25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. 5. þm. Reykv. lauk máli sínu með því, að hann hefði ekki trú á, að með samskonar ráðum eins og hefði verið freistað til þess að rétta hag landbúnaðarins með kreppulögunum væri unnt að rétta við hag sjávarútvegsins. Með þessu hefir eiginlega hv. þm. svarað og að engu gert sín ummæli um það, að sjálfsagt væri að veita samskonar styrk til sjávarútvegsins eins og veittur var til landbúnaðarins með kreppulánasjóðslögunum. Ef menn hafa ekki trú á, að það verði til þess að reisa sjávarútveginn við, þá er engin meining að grípa til svo dýrra ráðstafana. Um það hygg ég allir ættu að geta verið sammála. Ég get líka tekið undir það með hv. þm., sem hann sagði á síðasta fundi, að ef svo færi, að markaðurinn fyrir fisk okkar lokaðist stórkostlega frá því, sem nú er, og ekki tækist að vinna nýja markaði í staðinn, þá væri ekki hægt að gera sér vonir um, að með fjárframlögur úr ríkissjóði yrði hægt að reisa sjávarútveginn við. Vonir okkar beggja hljóta því að standa í þá átt, að ekki takist svo hörmulega til með sölu afurðanna, að til slíks komi.

Hv. þm. vildi leggja mér þau orð í munn, að togaraflotinn væri ekki í neinni yfirvofandi hættu. Þetta hefi ég aldrei sagt. Ég sagðist ekkert um það vilja fullyrða, hvort togaraútgerðin eða annar þáttur sjávarútvegsins væri í bráðari yfirvofandi hættu. Ég sagðist þó vita, að nokkur hluti vélbátaútvegsins væri í bráðari hættu, þannig að hann myndi fyrr stöðvast í framhaldandi erfiðleikum heldur en togaraflotinn. Og ég byggði það á því, að tiltölulega meira af skuldum vélbátaútgerðarmanna, sem verst eru staddir, eru lausaskuldir heldur en af skuldum togarafélaganna; ósamningsbundnar skuldir hjá mönnum, sem enga hagsmuni hafa við útgerðina bundna og ekki telja skyldu sína að sjá um, að atvinnuvegirnir haldist gangandi. Þar er öðru máli að gegna um lánsstofnanirnar, sem ríkið stendur á bak við, bankana.

Þá flutti hv. þm. langt erindi um það, hvernig andaði til þeirra úr ráðherrastólunum, sem að togaraútgerðinni stæðu, að séð væri ofsjónum yfir því, að þeir byggðu sér sæmileg hús, ræktuðu jörðina og þessháttar. Allt er þetta hin mesta fjarstæða.

Þá beindi hv. 5. þm. Reykv. þeirri spurningu til mín í lokakapítula ræðu sinnar, hvort ég myndi heldur óska þess, að þessu fé hefði verið eytt á annan hátt. Ég vil svara þessari spurningu og þá um leið þessum kapítula öllum. Ég myndi vilja, að þetta fé, sem tekið hefir verið frn útgerðinni og varið til þess að reisa dýr íbúðarhús — hús, sem kannske kosta um 70 þús. kr. — eða varið hefir verið til annara fyrirtækja, óskyldra útgerðinni, væri nú til sem reiðufé í varasjóðum, sem útgerðin gæti gripið til á þessum örðugu tímum. Mér þætti skrítið að sjá framan í þann mann, sem ekki vildi óska þessa hins sama, og ég hygg, að um það séu ekki mjög skiptar meiningar, að þetta væri æskilegt. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. Þetta fé er nú orðið bundið og verður ekki í annað notað; og án þess að ég vildi nokkuð fara að rifja upp þennan kapítula, vildi ég svara þessari spurningu, sem hv. 5. þm. Reykv. beindi til mín, og það hefi ég nú gert. (PHalld: út í hött). Það skiptir engu máli um niðurstöðuna. Að vísu er ekki hægt að fá að vita, hve fé það, sem á þennan hátt er bundið, er mikið, en það er enginn vafi á, að þarna er um geysiháar fjárhæðir að ræða, og myndi margir óska, að þetta fé væri nú til handa útgerðinni, eða að það hefði verið notað til eðlilegs viðhalds á henni, eins og fyllilega hefði þurft, og nægir í því sambandi að benda á yfirlýsingar sjálfstæðismanna um það, hvernig skipunum sé við haldið.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykv., að ég hefði verið að tala um rík hlutafélög, sem gerðu út togara. Þetta er alls ekki rétt, enda væri þá þýðingarlaust að tala um fjárstyrk af hendi hins opinbera. Hitt sagði ég, að í sumum þessum hlutafélögum væru ýmsir mjög vel efnaðir menn, og þetta er staðreynd og þýðir ekkert að krossa sig á bak og brjóst með guðræknissvip og neita því. — ég held, að það hafi ekki verið fleira í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem ég hefi ástæðu til að taka fram, en ég get tekið undir það, sem hann sagði um einhliða ráðstafanir. Og ég hygg, að það sýni sig, að allt of einhliða ráðstafanir hafa verið gerðar, allt of mikil áherzla lögð á að koma á dýrum skuldaskilum. Þetta sama vakir fyrir mér nú, ég held, að hið opinbera megi ekki binda sig svo, að ekki sé til fé til að létta undir rekstrarafkomu útgerðarinnar.

