02.03.1935
Efri deild: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

31. mál, sparisjóðir

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að ég er hræddur um, að aðferð sú, sem hér er lagt til að verði á kosningu í stjórn sparisjóðanna, verði nokkuð óvinsæl, því að víða hagar svo til, að starfssvið sjóðanna nær yfir fleira en eitt sýslufél. Þannig er það t. d. um sparisjóðina á Ísafirði og Patreksfirði. Þeirra starfssvæði nær yfir fleira en eitt sýslufélag. Þeir lána fé í næstliggjandi sýslur. Í slíkum tilfellum er það mjög hæpið að láta eitt sýslufélag ráða um stjórnarkosningu sjóðanna. Þar, sem ábyrgðarmenn eru fyrir sjóðnum, hefir það gefizt vel að láta þá ráða mestu um stjórnir þeirra, og virtist mér, að svo mætti vera ennþá. Um aldamótin síðustu mun sparisjóðurinn á Ísafirði hafa verið einhver stærsti sparisjóður landsins. Innstæður við hann námu um 1.2 millj. króna. Þegar svo landsstj. yfirtók hann og sjóðurinn var gerður upp, voru afgangs 60—70 þús. króna. Í stað þess, að fé þetta rynni til Ísafjarðarkaupstaðar, þar sem sjóðurinn átti heimilisfang, var því skipt á milli þeirra sýslufélaga, sem við sjóðinn höfðu skipt, þannig að stofnaðir voru sjóðir í sýslunum til eflingar búnaðarframkvæmda o. fl. Að baki sjóðsins stóðu þó ábyrgðarmenn, en þeir fengu vitanlega ekkert af þessu fé.

Af þeirri reynslu, sem fengin er á þessum hlutum, þá held ég, að það verði óvinsælt, að ábyrgðarmenn sjóðanna fái engu að ráða um stjórn þeirra. Það myndi og hafa þær afleiðingar, að fáir yrðu til þess að gerast ábyrgðarmenn fyrir nýjum sjóðum, og væri það illa farið, því að eins og kunnugt er, þá eru sparisjóðirnir til mikilla hagsbóta fyrir héruðin, þar sem þeir rísa upp, því að þeir ýta undir sparsemi, sérstaklega hinnar yngri kynslóðar, jafnframt því, sem þeir hjálpa atvinnurekstri héraðsbúa.