22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Í lok ræðu sinnar vísaði hæstv. fjmrh. til þess, hvernig þetta mál hefði borið að frá upphafl. Þetta mál bar þannig að, þar sem á undan var gengin nokkur viðrétting á hag bændanna með kreppulánalöggjöfinni, að sjútvn. þessarar d. lét sér til hugar koma þá firru, að það myndi eitthvað vera til í hugum hv. þm., sem nefna mætti sanngirni, a. m. k. sú sómatilfinning, að löggjafarvaldinu bæri að hjálpa útvegsmönnum eins og bændum. Á þeim grundvelli var þetta mál borið fram upphaflega. Ennfremur, að sá atvinnuvegur, sem staðið hefir undir hinum fjárhagslega stuðningi til bænda og veitt þjóðarbúinu langsamlega mestar tekjur, mundi eiga þeim skilningi að mæta hjá landsmönnum yfirleitt, hvaða stj. sem væri við völd, að honum yrði sómi sýndur.

Þegar ég tók sæti í mþn. í sjávarútvegsmálum fyrir rúmu ári síðan, þá kom mér ekki til hugar, að eftir eitt ár myndi sú stj. verða við völd hér á landi, sem hreint og beint gerir hróp að flm. frv. um réttingu á hag bátaútvegsmanna. Og meira að segja lætur hæstv. fjmrh. sér sæma að kalla frv. okkar mþnm. í sjávarútvegsmálum fíflskaparmál og að með flutningi þeirra höfum við í frammi fíflalæti. Og hæstv. atvmrh. lét sér sæma að taka þetta upp eftir kollega sínum. — Þetta út af fyrir sig, hvaða orðbragð hæstv. ráðherrar nota og hversu óvönduð orð stj. lætur sér sæma að velja þeim mönnum, sem standa að málum útvegsins, það sýnir, að þeir hvorki vilja né geta skilið það, að þessi atvinnuvegur á kröfu til allt annarar meðferðar frá hálfu þings og stjórnar en honum er í té látin af þingmeirihlutanum. Að vísu er það frv., sem við sjálfstm. í sjútvn. flytjum, ekki til umr. í dag, heldur frv., sem hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á. Ég geri ráð fyrir, að það hafi ekki verið þetta frv., sem hæstv. fjmrh. taldi, að flutt væri af yfirdrepskap, heldur hafi hann þar átt við tillögur okkar sjálfstm. — Það er raunar ákaflega leiðinlegt, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér slíkt orðbragð um till. andstæðinga sinna, að maður, sem er í slíku virðingarsæti á þingi þjóðarinnar, skuli láta sér sæma að tala þannig um tillögur, sem þó eru bornar fram af fullt eins miklu viti og þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Árum saman hefir þurft hér á Alþingi að gera ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir til stuðnings landbúnaðinum, sem kostað hafa mikil fjárframlög. Árum saman hafa fulltrúar sjávarútv., ekki aðeins möglunarlaust, heldur af fúsum vilja greitt atkv. um þau framlög. Ég þori að fullyrða, að það hafi aldrei úr okkar hópi fallið jafn óvingjarnleg orð í garð landbúnaðarins, og engin einasta ræða verið flutt jafnósæmileg og ræða sú, sem hæstv. fjmrh. flutti áðan gegn kröfum sjávarútvegsmanna. Hún var brennimark andúðar og skilningsskorts og átakanlegur vottur um vanþroska og þekkingarleysi þess manns, sem enga menntun hefir fengið og skortir margfalt meiri lífsreynslu en jafnvel hin fáu ár, er hann á að baki sér, gefa bendingu um. Það er hart fyrir þann meiri hl., sem þarf að bera hita og þunga dagsins, og fyrir þjóðina í heild, að hafa slík stjórnarvöld yfir sér, sem ekki aðeins daufheyrast og skella skollaeyrum skilningsleysis við kröfum útvegsmanna, heldur hella úr sér brigzlyrðum yfir þá menn, sem bera þær fram. — Já, hversu lengi? ég býst við, að sú spurning fari að verða allhávær hjá þjóðinni Hversu lengi á þetta að þolast? — Hæstv. fjmrh. sagði, að ég og annar flokksbróðir minn hér í d. hefðum lært mikið af stj. í þessu máli. Ó-já, það er nú svo! Við höfum sjálfsagt lært mikið af stj., og ekki einasta við og stéttar- og skoðanabræður okkar, heldur öll þjóðin í heild sinni, að sjálfsögðu! Það hafa yfirleitt allir lært mikið af stjórninni!

