22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Sigurður Kristjánsson:

Ég get ekki litið öðruvísi á þetta frv., eftir því sem á undan er gengið, en að það eigi að nota það til þess að vísa málinu raunverulega frá þessu þingi. Það hafa engin rök verið færð fyrir því, að það feli í sér nokkra hjálp fyrir sjávarútveginn. Þegar við bárum fram frv. um skuldaskilasjóð á síðasta þingi, var því borið við af stj.liðinu, að málið væri ekki nógu vel undirbúið og að ekki hefði unnizt tími fyrir stj. að gera ráð fyrir þeim tekjumissi, sem frv. veldur ríkissjóði, við samning fjárlagafrv. fyrir 1935. Þá fékkst þessi frestur, því stj. og fylgismenn hennar höfðu allt í sinni hendi. Það hefði því mátt ætla, ef þessar ástæður hefðu verið bornar fram í einlægni, að fresturinn hefði verið notaður til þess að bæta úr þessum tveim atriðum. Nú hefir stj. svarað þessu með því að leggja þetta frv. fyrir þingið í skjóli meiri hl. sjútvn.

Um undirbúning að frv. þessu er mér ekki kunnugt. Þó hefir verið sagt, að stj. hafi fengið 3 menn til að semja það. Hefi ég að vísu heyrt nöfn þeirra nefnd, en man þau ekki, því ég kannaðist ekki við þau, og þekki ég þó flesta þá útgerðarmenn, sem eitthvað hefir borið á. Má því hafa þetta nokkuð til marks um það, að menn þessir hafi ekki staðið í miklum stórræðum. Þó man ég eftir nafni Erlings Friðjónssonar, og mun hann hafa verið einn þessara manna, en hvenær hann hefir öðlazt sérþekkingu á þessum málum, veit ég ekki, e. t. v. hefir hann gengið á námskeið áður en hann hóf verkið. Frv. ber ekki með ser, að fagmenn hafi um það fjallað. Að formi til er það sniðið eftir frv. okkar sjálfstæðismanna, sem við fluttum á þinginu í fyrra.

Að hinum efnislegu atriðum skal ég koma smám saman. Undirbúningur undir málið virðist mér þess vegna ekki hafa verið geysimikill fram úr því, sem áður hafði verið. Enda var það margra manna álit, að stj. væri ekki vönd í undirbúningi annara mála. Mörgum þeirra hefir verið hrækt inn í þingið óköruðum. Þetta mál hafði þó verið til meðferðar í milliþingan. þingsins í heilt ár, að mig minnir. Hitt sjá allir, hvernig tekizt hefir til með að afla fjár til þessara mála. Eins og ég tók fram áðan, hefir því verið við borið, að stj. hafi ekki getað tekið tillit til þess tekjumissis, sem frv. okkar gerir ráð fyrir, vegna þess að kröfur um hann hafi ekki komið til stj. nægilega löngum tíma áður en fjárlagafrv. fyrir árið 1935 var samið.

En í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir neinum tekjustofnum fyrir ríkissjóð fyrir því, sem hann eigi að láta af mörkum, en upphaf frv. er það, að þessa litlu upphæð, sem ætlazt er til, að skuldaskilasjóður fái, eigi sjóðurinn að taka að láni, en ríkissjóður á að vera í ábyrgð.

Ég vil í þessu sambandi taka það enn fram, að það er hinn mesti misskilningur, að við sjálfstæðsmenn höfum nokkurntíma farið fram á bein fjárframlög úr ríkissjóði til þessara skuldaskila. Það er það, sem skilur þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í frv. okkar í fyrra, frá þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru þegar aflað var fjárins til skuldaskila fyrir landbúnaðinn, að við fórum alls ekki fram á nein framlög úr ríkissjóði, heldur aðeins það, að ríkissjóður hætti að innheimta vissa beina skatta af sjávarafurðum, m. ö. o., að útvegurinn fengi að halda þessum hluta tekna sinna og verja honum til sinna þarfa, til þess að rétta við hag útgerðarinnar.

