09.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Thor Thors:

Ég veit ekki, hvort hæstv. atvmrh. vildi snúa út úr orðum mínum. Ég sagði, að frv. sjálfstæðism. væri ekki að öllu leyti byggt á láni. Þar er gert ráð fyrir, að af þeim 5 millj., sem alls er ætlazt til, að lagt sé til skuldaskilasjoðs, verði 3 millj. teknar að láni, en hitt fengið með því að láta útflutningsgjald af sjávarafurðum renna til sjóðsins. En nú skiptir það mestu máli, að viðhorfið hefir stórum breytzt til hins lakara frá því á síðasta þingi. Ef frv. hefði gengið fram þá, meðan engin loforð lágu fyrir frá ríkisstj. gagnvart erlendum lánardrottnum, voru miklu meiri möguleikar til þess að afla sjóðnum lánsfjár. Ef hæstv. ráðh. hefir trú á, að hægt sé að fá lán innanlands, þá óska ég honum til hamingju og vil segja: mikil er trú þín, kona !

En ég er hræddur um, að honum verði ekki að trú sinni, og vil ég í því sambandi benda á erfiðleika bæjarfélaga um að fá smálán á undanförnum árum.