Þá vil ég víkja að því, sem hv. 6. þm. Reykv. mælti til mín í gær í ræðu, sem ég sumpart heyrði, en sumpart heyrði ekki, af því ég var þá á flotta, eins og það heitir á þeirra máli — sbr. Mbl., þ. e. a. s., að ég gat þá ekki verið viðstaddur. Ég hygg nú, að flest af því hafi verið endurtekningar, eins og svo oft vill verða; en eitt af því, sem hann sagði og ég heyrði, og ég vil ekki láta ómótmælt, var það, að ég sem ráðh. hefði ekki gert annað en þvælast fyrir frv., þó að ég hefði beitt hóglátari aðferð en ýmsir aðrir mínir flokksmenn, sem hefðu svívirt útgerðina svo, að honum, hv. 6. þm. Reykv., blöskraði, og getur hann þó stundum tekið upp í sig. Það er hv. 6. þm. Reykv. og hans mönnum að kenna, að ekki er þegar fengin lausn á þessu máli. Á síðasta þingi bauð ég að leysa málið á þeim grundvelli, sem lagður er með þessu frv.

Um þá óvild gegn ríku mönnunum, sem hv. þm. segir, að svo mikið beri á hjá mér, skal ég ekki segja margt, ég hefi sjálfur ekki gefið tilefni til þessa, nema ef það væri með því, að ég benti á, að ég hefði talið það fé, sem hefir verið tekið frá útgerðinni til óskyldra athafna, betur komið sem starfsfé í varasjóðum fyrir útgerðina, og að ég hefði heldur kosið, að því hefði verið varið á þann hátt.

Um það, hve tregir menn séu á að gefa eftir af skuldum, má lengi deila. Ef menn telja von um, að hagur skuldunauta batni, munu ýmsir verða tregir til að sleppa voninni, en ég hygg, að eins og horfur eru nú, þá séu ekki margir, sem geri sér þær hugmyndir, að framundan standi þeir uppgripatímar fyrir útgerðina, að mikil von sé um, að þær skuldir greiðist, sem nú eru vonlausar. Hygg ég, að flestir líti svo á, að betra sé að gefa eftir og fá eitthvað greitt af skuldinni heldur en að hafa vonina eina. Um þetta má auðvitað deila, en ég hygg, að þar sem svo er komið, að skuldir eru meiri en 75% allra eigna, að með því láni, sem svarar til 15—20% af virðingarverði eignanna, yrði ekki örðugt að ná samkomulagi við lánardrottna, þó að undantekningar geti verið á því. En í frv. er gert ráð fyrir því, að ef helmingur eða meira en helmingur umboðsmanna kröfuhafa samþykki eftirgjöf, þá verði hinir að beygja sig, og ég hygg, að eins og nú horfir, þá sé í langflestum tilfellum auðvelt að fá helming kröfuhafa til að fallast á þau skuldaskil, sem gert er ráð fyrir innan ramma frv.

Þá sagði hv. 6. þm., Reykv. það, og þóttist hafa orðrétt eftir mér, að ég vildi ekki hjálpa hlutafélögum, sem rækju útgerð. Þetta er ekki rétt, en hitt sagði ég, að þar sem geta ríkissjóðs væri takmörkuð, yrði fyrst og fremst að líta á það, sem mest væri aðkallandi, en það er sá hluti vélbátaútgerðarinnar, sem ætlast er til, að þessi lög nái til, þar eð atvinna flestra manna er bundin við hann, samanborið við það fjármagn, sem hann krefur, og þetta er gert með því frv., sem hér liggur fyrir. Hitt veit þessi hv. þm. eins vel og ég, að eins og sakir standa er ekki hægt að leggja fram til skuldaskila þá upphæð, sem nægir til að hjálpa útgerðinni í heild. Það frv. er því ekki af heilum huga fram borið, heldur er það tylliástæða til að spilla framgangi þessa frv., undir því yfirskini, að þessir hv. flm. þess vilji hjálpa allri útgerðinni, jafnt stórútgerðinni sem smáútgerðinni, jafnt hvort sem skuldirnar eru hundruð þúsunda, jafnvel milljónir, eða þær eru 1—2 þús. Undir þessu yfirskini ætla þeir að hindra það, að vélbátaútveginum komi hjálp. Það er þetta, sem er ósæmilegt við þennan málsflutning, og það er þetta, sem ég verð að vita hjá andstæðingum frumvarpsins.