09.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Á síðasta þingi var flutt frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna. Varð málinu ekki lokið á því þingi, en ég beindi þá tilmælum til sjútvn. um að athuga, hvort ekki væri hægt að afgr. það þannig, að viss grein útgerðarinnar fengi skuldaskil. Gat ekki orðið samkomulag um þetta á því þingi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að hjálpa þeim hluta vélbátaútvegsins, sem ekki getur talizt sjálfbjarga, til að fá skuldaskil. Í frv. er gert ráð fyrir, að þeim vélbátaeigendum einum verði hjálpað til að fá skuldaskil, sem skulda meira en 75% af virðingarverði eigna. Þó geri ég ráð fyrir, að eitthvað kunni að verða rýmt hér til. En ætla má, að þeir, sem skulda minna en 75%, geti staðið nokkurn veginn óstuddir.

Hér er fylgt þeirri meginreglu að veita þessi lán í peningum, en ekki í skuldabréfum eins og kreppulánasjóður hefir gert. Gert er ráð fyrir, að einungis vélbátaútvegurinn fái þessa hjálp, og þá aðeins þeir, sem skulda yfir 75% á móti eignum, en aftur er ekki til þess ætlazt, að togaraútgerðin hljóti hana, enda er hún í hendi stærri og öflugri félaga. Þá ber og á það að líta, að vélbátaútvegurinn veitir tiltölulega miklu fleiri mönnum atvinnu.

Það má gera ráð fyrir því, að þetta séu alláhættusöm lán og að nokkuð tapist af þeim. Þó er það mjög komið undir árferði, hvort þau heimtast vel eða illa. En til þess er ætlazt, að það, sem heimtist inn, renni ekki aftur í ríkissjóð, heldur í fiskveiðasjóð. Ég skal enga áætlun gera um það, hve mikið af lánunum endurgreiðist. Það fer, eins og ég sagði áðan, eftir árferði, sölumöguleikum og öðru.

Ég vildi óska, að málinu mætti hraða svo, að hægt væri að afgr. það á þessu þingi. — Þessi lán eru hagstæðari en flest þau lán, sem sjávarútvegurinn á völ á. Vextir eru 41/2% á ári, og lánin eru vaxtalaus fyrsta árið og afborganalaus fyrstu 3 árin.

Ég legg til, að frv. verði vísað til sjútvn.