02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

89. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal játa, að ég tel þessa brtt. heldur til bóta í frv. Samt vil ég mælast til, að d. felli hana. Ég held, að það valdi svo lítilli breyt., þó að hún verði samþ., að ekki sé vert að eiga það á hættu, að frv. nái ekki fram að ganga, með því að ég hygg líka, að ná megi samkomulagi í þessu atriði við bæjarstjórnir. Bæði lögregluþjónar og byggingarfulltrúar eru á launum hjá bæjarstjórnum, og ég hygg því, að fullkomlega sé hægt að komast að samkomulagi við bæjarstjórnirnar, að þar, sem er launaður byggingarfulltrúi á annað borð, sé hann látinn gera þetta án sérstaks endurgjalds. Ég veit, að bæjarstjórnum er mikið áhugamál, að þetta eftirlit verði sem bezt, og býst því við, að hægt sé að komast að samkomulagi við þær í þessu efni.