23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. málsvarar Sjálfstfl. Hér í þessari hv. d. hafa gert sig býsna háværa út af frv. því, sem hér er um að ræða, um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda. Þeir hafa notað í sambandi við það stór orð og miklar fullyrðingar, enda hefir þetta verið megininnihald ræðna þeirra hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. Ég skal ekki fara í kapp við þá um að viðhafa stór orð í málinu. Þetta mál er miklu alvarlegra en svo, að gerandi sé leikur að því að slá fram um það stóryrðum einum og fullyrðingum. Þannig verður mál þetta aldrei leyst.

Sú eina eiginlega mótbára, sem sjálfstæðismenn hafa borið fram gegn frv., sem nokkur veigur er í, er þess efnis, að í fyrsta lagi sé það fé, sem gert er ráð fyrir, að lagt sé fram til þessara hluta, svo ófullnægjandi, að það sé sama sem að gera gys að þörfum útgerðarmanna að tiltaka svona lítilfjörlega upphæð, og í öðru lagi, að það sé ekki einu sinni víst, að þetta fé sé fyrir hendi.

Ég skal víkja fyrst að fyrri ástæðunni og svo koma nokkuð að hinni síðari. — Að mestu hefir undirbúningur þessa máls legið hjá mþn. í sjávarútvegsmálum, og kemur fram í þeim skýrslum, sem birtar eru í nál. frá þeirri n., sem útbýtt var á síðasta þingi. Því miður verður maður að segja um skýrslu þessa, að hún er ekki svipað því svo ábyggilegt plagg sem æskilegt væri til þess að byggja á í þessu efni, auk þess sem þau tímamót, sem bún er miðuð við, liggja nú á þriðja ár að baki, svo að allmiklar breyt. á efnahag útgerðarinnar, sennilega til hins lakara, hafa átt sér stað síðan. Þrátt fyrir þetta er ekki annað ábyggilegra hægt að fá til að miða við eða byggja á í þessu efni heldur en þessa skýrslu. Eftir því, sem í henni segir, eru skuldir allra vélbátaeigenda, sem skulda 75% á móti eignum, eftir því mati, sem af mþn. í sjávarútvegsmálum er lagt á eignirnar, samtals 9 millj. 157 þús. kr. Það kemur einnig í ljós, að af þessum skuldum í þessum tveimur flokkum eru 2 millj. kr. skuldir í 4. flokki, sem taldar eru umfram eignir, með því verði, sem n. hefir í áliti sínu talið hæfilegt á þeim. Um þessar 2 millj. kr., sem taldar eru umfram eignir í 4. flokki, er í stuttu málí það að segja, að ef mat n. á eignum þessum er nærri sanni, þá eru þær upphæðir með öllu tapaðar nú þegar fyrir lánardrottna. Þegar nú líta skal á það, hversu mikillar hjálpar sé þörf, þá má náttúrlega um það deila, hvar mörkin skuli sett.

Eftir því, sem upplýst var hér í ræðu, að ég ætla af hv. 6. þm. Reykv., þá hafa þeir nm. gert sér í hugarlund, að hæfilegt væri að setja þau mörk þannig, að þær skuldir, sem hvíldu á eignum þeirra, sem skuldaskilasjóðslán fengju, á undan skuldaskilasjóðsláninu, væru ekki nema 65—67% á móti eignum, eftir sannvirði þeirra. Hinsvegar er gert ráð fyrir því í frv. stj., að markið sé sett 10% hærra eða í 75%, þó að gert sé ráð fyrir, að sveigja megi frá því í einstökum tilfellum. Sjá því allir, að hér er ekki um verulegan mun að ræða, því enginn þarf að segja mér né neinum, sem þekkir til sjávarútvegs, að það geri neinn mun á afkomumöguleikum þess atvinnurekstrar, hvort þau 10%, sem þarna liggja á milli, séu með vaxtakjörum bankanna eða þeim kjörum, sem skuldaskilasjóður á að veita.

