19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

31. mál, sparisjóðir

Sigurjón Á. Ólafsson [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm., 2. þm. S.-M., drap á og sjá má á þskj. því, sem nál. er á, hefi ég skrifað undir nál. með fyrirvara. Í raun og veru er fyrirvari minn á þskj. 195 eins og hann kom fram í n. Og ég hygg, að það sé rétt hjá hv. frsm., að allir nm. hafi verið á móti mér í þessu máli, þótt það breyti ekki minni afstöðu til málsins. Fyrirvari hinna nm. hygg ég, að sé nokkuð annars eðlis en minn. En a-liður minnar brtt. er þess efnis, að fjölga þeim mönnum, sem bæjarstjórn eða sýslunefnd á að kjósa í stjórn sparisjóða, frá því, sem er í till. n. á þskj. 161. Ég tel, að ábyrgðarmennirnir hafi tiltölulega fullkominn rétt með því að velja 1 af 3 og 2 af 3 stjórnarmeðlimum, þegar allir hinir, sem hafa engu minni „interesse“ af því, hvernig sjóðurinn gengur, eiga aðeins að fá 2 af 3 og 3 af 5, en það eru allir þeir, sem fela sjóðnum fé til ávöxtunar, og ég get ekki séð, að aðrir aðilar séu færari um að velja þeim fjölda fulltrúa en einmitt bæjarstjórnir og sýslunefndir. Hinsvegar mun meiri hl. n. líta svo á, að það sé mikils um vert, að ábyrgðarmennirnir, sem frv. gerir ráð fyrir að séu 20 í kaupstað, en 12 í sveitum eða kauptúnum, ráði allri stjórn og meðferð sjóðanna. Um þetta má að sjálfsögðu nokkuð deila, því að ég lít svo á, að þessir ábyrgðarmenn, í raun og veru, þótt þeir vilji að sjálfsögðu hugsa um hag sjóðanna hver á sinn hátt, hafi ekki nærri eins mikilla hagsmuna að gæta eins og allur almenningur, sem fjármagnið lætur í þessa sjóði, eða eins mikla „interesse“ fyrir stjórn þeirra og starfsemi. Á þessu byggi ég mínar till. um það, að bæjarstjórnir og sýslunefndir fái meirihlutavald í þessum stofnunum, því að þær ábyrgðir, sem yfirleitt eru fyrir þessum sjóðum, eru aðeins á meðan sjóðirnir eru að vinna sig upp, meðan þeir eru litlir, en þegar þeir hafa eignazt sjóði, og þá stundum svo mikla, að það er ekki nema örlítið brot, sem ábyrgðin nemur, þá er tryggingin í þessum ábyrgðum í rauninni ákaflega lítil. Ábyrgðirnar koma því aðallega til greina meðan þessir sjóðir eru á byrjunarstigi, eru að myndast. Það eru til sparisjóðir, sem eiga e. t. v. um 100 þús. kr. varasjóði, en ábyrgð hvers þessara 20 ábyrgðarmanna nær til 400 kr. Í slíkum tilfellum er varasjóðurinn vitanlega langstærsta tryggingin. Í sambandi við þetta mætti benda á ýmislegt fleira, en ég skal sleppa því nú.

Þá er hin brtt. mín um það, að ef það hefir algerlega verið trassað að skipa þessa ábyrgðarmenn, eins og dæmi munu vera til, en reglan er sú, eftir því sem mér er sagt, að þeir, sem fyrir eru, skipi ábyrgðarmenn eftir eigin geðþótta í stað þeirra, sem úr ganga, hafi þeir fyrirgert rétti sínum til þess, ef trassaskapurinn hefir átt sér stað í 2 ár eða lengur. Með slíka sjóði á að fara eins og gert er ráð fyrir um stjórn þeirra sparisjóða, sem eru eign bæjar- eða sýslufélaga og enga ábyrgðarmenn hafa. Þetta er meginkjarninn í mínum till., og þótt ég reikni með því, að meiri hl. n. fallizt ekki á hann, þá þykir mér rétt að koma fram með minn ágreining. Annars skal ég játa, að þær breyt., sem n. hefir borið fram, eru til mikilla bóta á l. um sparisjóði, og sumar þeirra nokkur lagfæring á frv. eins og það var lagt fyrir n. Um þetta deila nm. yfirleitt ekki, og vegna þess að allir hafa sannfærzt um það, að breyt. þyrfti á þessu að gera, hefir n. öll fallizt á þær brtt. í meginatriðum, sem hún ber fram. En ég vil að síðustu taka það fram, að ég legg það mikið upp úr þessum breyt. á sparisjóðslögunum, að ég mun ekki ganga á móti frv., þótt mínar till. verði ekki samþ. — Það var gert ráð fyrir því af n. hálfu, að fá umsögn okkar veglegustu peningastofnana, bankanna, um málið, en n. sá sér ekki fært að bíða eftir svörum þeirra og tók því til sinna ráða og afgr. málið. Ég get þessa hér, ef síðar kynnu að koma fram aths. um það, að álits þessara stofnana hafi ekki verið leitað.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt. mínar, og mun ekki standa aftur upp nema alveg sérstakt tilefni gefist til frá hv. frsm.