Ég hygg, að ekki þurfi mjög skarpskyggna menn til þess að sjá þann mikla mun á undirtektunum undir þetta mál og þeim undirtektum, sem ráðstafanir út af fjárhagsvandræðum landbúnaðarins fengu hér á hæstv. Alþ. Þetta er þó alls ekki sagt vegna þess, að ég telji ekki, að landbúnaðurinn hafi verið verðugur þeirrar aðstoðar. En ég get bara ekki séð, a. m. k. ekki í fljótu bragði, muninn á nauðsyninni til þess að halda við atvinnurekstri til lands og sjávar. Ég veit ekki annað en að þeir menn, sem lifa á atvinnurekstri við sjávarsíðuna, séu jafnréttháir borgarar í landinu og hinir, sem lifa af framleiðslu jarðarinnar. En þegar við berum saman þörfina í þessu efni hjá þessum tveimur atvinnugreinum annarsvegar og jafnhliða þann arð, sem þeir bera landsfólkinu og ríkinu, og hinsvegar þá stoð, sem núv. hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar á þingi, að ætla má, ætla þessum atvinnugreinum, þá virðist þarna vera gert upp á milli olnbogabarns og eftirlætisbarns. Landbúnaðurinn var þannig staddur, eftir þeim rannsóknum að dæma, sem fram fóru, að eignir hans voru helmingi meiri en skuldirnar. Eignir hans voru, að mig minnir, rúml. 63 millj., en skuldir hans um 33 millj. kr. En eignir sjávarútvegsins virtust vera um helmingi minni en landbúnaðarins, en skuldir h. u. b. jafnar, eða jafnvei meiri, því að ég geri ráð fyrir, að hagurinn hafi versnað síðan það ár, sem rannsóknin var miðuð við, af því að síðan hafa liðið tvö ár, óhagstæð fyrir þennan atvinnuveg.

Á hvorum atvinnuveginum, landbúnaðinum eða sjávarútveginum, fleiri menn í landinu lifa, skal ég ekki segja. Heldur fleiri hygg ég þó, að muni lifa af sjávarútvegi. En á því fé, sem fæst fyrir útfluttar afurðir af hvorum þessara atvinnuvega fyrir sig, er mikill munur, því að sjávarútvegurinn eða útgerðarmenn flytja út rúma 90/100 af öllu því verðmæti, sem flutt er út úr landinu árlega. En aðstoðin, sem þessum atvinnugreinum hefir verið ætluð, er þessi: Landbúnaðurinn skal fá til sinna skuldaskila 11 millj. kr. En nú sé ég , að hæstv. ríkisstj. og hennar hjálparmenn, hv. flm. þessa frv., ætlast til, að þessi míkli atvinnurekstur, sjávarútvegurinn, sem fæðir um helming landsmanna og framleiðir um 90% af öllum útflutningi þeirra, fái sér til réttingar að taka lán að upphæð 11/2 millj. kr. Því er ekki hægt að neita, að með þessu frv., þó að það sé með svona orðalagi, er samt verið að vísa frá þeirri beiðni, sem fram hefir komið fyrir hönd sjávarútvegarins, þessum atvinnurekstri til viðreisnar. Þetta er því ekkert annað en — maður getur sagt mildileg frávísun. Ég veit, að þeir menn, sem fluttu þetta frv., þeir munu að gömlum vanda berja sér á brjóst og þykjast gera góðverk. En þeir bæta bara yfirdrepskap ofan á sína þrjózku gegn þessu mikla nauðsynjamáli.

Ég vil nú nota tækifærið og spyrja hæstv. atvmrh. um það, hvort hann hafi, og, þá hvenær, borið þetta mál undir bankana. Ég geri ráð fyrir, að þótt undarlegt atvik kæmi fyrir í sjútvn. í þessu efni, þá muni hæstv. ríkisstj. vera hátt upp hafin yfir það í sínum háttum að fara að hætti meiri hl. sjútvn. í þessu máli, og því hafi hún borið það undir bankana, þá aðilja, sem fyrir margra hluta sakir kemur það mest við og sömuleiðis eiga að hafa aðstöðu til að bera á það miklu meira skyn heldur en almenningur. Þess vegna spyr ég hæstv. atvmrh. um það, hvort hann hafi ekki borið þessi mál undir bankana, og hvort þeir hafi gefið um þau nokkur svör.

