19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

70. mál, hvalveiðar

Bergur Jónsson:

Vegna þess að enginn af flm. frv. var viðstaddur, þegar málið var til 1. umr., vil ég fara um það fáeinum orðum Hér er um að ræða dálitla hjálp við menn, sem hafa ákveðið að reyna að koma á stofn atvinnu, sem ekki er til í landinu. Mér finnst það dálítið skammarlegt, eftir allt gumið um sjómennina, að við skulum ekki geta staðið Norðmönnum á sporði í þessum efnum. Heimildin gengur út á það, að félagið fái leyfi til að hafa útlend skip á leigu, en setur það skilyrði, sem öruggt verður að teljast til þess að ekki verði notaður of mikill útlendur vinnukraftur. Ég þakka sjútvn. fyrir góða afgreiðslu á málinu og vonast til, að enginn af hv. þdm. leggist á móti þessum eina möguleika, sem hér veitist til að styrkja þennan nýja atvinnuveg og greiða fyrir honum. Það hefir þegar verið hafizt handa um þessi mál; t. d. er byrjað að byggja þús, og mun vera búið að leggja í það allmikið fé, og ég býst við, að allir þeir menn, sem líta á þetta réttum augum, sjái, að hér er um nauðsynjamál að ræða, sem ætti að styrkja meira en gert er. Það er kunnugt, að félag þetta hefir sótt um ríkisábyrgð fyrir láni, og jafnvel um lán úr ríkissjóði; en nú hefir það haldið því fram, að þessi heimild geti nokkuð hjálpað, og undir afgreiðslu þessa máls mun það komið að miklu leyti, hvort lánsbeiðnin verður látin falla niður eða ekki, og eru meiri líkur til þess, að hún falli niður, ef þessi heimild verður samþ. mótmælalaust.