23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. er fjarverandi vegna forfalla. Ég ætla ekki að fara að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram á milli hans og hv. 6. þm. Reykv., en víkja að atriðum í ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem snerta mig sérstaklega. Að vísu liggja þau atriði kannske nokkuð fjarri því máli, sem hér er til umr. En hv. 6. þm. Reykv. hefir blandað þeim inn í umr. (SK: Það var hæstv. ráðh., sem dró þau inn í umr.). Það var hv. 6. þm. Reykv., sem byrjaði að tala um það, sem gerðist í sambandi við síðustu lántöku, og almennt um fjármál ríkisins. Hv. þm. sagði þau orð, að hann vildi ekki fara dult með það, að hann héldi, að brezku yfirvöldin hefðu tekið yfirlýsingu stj. sem loforð um, að hún skyldi ekki taka fleiri lán. En það skiptir bara alls ekki neinu máli, hvað hv. 6. þm. Reykv. heldur í þessu sambandi. (SB: Kannske eins miklu máli og það, hvað hæstv. ráðh. heldur). Þessi hv. þm. þarf ekki mín vegna að fara dult með það, hvað hann heldur. Það skiptir heldur engu máli.

Þá sagði hv. þm., að hann efaðist stórlega um það, að ríkisstj. gæti fengið lán erlendis, og taldi, að þær efasemdir væru komnar í huga sér út af þessari yfirlýsingu. Ég get nú sagt hv. þm. það, að það er alveg vitanlegt öllum þeim, sem nærri þessum málum hafa komið, að það er jafnt hægt eða ekki hægt að fá erlend lán, þó að þessi yfirlýsing hafi verið gefin, eins og verið hefði, án þess að hún hefði verið gefin. Það hefir engin áhrif á það, hvort hægt er að fá lán eða ekki, þó að stj. hafi lýst því yfir, að hún vilji forðast að taka lán. En hitt sjá allir, að á meðan ekki fæst leiðrétting á því gjaldeyrisástandi, sem nú er hjá okkur, er vitanlega ekki glæsilegt að auka við erlendar lántökur. Um þetta attu allir að geta orðið sammála. Ræða hv. þm. virtist hinsvegar gefa það í skyn, að hv. þm. og þeim, sem flytja með honum frv. um þetta efni, hafi alls ekki verði það ljóst fyrr en stj. gaf þessa yfirlýsingu, að það væri neinum annmörkum bundið að bæta við erlendar lántökur. En ég hélt, að ekki hefði þurft neina slíka yfirlýsingu til þess að mönnum hefði mátt vera það ljóst, að ekki væri hægt að halda stöðugt áfram á þeirri braut að ausa erlendu lánsfé inn í landið. Slíkt er nú í mesta lagi hægt að hugsa sér til einhverra þeirra ráðstafana, sem annaðhvort eru til gjaldeyrissparnaðar eða leiða til aukningar á útfluttum verðmætum atvinnuveganna, en alls ekki til þess að greiða gamlar frosnar skuldir. Þetta hefir hv. þm. sýnilega ekki verið ljóst áður en yfirlýsing þessi var gefin af stj. En það er þá gott, að þessi hv. þm. hefir eitthvað getað af því kært, sem fram hefir komið frá stj.

Þá ræddi hv. 6. þm. Reykv. um það, hverjum þessi ósköp væru að kenna, að svo væri komið, að vafasamt væri, hvort hægt væri að fá erlend viðbótarlán, og í sambandi við það fannst mér rök hans gerast æðiblekkingarkennd. En þó varð ég mest hissa á þeirri lítilmennsku, sem mér virtist koma fram hjá þessum hv. þm. í því sambandi. Hann sagði, að það væri barnaskapur að halda því fram, að Sjálfstfl. hefði borið nokkra ábyrgð á fjármálastjórn ríkisins undanfarin ár, eða komið nærri slíku. Hann sagði, að allir vissu að Framsfl. hefði, með tilstyrk sósíalista, farið með völdin í landinu í 8 undanfarin ár. Veit ekki hv. þm., að Framsfl. fór með völdin með hlutleysi sósíalista í 41/2 og í 21/2 með stuðningi Sjálfstfl.? Þetta hélt ég , að hv. þm. hefði vitað.