Hæstv. ráðh. talaði mikið um það, hversu feikilega óviturlegt það hefði verið af okkur að láta okkur detta í hug, að ríkið fengi lán erlendis til þess að rétta við hag bátaútvegsmanna. Hvaða hugsun er nú á bak við þessa umsögn hæstv. ráðh. Er það ekki fullkomlega jafnréttmætt og heilbrigt að taka lán erlendis til þess að koma skuldamálum útvegsins á fastan grundvöll eins og að slá erlenda banka um rekstrarlán í bili fyrir eina vertíð handa bátunum? — Því var varpað hér fram á síðasta þingi og færð rök fyrir, að eins og nú væri komið fyrir sjávarútv., þá væri lítil eða engin von um óbilað starfsþrek hjá útvegsmönnum til rekstrar útveginum í framtíðinni, nema dregið yrði til muna úr skuldafarginu, sem á honum hvílir. Ef það á að teljast svo framúrskarandi mikið óvit og óbilgirni af okkur að leggja það til, að tekið yrði lán erlendis til þess að létta af þessu fargi, þá mætti að sjálfsögðu heimfæra þá umsögn upp á aðra menn og málefni, sem studd hafa verið með erlendu lánsfe. — En svo er annars að gæta í þessu sambandi: Samkv. frv. stj. er ætlazt til, að sú óverulega upphæð, sem stj. ætlar að láta vélbátaútveginum í té, verði tekin að láni. Það er að vísu ekki sagt, að lánið skuli tekið erlendis, og ég minnist þess ekki heldur, að við höfum slegið neinu föstu um það í frv. okkar á síðasta þingi, hvar lánið yrði tekið. Ef stj. ætlast nú til þess, að lánið verði tekið innanlands, þá hefði vafalaust eins mátt ákveða það á síðasta þingi samkv. till. okkar og frv. Munurinn á þessum tveimur frumv. er aðeins sá, að samkv. okkar frv. var gert ráð fyrir hærra láni og meiri stuðningi við útveginn, enda var það á viti byggt, fremur en þetta vanhugsaða og máttlausa frv. stj., sem hér er til meðferðar. — Þeim gefur á að líta, sjávarútv.mönnum í landinu, — mönnunum, sem standa að framleiðslu á 90% af útflutningsvörumagni þjóðarinnar og koma með 90 aura af hverri krónu í landskassann; þeim gefur á að líta þetta örverpi stj., þessa 11/2 millj. kr., sem á að útvega þeim að láni til hjálpar í kreppunni. Og þegar þeir bera þetta saman við þar 11 millj. kr., sem bændunum voru afhentar til hjálpar í sama skyni, gegn landbúnaðarkreppunni, þá er von, að hugir útvegsmanna fyllist lotningu og þakklæti í garð stj. og þingmeirihl.! Ég hygg, að bróðurparturinn af þeim 11 millj. kr., sem landbúnaðinum voru ætlaðar, hafi þegar verið notaður.