Ég gat um, að nokkuð skrítið atvik hefði komið fyrir í sjútvn. einmitt út af þessu efni. Hv. þm. Vestm., sem á sæti í þeirri n., gerði, þegar þetta mál var til umr. á fundi í n., þá till., að bönkunum yrði sent frv. þetta til umsagnar og þeir beðnir að gefa um það umsögn mjög fljótt. Þessi till. var felld með 3 atkv. gegn 2. Allir flm. frv. felldu hana. Þeir sögðu það vitanlega ekki með orðum, að bankarnir hefðu ekkert vit á þessu. En annaðhvort fólst í þessari framkomu þeirra það, að þeir áliti, að bankastjórarnir hafi ekki vit á þessu á við sjálfa þá, eða þá hitt, að þeir vildu engra annara umsögn fá um málið en þeirra sjálfra, nefnilega ekkert á það hætta. Skal ég ekki gera tilraun til að dæma um, hvort af þessu tvennu lá til grundvallar fyrir þessari framkomu meiri hl. n. En það er ákaflega fátítt, að menn, sem vilja flytja fram mál og fá það samþ., vilji ekki hafa stuðning þeirra manna, sem eru áhrifamenn, ef þeir geta vænzt þess að fá hann.

Þá var í sjútvn. farið fram á það, að afgreiðslu málsins yrði frestað í 2 daga, sökum þess að frv. okkar um þetta sama efni var þá í prentun, og það er talsvert breytt, a. m. k. í einu atriði, frá því, sem var í fyrra. Og okkur þótti ekki ólíklegt, að meiri hl. sjútvn., ef hann vildi af einlægni starfa með okkur að úrlausn þessa vandamáls, mundi vilja líta á þetta frv., sem þá var í prentun. En þetta var líka fellt í nefndinni.

Skal ég svo fara út í einstakar gr. frv.

Það er strax athyglisvert við þetta frv., að það gerir ráð fyrir, að tekinn sé út úr lítill hluti af útgerðinni. Og þegar á að fara að rétta við hag þessara manna, þá á hjálpin að vera í því fólgin, að þeir af þeim, sem skulda yfir 75% á móts við eign, þeir einir eiga að fá þessa svo kölluðu hjálp, sem á að vera í því fólgin, að þeir geti fengið lán gegn 41/2% vöxtum, úr sjóði, sem þeir sjálfir mynda með lántöku. Og lánin eiga að vera sem svarar 15% á móti eignum þeirra. Með þessu eiga þeir svo að gera skuldaskil. Og það virðist svo sem hv. frsm., eða réttara sagt ríkisstj., sem flytur frv., telji, að það eigi að vera aðalmarkmiðið, að eignir og skuldir standist á, mennirnir eigi sem sagt ekki neitt.

Við, sem fluttum frv. í fyrra, sem ég gat um, töldum náttúrlega, að vel gæti komið fyrir, að ekki yrði hægt að koma meir niður skuldum manna í þessum atvinnuvegi en svo, að þeir ættu fyrir skuldum, vegna þess að eignir þeirra væru svo veðbundnar. En aðalmarkmiðið var, að menn skulduðu ekki meira en sem svaraði 65% af eign. En þeir menn, sem samkv. frv. eiga að fá að njóta þeirrar náðar að fá að mynda sér sjóð með lántökum og síðan að fá þessi 15% lán úr honum, þeir eiga svo að borga 41/2% í vexti af lánunum, og auðvitað líka lánin upp. Um leið og ég minnist á þessar lántökur vil ég geta þess, og okkur, sem erum í minni hl. í sjútvn., hefir skilizt það, eins og mörgum fleirum, samkv. hinum nýgefnu loforðum hæstv. ríkisstj., að það muni vera mjög vafasamt, hvort ríkið gæti ábyrgzt lán þau, sem hér er um að ræða. Við þorum a. m. k. ekki að gera ráð fyrir því. Hæstv. fjmrh. hefir birt yfirlýsingu í þá átt, að loforð hafi verið gefin lánardrottnum ríkisins um, að ríkið ábyrgðist ekki lán. Vera má, að innlend lán hafi þar verið undanskilin. En ég hygg, að erfitt muni reynast að fá slík innanlandslán, einkum þegar hv. flm. virðast líta svo á, að bönkunum komi þetta mál ekkert við. Þeir ætla þá líklega ekki að biðja bankana um þessi lán. Það er athyglisvert mál, ef hér er verið að undirbúa löggjöf um lántöku, sem fyrirfram er vitað, að muni ekki fást.

