25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég ætla að svara nokkrum orðum því, sem hæstv. ráðh. sagði á síðasta fundi til andsvara því, er ég þá sagði um þetta frv. Hann hélt fram, að vélbátaútvegurinn myndi fyrr stöðvast heldur en stærri útgerðin, ef eigi væri að gert. Ekki held ég nú, að neitt liggi fyrir um þetta. Sjálfur játaði hæstv. ráðh., að sér væru ekki kunn ýms atriði, sem mikilsverð eru þegar um er að ræða samanburð þessara atvinnutækja. Ég held, að þetta sé eitt af því, sem hæstv. ráðh. hefir ekki athugað nægilega, eða a. m. k. hefir hann ekki gert grein fyrir því svo fullnægjandi sé, til þess að sannað megi telja, að vélbátaútvegurinn stöðvist á undan stærri útgerðinni, ef erfiðleikarnir halda áfram. Hæstv. ráðh. sagði, að togaraflotinn væri ekki í neinni hættu. Þetta þóttu mér einkennileg orð, og ég vil fullyrða hið gagnstæða, að togaraflotinn er í yfirvofandi hættu. Ef áfram heldur með svipuðum hraða í sömu átt og stefnt hefir á síðustu tímum, þá er yfirvofandi, að togaraflotinn stöðvist alveg. Ég vil ekki fara út í rökræður um það frekar í augnablikinu, en mig langar til að bæta því við, að það er ekki leikur einn, það verkefni, sem hæstv. stj. og meiri hl. þings, hefir tekið að sér, að skipuleggja atvinnuvegi þjóðarinnar, eins og þeir kalla það. Slíkt er meira en lítið vandaverk. Og því undrar mig ekki stórlega, þó hæstv. atvmrh. hafi lítinn tíma til að sitja í sæti sínu hér á þingi. Reyndar er hann nú ekki einn um það, því a. m. k Hér í Nd. er það sjaldgæft að sjá ráðherrana í sæti sínu; nú er t. d. enginn þeirra viðstaddur, og svo er oftast nær. Það er ekki aðeins vandaverk að skipuleggja þessa hluti, heldur mun það einnig vera tímafrekt. Ég þykist og sjá á hæstv. ráðh., að þetta verk taki töluvert af fjöri þeirra og kröftum. En eitt aðalundirstöðuatriðið í þessari „planökonomi“ svo kölluðu — sem að vísu er ekki aðeins íslenzkt viðfangsefni, heldur viðfangsefni, sem reynt er að vinna að víðsvegar um lönd — það er að vinna „ökonomiskt“, hafa ávallt fyrir augum það, sem heppilegast er, ódýrast og praktiskast fyrir þjóðarheildina. Ef fara á að „skipuleggja“ atvinnulífið, þá fullyrði ég, að það er fjarstæða að byrja á því að gera ráðstafanir til þess með valdi ríkisins og þess tiltrú fjárhagslega, að halda við því, sem lakast er og ólífvænlegast af framleiðsluháttum landsmanna, þegar um það er að ræða, að úr framleiðslunni þarf að draga stórkostlega. Þá er ekki gætt þessa aðalatriðis, að vinna „ökonomiskt“, þ. e. a. s. með fjárhagslega hugsun að baki.

Ég get ekki annað en látið í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. atvmrh. skyldi láta sér þau orð um munn fara í þessu sambandi, að þeir, sem að stórútgerðinni standa, hafa sumir hverjir komið sér upp sæmilegum húsakynnum hér í bænum. Korpúlfstaðabúið nefndi hann einnig í þessu sambandi. Mér þykir það satt að segja heldur sorglegt, að hæstv. ráðh. skuli ennþá ekki vera kominn lengra í sinni hugsun um þessi mál heldur en það, að þetta skuli gloprast út úr honum. Vegna þess fyrst og fremst, að bak við þetta gæti legið sú hugsun hæstv. ráðh., að hann óskaði heldur, að þessu fé hefði verið varið til einhvers annars, að það væri ófagurt og ógagnlegt fyrir þjóðfélagið, að þeir, sem geta, komi sér upp góðum og varanlegum híbýlum, og að það væri til tjóns fyrir þjóðfélagið, að eitthvað af hagnaði einhvers tíma sé varið til þess að koma upp myndarlegu kúabúi. Mundi hæstv. ráðh. heldur óska, að ekkert sæist eftir af þessu fé, sem um tíma græddist á útgerðinni? Eða má ég spyrja: Sér hann ekki, að neinir aðrir af borgurum þjóðfélagsins hafi komið sér upp sæmilegum húsum heldur en þessir sárafáu útgerðarmenn hér í Rvík? Er honum sama hryggðarefnið, að kaupmenn og aðrir, sem einhvers hafa aflað á þessum tíma, skuli hafa komið sér upp sæmilegu húsnæði? Óskar hæstv. ráðh., að þessu aflafé hefði verið varið til einhvers annars, þannig að þess sæist hvergi merki, eins og milljónum af fé ríkisins hefir verið varið árlega síðan 1927, svo að ekkert stendur eftir, og það, sem kann að sjá einhver merki eftir, er aðallega til þess að auka útgjaldaliði hins opinbera um langa framtíð.