Hæstv. fjmrh. sagði, eins og ég tók fram áðan, að við hefðum lært af stj. Ég hefi nú bent á, að það má á margan hátt af henni læra. En ég ímynda mér, að það sé fulleðlilegt í augum hvers einasta manns, að við, sem stöndum að því frv., sem ekki er hér til umr. í þetta sinn, létum okkur frekar nú detta í hug þá leið að notast við handhafaskuldabréf til viðreisnar sjávarútveginum heldur en á síðasta Alþ. við hefðum víst fengið greið og góð svör hjá hæstv. fjmrh. núna ekki síður en endranær, ef við hefðum komið fram með frv. um lántöku fyrir útgerðina. Þá hefðu svörin sennilega orðið þau, hvort við værum okkur ekki þess meðvitandi, að stj. væri búin að lofa erlendu valdi því að taka ekki meiri lán. Við urðum að horfast í augu við þá staðreynd, að stj. hafði ekki aðstöðu til þess arna, og það var þess vegna, að við hurfum að þeirri leið, sem farin var með hjálpina til bænda. Það kann nú vel að vera, að stj. sjái einhverjar aðrar leiðir til þess að ná þessum peningum heldur en þær, sem opnar voru á síðasta þingi. En þó held ég, að ég hafi heyrt það rétt hjá hæstv. atvmrh., að þetta frv., sem gerir ráð fyrir sem hinum einasta tekjuöflunarmöguleika að taka 11/2 millj. kr. lán á óákveðnum stað, hafi verið sent til umsagnar bankanna, en þeir hafi enn ekki svarað. Þetta er enn eitt tímanna tákn um það, hversu sjávarútvegurinn mætir litlum skilningi og velvilja, þegar sjálf ríkisstj. verður að lýsa því yfir, á Alþ., að frv., sem hún hefir látið semja og sent hefir verið bönkunum, hafi þannig gersamlega verið hundsað. Samt er þetta frv. borið fram og okkur ætlað að taka það fyrir góða og gilda vöru. Hvernig getur nú hæstv. atvmrh. undrazt yfir því, þó þeir, sem hafa viljað taka þetta mál alvarlegum tökum, hafi viljað horfast í augu við þann veruleika, að einhverju væri í raun og veru að fórna til hjálpar þessum atvinnuvegi. Og hvernig getur það verið, að hæstv. ráðh. og fylgismenn hans þurfi að stökkva upp með brigzlyrðum, þegar þeirra eigið frv. stendur ekki á fastari grundvelli heldur en hæstv. ráðh. hefir lýst yfir. Ég fer nú að skilja það, hvers vegna meiri hl. í sjútvn. fékkst ekki með nokkru móti til þess að fallast á þá till. mína að vísa málinu til umsagnar bankanna; hann hefir sennilega vitað, þó þess væri ekki getið á fundinum, að málið hafði engan byr hjá bönkunum. En ég álít, að þess hafi verið full þörf, þegar svona horfir við, að ríkisstj. gefur engar yfirlýsingar um það, hvar hún ætli að fá þessa 11/2 millj. kr. Annars verður þetta frv. alls ekki tekið sem svo, að það sé fram borið í alvöru. Þegar fyrir liggur yfirlýsing stj. um gersamlega dauðaþögn í bönkunum yfir þessum till., þá er full ástæða til þess að krefja stj. svars um það, hvar hún ætli þá að taka þessa peninga. Það hafa nú verið færð rök að því af hv. 6. þm. Reykv., og þau rök eru byggð á skýrslum þeim, sem mþn. í sjávarútvegsmálum safnaði, að jafnvel þó þetta frv. yrði að l. og þessi lítilfjörlega upphæð yrði handbær, þá yrði þessi hjálp, sem hér er um að ræða, ekki svipur hjá sjón af því, sem þyrfti, og ekki í neinu samræmi við þær ráðstafanir, sem Alþ. hefir gert fyrir landbúnaðinn. Með samþ. Alþ. á því að taka til gerrar athugunar allan hag útgerðarinnar og gera till. um lausn á vandamálum hennar, bæði hvað skuldaskil og annað snertir, er því slegið föstu, að Alþ. hafi samþ. það, að hér yrfti viðréttingaráðstafana við hvað snertir þennan atvinnuveg. Þegar þetta er athugað, þá er fyrir hendi siðferðislegur grundvöllur undir jafnréttiskröfu sjávarútvegsins hvað snertir hjálparráðstafanir á móts við landbúnaðinn. Og þær kröfur, sem við sjávarútvegsmenn gerðum hér á síðasta þingi um, að stofnaður væri sjóður, sem hefði að umráðafé um 5 millj. kr. í þessu skyni, er óhætt að skoða sem lágmarkskröfur í þessu efni. Ég held því verði ekki með nokkru móti haldið fram, að við höfum þar gengið lengra í kröfum okkar fyrir skulduga sjávarútvegsmenn heldur en sæmilegt var, og því síður lengra heldur en þingið var búið að gefa fordæmi fyrir hvað snertir landbúnaðinn. En þær veigalitlu till., sem ríkisstj. kemur með, eru engin endanleg lausn þessara mála. Þetta er ekkert nema fikt, að bera fram frv. um 11/2 millj. kr. óvissa lántöku, sem ekki er nema sáralítili hluti af því, sem sannanlega var þörf á í þessu skyni. Það er ekki nema svona fjórði hluti af þeirri upphæð, sem þyrfti, ef nokkrum tökum ætti að taka þetta mál.