Það stendur hér í 5. gr. frv., að þessi lán skuli notuð til þess að fá skuldir manna niður færðar, og er það sett sem eitt af skilyrðum fyrir því, að lán verði veitt, „að samningar náist um svo mikinn afslátt á skuldum lánbeiðanda, að raunverulegar eftirstöðvar þeirra, sem sé allar skuldir hans, eftir að lán skuldaskilasjóðs hefir verið veitt og skuldaskilasamningur gerður, nemi ekki meiru en sem svarar þeim hluta af virðingarverði allra eigna hans, sem sjóðstjórnin telur honum fært að standa straum af, og aldrei meiru en sem svarar fullu virðingarverði eignanna; svo og að samningar náist um viðunanleg greiðslukjör á þeim hluta skulda hans, sem ekki greiðist með skuldaskilasjóðsláninu“.

Ég veit ekki, hvaða skuldir hæstv. stj. hugsar sér, að þetta séu. Ég hefði haldið, að þetta væru skuldir, sem tryggðar eru með veði, en síðar í frv. er tilgreint, að sé alveg óviðkomandi samningum þessum. Mér skildist, og okkur flm. frv. í fyrra, að allar lausaskuldir ættu að greiðast upp með þeim lánum, sem skuldaskilasjóður veitti, en eftir stæðu veðtryggðar skuldir og skuldir við skuldaskilasjóð. Í 20. gr. frv. er það tekið fram, að skuldaskilasamningurinn hafi engin áhrif á þær kröfur, sem þar greinir, og eru svo taldar upp allar skuldir, sem tryggðar eru með veði. En samt sem áður er það sett að skilyrði fyrir því, að lánið verði veitt, að samningar náist um viðunanleg greiðslukjör á þeim hluta skulda lánbeiðanda, sem ekki greiðist með skuldaskilasjóðsláninu. Ég get ekki komið þessu saman. Mér virðist, að þetta muni leiða það af sér, að aldrei verði hægt að lána úr sjóðnum. Ég geri ekki ráð fyrir, að maður, sem hefir sett fasteign eða skip að veði fyrir sinni skuld, fari að breyta henni, ef hann á engin ný fríðindi að fá við það að breyta skuldinni; ég held, að það sé alveg óhugsandi.

Það kemur mjög einkennilegur hugsanagangur fram í grg. frv. Þar er miðað við, að lánsfjárþörf til bátaútvegsins sé um 11/2 millj. kr., miðað við það mat, sem mþn. í sjávarútvegsmálum hefir lagt til grundvallar á eigum þeirra manna, sem skuldaskil eiga að ná til samkvæmt frv. þessu, því að n. taldi eignir þeirra vera 9157586.00 kr. Og 13% af þessari upphæð verður 1373637.90 kr. Nú stendur hér í grg., að ekki sé líklegt, að mat sjóðsins á eignum lánbeiðenda breyti þessum tölum svo neinu nemi, því að þótt lægra mat á eigum minnki eitthvað lánin til hinna fyrrnefndu tveggja flokka, þá hljóti það jafnframt að koma undir skuldaskilin mönnum, sem nú séu taldir til annars flokks. Þetta er sagt, að muni sjálfsagt vega nokkurn veginn hvað á móti öðru, svo að lækkun eignanna muni ekki við hið nýja mat hafa nein veruleg áhrif á stofnfjárþörf sjóðsins.

