29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

31. mál, sparisjóðir

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vii fyrst geta þess, að í brtt. frá meiri hl. allshn. á þskj. 280 er sú villa, að þar stendur „og“, en á að vera: eða. Vona ég , að þetta megi lagfæra í prentuninni.

Ég hefi ekki ástæðu til þess að svara miklu, sem fram hefir komið í ræðum hv. þm. síðan ég flutti framsöguræðu mína. Samt vil ég segja fáein orð út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á í sinni ræðu. Hann hélt því fram, að tala ábyrgðarmanna hefði enga þýðingu, heldur upphæðin. En það er einmitt tala ábyrgðarmannanna, sem mestu máli skiptir, en ekki upphæðin. Þess vegna verður upphæðin því hærri sem ábyrgðarmennirnir eru fleiri, og þess vegna höfum við borið fram brtt. um fjölgun ábyrgðarmanna. Þeim, sem kvartað hafa yfir því, að smærri þorp ættu erfitt með að fá 18 ábyrgðarmenn, hefi ég bent á það, að hægt væri að láta sparisjóðina gilda yfir stærri svæði. Annars er þetta ekki svo stórvægilegt atriði.

Hv. 2. þm. Reykv. telur það til bóta, að sýslunefndum og bæjarstjórnum sé veitt vald til þess að kjósa sparisjóðsstjórnir. En ég veit af reynslu, að það hefir orsakað óánægju hjá sparisjóðum, að þeir hafa ekki fengið að ráða sína starfsmenn. Þetta sama kom fram hjá hæstv. atvmrh.; hann tók í sama streng og ég. Ég sé ekki betur en að það geti orðið klofningur í sparisjóðunum, ef farið yrði eftir till. hv. minni hl. allshn., þannig að þeir, sem kosnir eru af ábyrgðarmönnum, hafi einræði og geri allt á móti þeim, sem kosnir eru af sýslunefndum. Ef klofningur yrði innan sjóðsstj., þá væri heppilegra, að ábyrgðarmenn skiptu sér niður í flokka, eftir því sem þeir vildu, við kosninguna á sínum starfsmönnum, og þeim er það vitanlega áhugamál, fyrst þeir hafa lagt sig fram til þess að koma þessari stofnun á fót, að fá að ráða stjórninni.

Hv. þm. A.-Húnv. bar fram varnir fyrir brtt., sem hann hefir flutt ásamt hv. 6. þm. Reykv. á þskj. 291, um það, að ríkissjóður yrði látinn standa í ábyrgð fyrir sparisjóðsinnstæðum. Ég þarf litlu að svara þessu, vegna þess að hæstv. fjmrh. hefir tekið flest atriði, sem hér koma til greina, til athugunar. Ég vil aðeins benda á það, að það er ólíku saman að jafna, þar sem eru bankar og sparisjóðir í þessu efni, vegna þess að bankar eru reknir á ólíkt áhættusamari grundvelli en sparisjóðir, og þess vegna er eðlilegt, að ríkissjóður sjái sig neyddan til þess að veita þeim allan þann stuðning, sem fært er, til þess að menn geti borið fullt traust til þeirra.

Ég þori að fullyrða, að traust sparisjóða muni ekki minnka við það, þótt þeim verði ekki veitt ríkisábyrgð. Ábyrgð ríkissjóðs er alls ekki aðalatriðið fyrir því, að menn vilja ekki leggja fé sitt í sparisjóð. Ástæðan er venjulega sú, að enda þótt menn vilji styrkja sparisjóðina á þeim stað, þar sem þeir búa, þá geta þeir ekki lagt allt sitt fé inn í hann, vegna þess að þeir þola ekki að bíða eins lengi eftir fénu og þeir þurfa oft og tíðum að gera, ef sparisjóður geymir fé þeirra. Sparisjóðir hafa ekki innlánshefti með ávísanabókum ne heldur hlaupareikninga. Þess vegna er mjög miklum erfiðleikum bundið að fá fé sitt út úr sparisjóðunum. En þeir menn, sem hinsvegar vilja hafa fé sitt á öruggum stað og treysta sparisjóðunum, og þurfa ekki að taka féð út jafnóðum, þeir leggja fé sitt inn í þá, og þeir menn eru jafnöruggir með sitt fé þar eins og þó þeir legðu það í banka, sem reka miklu áhættumeiri starfsemi heldur en sparisjóðirnir, eins og kunnugt er. Þeir sparisjóðir, sem ég þekki til, hafa engu tapað. Í Barðastrandarsýslu eru fjórir. Hjá þeim eru allar lánveitingar svo strangar, að aldrei eru veitt lán út á fasteignir nema gegn fyrsta veðrétti, og þar eru aldrei veittir víxlar eða fastalán, nema öruggir menn standi bak við, og aldrei nema litlar upphæðir. Hinsvegar hafa þessir sparisjóðir gert mikið gagn með því að gera einstökum mönnum kleift að reisa byggingar eða eignast jarðir o. s. frv.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að minnast á það, sem fram hefir komið í þessu máli hjá einstökum hv. þdm.