25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. má ekki líta svo á, að hann hafi komið mér að óvörum með því að taka upp síðustu orðin, sem ég sagði. Eins og ég sagði þá, og hefi sagt fyrr, hefi ég ekki trú á, að ríkisvaldið geti, með ákvæðum svipuðum þeim, sem í þessu frv. eru, bjargað sjávarútveginum úr þeim vandræðum, sem hann nú er staddur í. Hæstv. atvmrh. dregur þá ályktun, að þá skuli ég ekki um þetta tala og þá ekki heimta framlag til allrar útgerðarinnar, heldur að minnsta kosti sætta mig við þetta lítilfjörlega frumvarp, sem stjórnin flytur.

Sé nú svo, að það sé vonlaust verk fyrir ráðh. með tilhneigingu til skipulagningar að framkvæma þetta mikla verk, sem fyrst og fremst er það, að hjálpa til þess að það megi halda áfram að reka íslenzkan sjávarútveg, með þeim tilkostnaði, sem á honum hvílir nú, þá vil ég segja það, að þó þetta verkefni sé vonlaust, eins og ég hefi látið í ljós, þá álít ég ekki, að bein afleiðing af því sé sú, að hætt sé að hjálpa þeim, sem lakast eru staddir af þeim lokustu. Ef samvinna um þetta væri fáanleg, eins og mér heyrðist, að vel gæti hugsazt, þá væri það bein afleiðing af þeirri hugsun, að hæstv. ráðh. ætti að biðja meiri hl. sjútvn. að taka frumv. til lagfæringar. En eins og ég hefi sagt, og stend við, þá álít ég, að þetta sé kák og aðeins gert til að sýnast, og þess vegna má hæstv. ráðh. ekki ætlast til, að ég fylgi frumv. og allra sízt, ef ég væri í hópi skipulagningarmanna, því þá er farið aftan að siðunum, þegar hæstv. ráðh. segir, að þetta sé tilraun til þess að líta fyrst og fremst á það, sem mest kalli að.

Hvað kallar að? Ef það kallar að að takmarka útflutning á saltfiski um 1/3 og kannske um 1/2, hvað kallar þá að? Þá ættu skipulagningarmennirnir að koma og segja: Nú kallar það að, að hætt sé að nota þau framleiðslutæki, sem dýrust eru í framkvæmd. Þeir menn, sem ætla sér að skipuleggja, mega ekki um leið vera svo „human“ eða svo fullir mannkærleika, að þeir af þeim ástæðum styðji allt það, sem fúið er og fánýtt. Það er alveg öfugt við planeringu. Það er engin þjóðfélagsleg ökonomi. Það er ekki skipulagning, heldur hugsanagrautur, og ekkert annað. Hæstv. ráðh. sagðist óska þess, að nú væri til í varasjóðum allt það fé, sem frá upphafi hefir verið goldið sem arður af því kapítali, sem í útgerðinni stendur, og gæti nú komið til viðbótar þeim eignum, sem hægt væri að grípa til. Ég skil þessa ósk hæstv. ráðh., en hún er ekkert annað en fjarstæða. Það sér væntanlega hver hugsandi maður, að það er engin von, að þetta fé komi til þess að ausa því í tjón á tjón ofan, og það er ekkert æskilegra, að þetta fé komi aftur heldur en fé allra landsmanna. Útgerðarmenn hafa notað þetta fé til beinna þarfa sinna, t. d. með því að breyta húsaleigu sinni í húsabyggingar. Ég vil í sambandi við þetta spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti gert þessari hv. þd. grein fyrir því, hve miklu af umsetningu, eða af því kapitali, sem í fyrirtækjunum er bundið, sá arður hafi numið, sem frá fyrstu hafi verið greiddur til hluthafanna. Ég veit, að hæstv. ráðh. getur þetta ekki, en mér er nær að halda, að ef rannsókn færi fram á þessum efnum, þá kæmi það í ljós, að sá arður, sem hluthöfum þannig hefir verið greiddur af stofnfé, væri svo lítill, að allir mundu undrast.

Það er ekkert annað en lýðskrum hjá hæstv. atvmrh. eða öðrum þeim, sem um það tala, að þeir, sem að útgerðinni standa, hafi getað byggt sér hús — eins og svo fjöldamargir aðrir borgarar hafa gert. En það getur komið að því fyrir þessum mönnum, að þeir verði að hætta því á undan öðrum og að aðrir flytji inn í hús þeirra. Ég get ekki séð réttmæti þess, að þeir vegna atvinnurekstrar síns þurfi að verða fyrstir fyrir þessu frekar en aðrir menn.

Nú hafði ég aðeins spurt hæstv. ráðh. hvort honum fyndist æskilegra, að þessu fé, sem varið hefði verið til húsbygginga og annarar framkvæmda, hefði verið komið þannig í eyðslu, að ekkert sæist eftir því, eins og er með megnið af því fé, sem hæstv. ríkisstj. hefir farið með síðan 1927. Þessari spurningu svaraði hæstv. ráðh. ekki, heldur fór undan í flæmingi. Þess vegna er þetta tal hæstv. ráðh. — ef þetta eru rök hans fyrir því að líta ekki eins á þörf stórútgerðarinnar eins og þeirrar smærri — fánýtt og einskisvert. Það hefir ekkert verið borið fram af fulltrúa hinna vinnandi stétta í landinu. Hér er ekkert verið að hugsa um að láta það lifa, sem lífvænlegt er. Þetta málefni er í eðli sínu eins og síldaruppbótin til sjómanna. Það er ekki verið að líta á allsherjar nauðsyn og alþjóðarhag, heldur er verið að afla kosningafylgis, og svo lengi sem ríkissjóður er notaður til þess í stórum stíl, svo lengi er vonlaust um hag og heill þjóðarinnar.