09.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég þarf í rauninni fáu að svara hv. þm. Snæf. mér þykir það leitt, að þetta frv. skuli hafa orðið honum vonbrigði. En mig furðar stórlega á því, að slík vonbrigði skuli hafa átt sér stað, en þau stafa kannske af því, að hann átti ekki sæti í sjútvn. En þetta frv. um skuldaskilasjóð, sem hér liggur fyrir, er nákvæmlega samkv. samkomulagi, sem varð á síðasta þingi um þetta mál. Þá var það boðið, að taka út úr vélbátaútveginn og reyna að leysa úr vandræðum þeirra, sem þar eru verst stæðir, með því að taka 11/2 millj. kr. lán.

Nú telur hv. þm. Snæf., að þessi 11/2 millj. sé sýnd veiði, en ekki gefin, og að engar líkur séu til þess, að hægt sé að fá lán í þessu skyni. Ég skal nú ekki vera með neinar fullyrðingar í því efni, enda er rétt, að engin ákveðin loforð eru gefin um það. En að sjálfsögðu hefir stj. fullkomlega von um, að það sé mögulegt, því annars hefði hún ekki borið þetta frv. fram. En heldur hv. þm., að það hefði verið auðveldara að fá 5 millj. kr. lán? ég hygg, að ef það er örðugleikum bundið að fá upphæð, sem nemur 11/2 milij. kr. — en um það skal ég engu spá —, þá sé það ekki minni örðugleikum bundið að fá þá upphæð þrefalda eða fjórfalda.

Hv. þm. þykir rökstuðningur sá, sem fylgir frv., lítill. Hann sagði, að það hefði verið mikili munur í fyrra, því þá hefði rökstuðningurinn verið heil bók, sem hafi innihaldið upplýsingar um fjárhag allra útvegsmanna á landinu. Ég vil benda á, að það er sami rökstuðningur, sem liggur á bak við þetta frv. Það sýndi sig á þessari bók mþn., að þeim verst settu af vélbátaeigendunum má veita mikla hjálp með þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég skal játa, að upphæð sú, sem ætluð er til þessa í frv., er ekki ýkjarausnarleg, en það er von til þess, að með þessari upphæð megi ná því marki, sem frv. er ætlað að ná. Það er hlutur, sem enginn getur lokað augunum fyrir, að framlög ríkissjóðs hljóta að takmarkast af þessu tvennu: Annarsvegar getu ríkissjóðs til að afla fjárins, og hinsvegar því, hversu aðkallandi kröfur eru um hjálp af hendi hins opinbera.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði á síðasta þingi, að hversu mikilsvert sem það er að koma útgerðinni á sæmilegan fjárhagslegan grundvöll, þá má hið opinbera ekki binda svo fjárhagslega getu sína, að ekki sé eitthvert fé fyrir hendi til þess að létta undir með útgerðinni, þannig, að atvinnureksturinn geti haldið áfram, t. d. með ýmiskonar nýbreytni, sem varðar verkun fiskjarins, o. s. frv. Með l. um fiskimálanefnd frá síðasta þingi var samþ. að heimila ríkisstj. að taka 1 millj. kr. lán í því skyni að letta undir með afkomu útgerðarinnar og til þess að taka upp ýmiskonar nýbreytni í verkun fiskjarins o. s. frv. Ég tel skylt að nota þessa heimild út í æsar. Það liggur í augum uppi, að það má ekki algerlega takmarka getu hins opinbera við að veita hjálp til skuldaskila. Þeir sjálfsögðu aðilar í því efni eru lánsstofnanir þær, sem lánað hafa fé til þessara fyrirtækja.

Hv. þm. Snæf. taldi ekki vænlegt að leita til útlanda um lán í þessu skyni. Ég er honum sammála um það, því hér er ekki um það að raða að skapa nýjan atvinnuveg eða nýja tekjulind, hvorki fyrir einstaklinga eða ríkið, heldur að koma skuldunum í hagkvæmara horf, útvega betri lánskjör og strika út þær skuldir, sem telja má tapaðar.

Ég sé enga ástæðu til þess að fjargviðrast út af því, þó sjálfstæðismenn úr sjútvn. séu ekki viðstaddir þessa umr. Ég hefi lagt til, að málinu væri vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr., og fá þeir þá aðstöðu til þess að athuga frv. og segja álít sitt um það.