Ég vil ekki fara lengra út í þetta, og gæti það þó getið tilefni til dægurlangra umr. Mér finnst, að þessi hugsun, komin frá sæti hæstv. atvmrh., beri sorglegan vott um það, að hann haldi, að það sé einhvers virði að segja annað heldur en það, sem er.

Önnur ástæða hæstv. ráðh. fyrir því, að ekki beri að líta til stórútgerðarinnar í þessu sambandi, var sú, að hún væri rekin af hlutafélögum — ríkum hlutafélögum, að mér skildist og að hluthafar þessara félaga væru líka ríkir menn. Hið fyrra er rétt, að megnið af framleiðslutækjum stórútgerðarinnar er eign hlutafélaga. En ég held, að segja megi með vissu, að eignir hluthafanna í þessum félögum standi aðallega í hlutafénu. Og það mun ekki vera neitt launungarmál, a. m. k. ekki fyrir hæstv. ráðh., að megnið af þessu hlutafé er farið, horfið í töp síðustu ára, og hjá sumum hlutafélögum jafnvel meira en það. Þó að skattavöldin neiti að taka tillit til þess og meti hlutabréf þessara fyrirtækja fyrir ofan allt vit til þess að skattleggja þau, þá má ekki loka augunum fyrir því, að þetta er ekki annað en sjónhverfing. Það er sköttunaraðferð, sem ég vil ekki segja, að hvergi eigi sinn líka, því á síðustu tímum er það sjálfsagt svo víðar en á Íslandi, að ekki þykir fært að skrifa eignir niður eins og þarf, þegar þær verða arðlausar ár eftir ár. Slíkar afskriftir getur ekki viðskiptalífið borið, og það er auðvitað erfitt viðfangsefni. En það má ekki segja, að þeir, sem þetta hlutafé, sem einhverntíma var til, eru taldir eiga, séu auðugir menn. Þeir eru orðnir, að því leyti sem eignir þeirra hafa staðið í þessu hlutafé, eignalausir.

Mönnum getur ekki annað en dottið í hug í samhandi við þetta frv. kreppuráðstöfun ríkisvaldsins fyrir bændurna í landinu. Ég þarf ekki að taka upp neitt af því, sem sagt hefir verið um. hver upphæð er lögð fram í því skyni. En fyrir utan það, að allir bændur í landinu, sem eru fjárhagslega illa staddir, eiga kost á því að fá aðstoð kreppulánasjóðs til þess að lagfæra sín fjármál, og það hvort sem þeir eiga 50 kindur eða 500, hvort sem þeir eiga eina kú eða 50, þá er árlega varið hundruðum þúsunda úr ríkissjóði til þess að styrkja bændur til vaxtagreiðslu, styrkja bændur til framkvæmda, bæta upp andvirði varnings þeirra o. s. frv. Ég held, að það sé varla orðið nokkurt viðskiptaatriði til fyrir bændur landsins, sem þeir ekki geta einhversstaðar leitað eftir styrk til þess að framkvæma. Þetta fé hefir hingað til að miklu leyti verið tekið af sjávarútveginum. Og þessu á að halda áfram eftir að búið er, að því er álíta verður, að koma fjárhag bænda, þeirra, sem verst eru staddir, á viðunandi grundvöll; samt á að halda áfram að styrkja þá á allan hátt, þó látið væri í veðri vaka í upphafi, að hin stórmikla kreppuráðstöfun til handa bændunum væri gerð í því skyni, að þeir gætu þolað verðlagið, er þeir verða að sæta á erlendum markaði. Það var vitanlega ein aðalröksemdin. Nú er hún gleymd, og áfram er haldið að styðja bændur með löggjöf, sem skattleggur sérstaklega nokkurn hluta af borgurunum og ver skattinum til styrktar bændum. Það er ekki verið að spyrja í þessu sambandi, hvort bú bóndans er stórt eða lítið, heldur bara, hvernig hann er staddur. Ég skal ekki fullyrða um, hvort nokkuð af þessu kemur að notum; ég er í miklum vafa um það. En það þykist ég ekki vera í neinum vafa um, að sjávarútvegurinn á tilkall til að fá hlutfallslega svipaða aðstoð ríkisvaldsins. Og þegar hæstv. ríkisstj. ber fram frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, um svona ómerkilega úrlausn í þessu vandamáli, þá er ómögulegt að orða það öðruvísi en svo, að gert sé upp á milli atvinnuveganna, og það stórlega.

Ég verð að vísu að láta það í ljós, að ég hefi ekki trú á, að með svipuðum ráðum eins og hér er gert ráð fyrir og eins og leitazt hefir verið við að beita við landbúnaðinn, verði neinu verulegu um þokað um erfiðleika sjávarútvegsins. Því mér sýnist erfiðleikar síðustu tíma miklu meiri en það, að bættir verði með framlögum úr ríkissjóði, eða yfirleitt með framlögum, sem koma annarsstaðar að heldur en frá sjávarútveginum sjálfum. En hitt er jafnljóst fyrir því, að að því leyti, sem þetta frv. er ekki flutt fram visvítandi til þess að sýnast, þá ber það ljósan vott um, að sjávarútvegurinn er sá hluti af atvinnulífi þjóðarinnar, sem hæstv. stj. og meiri hl. þings virðist vera nokkuð sama um, hvernig blessast.