort ekki mundi rétt að taka upp í frv. svipuð ákvæði um aðra garðávexti eins og í frv. eru um kartöflur, þá virðist mér, hvað sem annars segja má um þetta, að það geti a. m. k. ekki verið nein nauðsyn á að fara nú að tefja þetta mál út af því, vegna þess, sem ég hefi áður sagt um þingfrestun, því að vitanlega væri auðvelt að bæta þesskonar lagaákvæðum við á næsta þingi, eða jafnvel á framhaldsþinginu í haust.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að vernd vantaði fyrir neytendur í frv. En þessi vernd felst einmitt í 3. gr. (SÁÓ: Ég átti við erlendar kartöflur).

Þetta frv. fjallar um innlendar kartöflur. Hv. þm. þótti einnig og rúm heimildin í 1. gr. til að útiloka erlendar kartöflur og sagði, að þær þyrftu að fást, ef þær innlendu hrykkju ekki til. Frv. gerir einmitt ráð fyrir þessu. Samkv. því á ekki að hefta innflutning á erlendum kartöflum nema ekki sé þörf á þeim.

Það er því engin þörf á að breyta frv. af þessum ástæðum. Ég hefi þegar sagt, að ég er á móti breytingum á frv. af því, að ég get búizt við, að af þeim leiði, að frv. gangi ekki fram að þessu sinni.

Þær breyt., sem gerðar yrðu á frv., yrðu þá að vera til verulegra bóta, ef tilvinnandi ætti að vera að tefla því í tvisýnu vegna þeirra, en ég sé ekki, að neitt af því, sem hv. þdm. hafa talað um, sé svo aðkallandi.