04.12.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

Afgreiðsla þingmála

Gísli Guðmundsson:

Út af orðum hv. þm. Snæf. um frv. það um breytingar á vegalögunum, er hann flutti í fyrri hl. þessa þings, vil ég taka það fram, að það er rétt, sem hann sagði, að þessu frv. var vísað til samgmn. í sínum tíma. Síðan frv. var flutt hefir komið fram í deildinni fjöldi af brtt. við þetta frv., sem allar fara fram á það, eins og frv. sjálft, að bæta við nýjum vegum og vegahlutum inn í vegalögin. Samgmn. gerði það í þessu máli, sem hún taldi fyrst liggja fyrir, sem var að senda frv. ásamt brtt, sem fyrir lágu, til vegamálastj. og æskja umsagnar hans. Umsögn vegamálastjóra kom til n. aftur að mig minnir snemma í síðastl. mán. Um umsögn hans er það að segja, að hann telur vandkvæði á því að samþ. að svo stöddu verulegar breytingar á vegalögunum, þar sem ekki er langt síðan lögunum var breytt, og vegna þess að brtt. þær, sem hér liggja fyrir, fara fram á mjög mikla aukningu á vegakerfinu. N. hefir ekki tekið fullnaðarákvarðanir viðvíkjandi frv. og brtt., og ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég get ekki séð, að það skipti miklu máli, hvort ákvörðun er tekin á þessu þingi eða þinginu í vetur. Annars er sjálfsagt, að þetta mál verði athugað í n. eins og önnur mál, sem til hennar er vísað.