23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það er hv. þm. Vestm., sem gefur mér tilefni til þess að taka aftur til máls um þetta mál. Ég minntist á það í gær í sambandi við ummæli, sem hv. 6. þm. Reykv. lét falla viðvíkjandi hinni nýju lántöku ríkissjóðs, að frá mínu sjónarmiði væri þetta frv. sjálfstæðismanna um skuldaskilasjóð óframkvæmanlegt frá upphafi vega sinna, og að það væri flutt aðeins til þess að sýnast fyrir þeim mönnum sem eitthvað eiga undir þessum skuldaskilum. Ég kallaði frv. beitu. Út af þessu hefir hv. þm. Vestm. orðið reiður. Maður skyldi ætla, að hv. þm. hefði reynt að færa fram rök fyrir því, að ég hefði haft rangt fyrir mér í þessu efni. En það gerði hann ekki. Í þess stað var hv. þm. með allskonar fullyrðingar í minn garð í sambandi við málið. Það gerir mér vitanlega ekkert til, þótt hv. þm. ausi úr sér staðlausum staðhæfingum, eins og t. d. þeim, að tal mitt beri vott um, að ég væri menntunarlaus og lífsreynslulaus, jafnvel meira en vænta mætti eftir aldri mínum o. s. frv. Þetta gerir mér ekkert til, því að ef það ber vott um, að einhver sé menntunarlaus og lífsreynslulaus að vilja gera sér grein fyrir því, hvort till., sem fram koma, eru framkvæmanlegar eða ekki, þá get ég vel legið undir því ámæli að vera bæði menntunarlaus og lífsreynslulaus. Ég hygg, að það hefði staðið nær þessum hv. þm. að reyna að beita rökum í þessu máli í stað þess að fara inn á þá braut, sem hann hefir gert. Hv. þm. gerði sér mjög tíðrætt um þann fjandskap, sem hann taldi, að stj. sýndi sjávarútveginum. Ég vil benda honum á það, að í fyrra kom fram frv. að tilhlutun stj., sem ekki verður deilt um, að er ein sú merkasta till., sem fram hefir komið til viðreisnar sjávarútveginum, og það er frv. um fiskimálanefnd, sem gerir ráð fyrir aðstoð ríkisvaldsins til þess að bæta og efla sjávarútveginn. Það er öllum vitanlegt, og sjálfstæðismönnum líka, að það er alveg þýðingarlaust að gera skuldaskil, ef ekki er jöfnum höndum og borið er fram frv. um bætur á sjávarútveginum, gert kleift að útvegurinn geti verið rekinn á heilbrigðum grundvelli. Það er ef til vill þetta, sem hv. þm. kallar að sýna fjandskap í garð sjávarútvegsins. Mér skildist hv. þm. nefna mig sem sérstaklega áberandi fjandmann sjávarútvegsins. Þó var það að tilhlutun stj., eins og ég hefi tekið fram, að samþ. var till. um fjárframlag til fiskimálan., og sýnir það, að þótt ég og ýmsir fleiri, sem að þeirri till. stóðu, séum fremur fulltrúar bænda á þingi en sjávarútvegsmanna, þá hafa þeir engu að síður fyllilega opin augun fyrir þeim vanda, sem sjávarútvegurinn er nú staddur í, og vilja gera allt, sem fært er, til þess að bæta úr honum.

Þá hefir þessi hv. þm. ásakað Framsfl. sérstaklega fyrir það, að hann skuli hafa borið fram till. um 111/2 millj. kr. skuldaskil fyrir landbúnaðinn, en aðeins 11/2 millj. kr. skuldaskil fyrir sjávarútveginn.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að þessar tölur gefa enga hugmynd um þær úrlausnir, sem framkvæmdar hafa verið annarsvegar handa landbúnaðinum og hinsvegar handa sjávarútveginum. Langmestur hlutinn af þessum 111/2 millj. kr. er útgefin skuldabréf, sem ekki eiga að vera byrði á ríkissjóði, og gert er ráð fyrir, að ríkissjóður eigi að leggja fram aðeins 21/2 millj. kr. í reiðufé til þessara skuldaskila. Ef hv. þm. vill bera saman þau fjárframlög, sem veitt eru til þessara tveggja skuldaskila, þá á hann að bera saman tölurnar 21/2 millj. og 11/2 millj. Og samhliða þessum 11/2 millj. kr., sem stj. hefir gert till. um, að veittar verði sjávarútveginum, ætti hv. þm. að muna eftir 1 millj. kr., sem veitt hefir verið til fiskimálanefndar til þess að gera sjávarútveginn reksturshæfan. Þess vegna verður útkoman sú, að ef réttilegur samanburður er á þessu gerður, hendist það mjög á munum, sem stj. ætlar að láta verja til sjávarútvegsins af opinberu fé, og það, sem á sínum tíma var ákveðið til hjálpar landbúnaðinum í kreppunni.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en ég sá ekki annað fært en henda á þetta, sérstaklega vegna þess, að hv. þm. Vestm. gerði í raun og veru enga tilraun til að hnekkja með rökum þeim orðum, sem ég viðhafði um hans till. og þeirra félaga, en hóf í þess stað að kasta hnjóðsyrðum í minn garð og þeirra, sem að okkar till. standa. Er þetta fullkomin sönnun fyrir því, að sá áburður, sem við höfum komið fram með á hendur honum, er fyllilega réttur.