Ég heyrði, að hæstv. atvmrh. virtist vera ánægður yfir því, að hv. 6. þm. Reykv. mælti nokkuð skorinort um það, hversu þetta væri í raun og veru lítilfjörlegt, sem hin háa ríkisstj. bæri nú fram. Ég skil nú eiginlega ekki þessa ánægju hæstv. ráðh. yfir þessari hreinskilnislegu yfirlýsingu hv. 6. þm. Reykv., því hæstv. ráðh. má vita það, að sjávarútvegsmenn víðsvegar úti um land eru sannarlega ekki blindaðir svo í þessu máli, að þeir sjái ekki, hvað úrræðalaus hæstv. ríkisstj. er í þessu efni og hvað þessar till. eru í raun og veru í öfuga átt. En ég geri ráð fyrir, að stj. þvoi hendur sínar, eins og Pílatus forðum, þegar hún hefir knúð þetta frv. í gegn, og segi: Nú er búið að samþ. frv. um 11/2 millj. kr. til viðreisnar sjávarútveginum. Þetta getur hann fengið, og svo getið þið þagað. — Það hefir a. m. k. ekki verið gefið í skyn, að hér væri aðeins um part af lausninni að ræða og að stj. ætlaði sér einhverjar víðtækari ráðstafanir í þessum efnum. Nei, það er sýnilegt, að stj. ætlast til, að við skoðum þetta sem fullnaðarlausn skuldaskila útvegsins frá hennar hálfu. En við, sem höfum barizt fyrir því, að þessi mál verði tekin alvarlegum tökum, getum alls ekki sætt okkur við þessa lausn. Við höfum ekki leyfi til þess að sætta okkur við þessa lausn gagnvart þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli, og það eru hinir mörg hundruð sjávarútvegsmenn víðsvegar úti um landið, sem frá þeirri stundu, sem Alþ. gerði ráðstafanir til þess, að þeirra hagur yrði athugaður á svipaðan hátt og bændanna og með svipuðu markmiði, hafa vænzt þess, að frá þessari háu stofnun varu gerðar þær ráðstafanir, sem yrðu að gagni fyrir þá og þeirra málefni og leystu þá frá vandræðum sínum. Það er rétt að benda á það í þessu sambandi, að ekki einasta pr það fe, sem stj. getur útvegað í þessu skyni, svo langt of lítið, að það er ekki nema svona fjórði hluti af því, sem allir vita, að raunverulega þarf, heldur er líka horfið frá þeim niðurstöðugrundvelli, sem talinn var forsvaranlegur fyrir eignum og skuldum útvegsmanna. Við höfum ekki álitið það heilbrigðan efnahag, ef menn skulda meira en 65% á móti eignum. En stj. kemst að þeirri niðurstöðu í sínum till., að þá sé fjárhagur þessara manna kominn á sæmilegan grundvöll, þegar þeir skulda 75% á móti eignum. Þetta er kannske eðlileg afleiðing af því, að stj. vill ekki ganga neitt inn á breyt., sem mega að gagni koma; Hún vill aðeins koma fram með till. fyrir einhvern lítinn hluta þessara manna, en því miður fer það svo úr hendi, að þessar till. eru líka fyrir þá einskis virði.

Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta frekar. Mér fannst rétt, að hæstv. fjmrh. fengi spegilinn af því, hvað við hefðum af honum lært á þessu tímabili, sem hann minntist á. Og ég ímynda mér, að þeir útvegsmanna, sem hafa nú einhvers vænzt af Alþ. í þessum efnum, muni segja að leikslokum, að þeir hafi líka lart af ríkisstj., ef þetta á að vera hin endanlega hjálp til þeirra í þeirra þrengingum.