Við í mþn. höfum gert ráð fyrir, að matið, sem í nál. er gengið út frá, sé nú orðið of hátt. Og ég gat þess í framsöguræðu um málið á síðasta þingi, að það væri alveg eðlilegur hlutur í erfiðu árferði, að eignir þessa atvinnuvegar gengju úr sér miklu meira en í venjulegu árferði. Það má gera ráð fyrir, að þessar eignir hafi talsvert rýrnað, vegna þess að menn hafi yfirleitt ekki haft efni á því í slíku árferði, sem undanfarið hefir verið fyrir sjávarútveginn, að halda svo við þessum eignum sínum eins og þurft hefði, til þess að þær gætu talizt jafnverðmiklar og áður. En hér í grg. er talað um, að ef um slíka rýrnun á eignum verði að ræða, þá geti það jafnazt upp með mönnum, sem ekki hafi verið taldir í áliti mþn., sem við nýtt mat mundu reynast skulda meira en á við 75% af eignum. En það virðist ekki vera tekið tillit til þess, að skuldir þeirra manna, sem þannig kynnu að bætast við, geta verið geysilegar, og yfirleitt virðist hér vera í þessu efni talið, að lánsþörfin sé því minni sem skuldirnar eru meiri á móts við eign. Ég skil þetta svo, að ætlazt sé til, að þeim mönnum verði alls ekki hjálpað, sem verulega illa eru staddir, þannig að þeir teljist ekki hæfir til þess, að þeim sé lánað.

Þetta var vitanlega alls ekki tilgangur okkar. Það eru svo mörg atvik, sem geta valdið því, að einn maður er verr staddur en annar. Getur það m. a. stafað af mismunandi atvinnuskilyrðum á ýmsum stöðum á landinu. En þörfin á því, að útgerðin geti haldið áfram, er jafnmikil fyrir því. Ég get ekki annað út úr þessum ákvæðum frv. fengið en það, að fyrst eigi að meta það, hvort mennirnir, sem um lán sækja, séu hæfir fyrir lántöku, og reynist þeir það ekki, þá eigi að láta þá verða gjaldþrota. En þetta er mjög varhugaverð braut, því að afleiðing þessa getur orðið sú, að heil byggðarlög við sjó leggist í eyði, vegna þess að útgerð getur ekki haldið þar áfram. Aflaskilyrði eru svo misjöfn í ýmsum verstöðvum landsins, að í sumum þeirra getur verið, að ekki sé til neinn bjargálnamaður. Ef því á að styrkja útgerðarmenn, þá verður að styrkja þá á hverjum stað, sem þess þurfa.

Ég ætlaði ekki að halda um þetta langa ræðu nú. En ég vildi taka það fram, að ég tel, að engin úrlausn sé fengin í þessu vandamáli, þó að frv. þetta sé samþ. Ég tel, að verr sé farið en heima setið, ef krafsað er svo við þessu máli að samþ. slíkt frv., því að slíkt getur ekki orðið til annars en að tefja fyrir þeim ráðstöfunum í málinu, sem að gagni gætu orðið. Ég tel það mjög misráðið að taka þannig undir nauðsynjamál sjávarútvegsins, einmitt nú, þegar sýnt er, að ýmsar stoðir ætla að hrynja undan þessum atvinnuvegi, en ekki er sýnt, að neitt geti komið í staðinn. Ég sé ekki, á hverju landsfólkið á að lifa, ef sjávarútvegurinn dregst saman.

Ég lýsi því yfir, að ég mun fylgja fast frv. okkar sjálfstæðismanna, sem nú er fram komið um þetta efni. Þegar það verður tekið fyrir til umr., verður hægt að ræða þetta frv. frekar í sambandi við það.

Að lokum vil ég leggja áherzlu á það, að ég lít svo á, að frá hendi stj. og þeirra, sem kunna að fylgja henni í að samþ. þetta frv., sé þetta frv. ekkert annað en frávísun á málinu.