En það, sem mér fannst ekki aðeins blekkingarkennt hjá þessum hv. þm., heldur lýsa lítilmennsku, e. t. v. meiri en ég átti von á hjá hv. þm., var það, er hann sagði, að eitthvað hefði þó Sjálfstfl. komið nærri þessu, hann hefði þurft að hafa einn ráðh. í stj. af því að þurft hefði að leysa kjördæmamálið, og vildi hv. þm. lýsa því þar með, að Sjálfstfl. hefði ekki borið ábyrgð á neinu öðru máli á þeim tíma. Heldur þessi hv. þm., að það sé hægt að bera það á borð fyrir fullorðna menn, að ráðh., sem afgr. hefir ýms mál, og þá auðvitað fjárlög með öðrum í ríkisstj., geti gert það án þess að bera neina ábyrgð á stj. í þeim málum? ég efast um, að hv. þm. áliti það í raun og veru frambærilegt, og því er ég mjög hissa á orðum hv. þm. Að halda þessu fram er svo lítilmótlegt, að það kemur mér á óvart, jafnvel úr þessum stað, að þora ekki að standa við þá ábyrgð, sem Sjálfstfl. vitanlega ber á stj. á landsmálum þessi ár. Því að hvort sem karpað er um það lengur eða skemur, þá er það ljóst, að Sjálfstfl. er meðábyrgur um stjórn landsmála þann tíma, sem hann átti ráðh. í stj. Og tvö síðustu árin, og sérstaklega síðasta árið, hefir utanríkisverzlunin verið rekin með meiri halla en nokkru sinni fyrr, að undanskildu kannske einu ári.

Þá var þessi hv. þm. að tala um þessar miklu lántökur, sem sú hin fyrri framsóknarstj. hefði tekið. Ég vil í því sambandi skjóta því fram til skýringar, sem ég hygg, að hv. þm. sé þó vitanlegt, að Sjálfstfl., sem ég man ekki, hvort á þeim tíma hét því nafni eða Íhaldsfl., greiddi atkv. með öllum þessum lántökum. Hann hefir því ekki sérstöðu um eina einustu þeirra. Þá heyrðust ekki þessi varnaðaróp, sem þessi hv. þm. var að tala um. Þau voru fyrst fram komin síðar. Þessi flokkur fylgdi lántökumálunum gegnum þingið og hefir fyllilega gefið þeim samþykki sitt, svo að ekki verður um deilt. Þess vegna hygg ég, að það sitji ekki á þessum hv. þm. né hans flokki að gera sig breiða í sambandi við það, sem gerzt hefir nýlega í tilefni af nýrri lántöku, heldur alveg þvert á móti.

Ég hefði haft löngun til að ræða ýms atriði, sem hv. þm. kom inn á, en ekki snerta mig beint sem fjármálaráðh., en til þess að lengja ekki umr., læt ég það hjá liða að þessu sinni.

Þá eru örfá orð um ræðu hv. þm. Vestm. Hann var nú í þessari síðari ræðu sinni stórum mildari heldur en í hinni fyrri, og er ekki nema gott um það að segja. Hann vildi nú ekki kannast við, að hann hefði haft ýms þau ummæli, sem ég átaldi hann fyrir í ræðu minni, t. d. ekki það, að hann hefði talað um neinn fjandskap gegn sjávarútveginum, eða að ég hefði sérstaklega sýnt þennan fjandskap, og skal ég ekki um það karpa meira við þennan hv. þm., heldur aðeins benda á, að hann margendurtók þessi ummæli sín um þennan fjandskap. En það er vitanlega ekki nema gott um það að segja, að hann hefir fundið ástæðu til að milda nokkuð með þessu ummæli sín.