22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að blanda mér mikið inn í þessar umr. En af því að hv. 6. þm. Reykv. kom að þeirri yfirlýsingu, sem ég hefði gefið í sambandi við lántökuna í Englandi, þá þótti mér rétt að taka til máls. Hv. þm. vildi fá að vita, hvaða loforð ég hefði gefið hinum ensku lánveitendum, hvort það ætti að ná til lántöku fyrir ríkissjóð innanlands, þannig að eigi megi veita ríkisábyrgð fyrir innlendum lánum. Þessi hv. þm. veit það ofurvel, að það er ekki um neitt slíkt loforð að ræða frá stj. hálfu í sambandi við lántökuna í Englandi. Hann veit það vel, hv. þm., að þær yfirlýsingar, sem gefnar voru í sambandi við lántökuna, voru einungis þær, að stj. kvaðst stefna að því að forðast lántökur erlendis og forðast að veita ríkisábyrgð fyrir lánum, sem ætti að taka erlendis, af því að hún telur ekki fært úr þessu að auka skuldir ríkisins erlendis. Hv. þm. veit það fullvel, að þessar ákvarðanir stj. snerta ekkert lántökur innanlands eða ábyrgð ríkissjóðs á lánum, sem þar eru tekin.

Þá fylgdu þessu oflátungslegar glósur frá hv. þm. um, að ef Sjálfstfl. hefði farið með fjármálastjórn landsins undanfarið, þá hefði ekki þurft að gefa þessa yfirlýsingu í sambandi við lántökuna í Englandi. En þessi flokkur, sem hv. þm. telst til, hefir einmitt staðið að stjórn landsins undanfarin 2 ár rúmlega. Og mér er ekki kunnugt um, að fjárhagsafkoma ríkisins eða þjóðarinnar í heild hafi verið sérstaklega glæsileg á þessum árum, 1932—1934. Skuldirnar við útlönd hafa hækkað verulega, af því að vöruinnflutningur til landsins hefir verið til muna meiri en útflutningurinn. Og auk þess hefir ríkissjóður stofnað til skulda á þessum árum utanlands, sem borgaðar voru með því ríkisláni, er tekið var í London í febrúarmán. síðastl. — Mér er ekki heldur kunnugt um, að þessi flokkur hv. þm., Sjálfstfl., hafi tekið þá afstöðu hér á Alþingi gagnvart þessari lántöku ríkissjóðs eða öðrum, sem geti réttlætt glósur og grobb hv. þm. Enda mun því ekki vera til að dreifa. — Annars sagði hv. þm., að þeir sjálfstm. hefðu breytt þessu skuldaskilafrv. sínu frá því í fyrra; með tilliti til þess, sem fram hefði komið síðan, þá hefðu þeir gert ráð fyrir lántöku erlendis, en nú væri í frv. þeirra gengið út frá lántöku innanlands. Það virðist svo sem þessir hv. þm. hafi ekki verið búnir að læra mikið af reynslunni um rekstur fjármála fram að þeim tíma, er þeir fluttu þetta frv. á síðasta þingi, ef það hefir verið ætlun þeirra þá að fá 3 millj. króna lán erlendis til þessa að greiða frosnar viðskiptaskuldir hér innanlands. Það vissu allir, að þegar í stað þurfti að fá samningsbundið lán erlendis til að konvertera öðrum lánum og lausaskuldum ríkisins frá síðustu árum. Það vissu allir, nema ef til vill þessir hv. flm. frv., að ekki gat komið til mála, að þar að auki yrði tekið annað lán erlendis til þess að framkvæma skuldaskil hér innanlands á margra ára frosnum skuldum sjávarútvegsins. Slík lántaka var alveg óhugsandi. En nú virðist þessir hv. þm. hafa lært það af stj. síðan í fyrra, að þetta er ekki hægt, og ekki æskileg leið til úrlausnar í þessu efni, þó fáanleg væri. — Þetta liggur alveg ljóst fyrir og var þá kunnugt, eins og greinilega kom fram í sambandi við annað mál, að stj. áleit ekki tiltækilegt að auka skuldir ríkisins við útlönd. Og þess vegna höfðum við enga trú á því á síðasta þingi, að þetta mál yrði leyst á þann hátt. Einnig er mér vel kunnugt um það, að a. m. k. sumum mönnum í Sjálfstfl. var það fyllilega ljóst þá, að það væri ekki hægt að taka lán erlendis í þessum tilgangi. Ég man vel eftir því, þegar ég fór þess á leit við hv. fjhn. Ed., að hún flytti frv. um lántökuheimild til konverteringar á eldri lánum, að þá var n. að kynna ser, hvort nokkur tók væru á því og hvort það væri skynsamlegt að flytja nýtt lánsfé frá útlöndum inn í landið, en hún mun hafa sannfærzt um, að það væri ekki hægt. Hinsvegar komst n. að þeirri niðurstöðu, að það væri tiltækilegt og æskilegt að taka lán til greiðslu á eldri skuldum ríkisins, til þess að fá betri vaxtakjör og greiðsluskilmála. Enda hefir það tekizt svo, að vel má við una.

Hv. flm. þess frv., sem minni hl. sjútvn. Nd. bar fram á síðasta þingi og einnig nú, hefir frá upphafi verið það ljóst, að þetta frv. er ekkert annað en yfirskinsfrv. til að blekkja þá, sem ætlazt er til, að njóti góðs af því. Flm. er það sjálfum ljóst, að frv. er óframkvæmanlegt með öllu, bæði sökum þess, hvað gert er ráð fyrir, að útvega þurfi mikið fé að láni til að framkvæma skuldaskil útvegsmanna, án þess að slíkir lánsmöguleikar séu fyrir hendi, og ekki síður sökum hins, að í frv. var ekki gert ráð fyrir tekjuöflun til þess að standast þau útgjöld, sem slík skuldaskil hafa í för með sér. Tilgangurinn með flutningi þessa frv. virðist vera sá, að flm. þess vilja gera sem hæst yfirboð til kjósenda, en hitt er eftir að koma í ljós, hvernig það verkar. Það má að vísu benda á, að þetta er ekki smáskorin beita, sem hampað er framan í kjósendur við sjávarsíðuna, en óvíst er, að hún þyki svo girnileg, að gleypt verði við henni.