Setjum svo, að þetta muni 3% af 10%, þá verður það 0,3%. Þetta ræður ekki verulegu um afkomumöguleikana. Hitt skiptir meira máli, að tilætlun sjálfstæðismanna er sú, að allar tegundir útgerðar njóti þessarar hjálpar frá ríkinu, án tillits til þess, hvort það eru illa staddir smáatvinnurekendur eða stór og rík fyrirtæki, sem tekið hafa inn mikið fé Hér greinir okkur mikið á. Geta ríkissjóðs hrekkur ekki til að bjarga öðrum en þeim, sem helzt þurfa aðstoðar við. Þessi grein sjávarútvegsins, vélbátaútgerðin, er sú grein hans, sem flestum veitir atvinnu, en er þó áreiðanlega verst stödd fjárhagslega. Skuldir vélbátaeigenda í 3. og 4. flokki nema samkv. skýrslu útvegsmálanefndar 9 millj. kr. Fé það, sem skuldaskilasjóður vélbátaeigenda getur lagt fram til þess að fá eftirgjafir á skuldunum, ætti að vera nægilegt til þess að kippa fjárhagsástandi þessa atvinnuvegar í betra horf.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að ef hagur útgerðarinnar hefði versnað síðan útvegsmálanefnd samdi skýrslu sína, þá væri áætlað framlag skuldaskilasjóðs alveg ófullnægjandi. En þetta er misskilningur. Segjum svo, að skuldir hefðu hækkað eitthvað, t. d. upp í 10 millj., og eignir lækkað, annaðhvort fyrir lækkað mat eða af því, að þær hafa gengið úr sér, þá er auðvitað rétt, að framlag skuldaskilasjóðs eitt getur ekki jafnað þennan halla. Ef skuldir eru 4 millj. kr. fram yfir eignir, verða lánardrottnarnir að greiða því meira sem þær eru hærri en áður. Samkv. frv. má hækka framlag skuldaskilasjóðs úr 15% upp í 25%, séu eftirgjafir sérstaklega miklar eða greiðsluskilmálar hagstæðir. Hitt er ekkert vit og ekki heldur réttlæti, að ríkissjóður fari að greiða þann mismun skulda og eigna, sem kann að hafa aukizt síðan skýrslan kom út. Eftirgjafirnar verða að aukast að sama skapi. Ég býst við, að allir skilji það, að það er ekki tilgangur skuldaskilasjóðs að greiða lánardrottnum skuldir, sem orðnar eru þeim einskis virði. Sú upphæð, sem áætluð er til að létta byrðar þessa hluta útgerðarinnar, ætti því fremur að duga til þess, þar sem hún verður greidd í peningum, en ekki í bréfum.

Hv. andstæðingar þessa máls sögðu, að engin trygging væri fyrir því fé, sem þarf til að stofna sjóðinn. Ég sagði við 1. umr., að engin loforð lægju fyrir frá bönkunum um þetta fé. En það er nú svo venjulega, að ekki liggja fyrir yfirlýsingar frá bönkunum um slík efni. Svör frá bönkunum hafa ekki borizt enn, enda er ekki á valdi stj. að knýja þau fram. Það má minnast þess í þessu sambandi, að sjútvn. sendi frv. sjálfstæðismanna um skuldaskilasjóð til Landsbankans, en fékk engin svör. Magnús Sigurðsson bankastjóri hefir þó rætt þessi mál á fundi með n. Ríkisstj. mun gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að féð fáist, og ég hefi ástæðu til að vona, að svo verði.

Ef hv. þm. sjálfstæðismanna vilja sýna, að um annað en fyrirslátt hjá þeim sé að ræða, er ég fús til að athuga brtt. þeirra um handhafaskuldabréf, en jafnframt þyrfti þá að athuga, hvort ekki væri ástæða til að hafa upphæðina hærri en lántökuheimildin hljóðar á, því að bréfagreiðsla er aldrei eins álitleg og peningagreiðsla. Ég myndi ekki hafa á móti slíkri heimild, ef svo illa færi, móti von minni, að lán fengist ekki.

Ég held, að ég þurfi ekki að svara fleiri atriðum í ræðum andstaðinganna, því að gífuryrði þeirra og fullyrðingar virði ég ekki svars. En ef sjálfstæðismenn vilja hefja málþóf í þessu máli, þá er augljóst, að það er ekki gert í því skyni að bæta hag þeirra útgerðarmanna, sem verst eru staddir. Þeir vita vel, að þeir geta ekki komið fram sínu frv., og þótt svo væri, yrði það aldrei nema pappírsgagn til að veifa framan í stórútgerðarmenn, án þess að hafa nokkra aðra þýðingu en þá, að tefja björgun vélbátaútvegsins. Það fer vel á því, að hv. þm. Vestm. skuli látast vilja bjarga togaraútgerðinni, en berjast gegn viðreisn vélbátaútvegsins í kjördæmi sínu.