27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Við 2. umr. þessa máls lýsti hæstv. atvmrh. því yfir, að hann skyldi sjá svo til, að viðræður gætu orðið milli beggja aðila, sem að skuldaskilafrv. standa, milli 2. og 3. umr. mér þykir nú fyrir því, að hæstv. ráðh. skuli ekki hafa tekið neitt tillit til minni hl. sjútvn. og afstöðu Sjálfstfl. til málsins, eða leitazt við að efna loforð sín, að öðru leyti en því, að flytja þessa brtt., sem lítill tími er til að athuga, ef afgr. á málið nú frá 3. umr. En eins og sakir standa, er ekki um það að sakast, fyrst hætv. ráðh. þóknast að hafa það svo, og mun minni hl. sjútvn. ekki hafa tök á að beygja hann eða sveigja inn á aðrar brautir. En þó ég álíti, að hér sé allt of skammt gengið og að frv. okkar sjálfstæðismanna sé betra en frv. stj., þá hefi ég samt látið mér koma til hugar, að eitthvað mætti bæta þetta frv., sérstaklega að hækka upphæðina, sem ætlazt er til, að notuð verði til hjálpar þessum hluta bátaútvegsins. Hæstv. stj. hefir áætlað, að 11/2 millj. kr. nægi í þessu skyni, en ég leyfi mér að draga í efa, að þetta fé nægi til þess að gera það líklegt, að sporið verði stigið svo að a. m. k. sá hluti bátaútvegsins, sem hér er látinn koma til greina samkv. till. hæstv. stj., fái þá hjálp, sem hann þarf. Álít ég því að nauðsynlegt sé að hækka upphæðina til muna Hér með er ekki sagt, að ég samþykki þær aðferðir, sem hér er beitt, og hæstv. stj. hefir lýst yfir, að hún hafi í hyggju að herja fram með oddi og egg í þessu máli, sem sé lántökuaðferðina, og að okkar till., sem borin er fram í öðru lagi, í sérstöku frv., sé ekki lífs auðið. Brtt. mín miðar að því, að það komi í ljós, hvort það, sem hæstv. stj. lætur í veðri vaka, að hún ætli að gera, sé framkvæmanlegt. Þetta ætti að vera þeim mun aðgengilegra, þar sem hæstv. stj. hefir nú komið fram með brtt. á þskj. 293, þar sem gengið er út frá því, að horfið sé frá því að taka lán, heldur skuli gjaldeyrisins aflað með útgáfu handhafaskuldabréfa. Þegar þessa er gætt, þá ætti það að vera heldur aðgengilegra fyrir hæstv. stj., að ganga inn á dálitla hækkun á þessari upphæð, sem ég veit, að hæstv. stj. er ljóst, og ekki sízt þeim, sem til þekkja í þessu máli, að er allt of lág í stjfrv. Vegna þess, sem ég gat um áður, að við minni hl. bíðum eftir boði frá hv. meiri hl. sjútvn. til þess að ræða málið, var ég ekki viðbúinn að hafa hér prentaða brtt., og með því að það eru aðeins fáar mínútur síðan ég sá brtt. hæstv. atvmrh., þá hefi ég samið skrifl. brtt., sem ég vona, að fái að koma hér undir atkv. Hún gengur í þá átt að hækka 11/2 millj. um 1 millj. upp í 21/2 millj. kr. Verði hún samþ. og horfið að því að gefa út handhafaskuldabréf, þá yrði umráðafé þessa sjóðs 1 millj. kr. hærra en upphaflega var gert ráð fyrir, og ímynda ég mér, að öllum muni þykja það sanngjarnt og ekki of hátt áætlað með því móti.

Þá er enn önnur brtt., sem mér virðist þurfa að flytja við byrjun 21. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Frá því er lánbeiðandi hefir sent lánbeiðni til sjóðsstj. og þangað til samningaumleitunum endanlega er lokað, má lánbeiðandi eigi greiða skuldheimtumönnum skuldir, sem áður eru stofnaðar, hvort sem þær eru fallnar í gjalddaga eða eigi, nema um veðkröfur eða ótvíræðar forgangskröfur sé að ræða.“

Ég býst við, að mörgum muni þykja það ákvæði nokkuð strangt fyrir báða aðila, að þeir menn, sem sent hafa lánbeiðni til sjóðsstj., megi frá því augnabliki og þangað til samningaumleitunum er að fullu lokið, sem getur skipt mánuðum, alls ekki undir neinum kringumstæðum greiða nokkrar skuldir aðrar en veðskuldir og forgangsskuldir.

Í gr. er ekkert tekið fram um það, hvort um stærri eða smærri skuldir sé að ræða. Menn mega bara engar skuldir greiða. Mér virðist þetta ákvæði allt of einstrengingslegt og geti orðið jafnt skuldunautum sem skuldheimtumönnum til mikilla óþæginda. Þess vegna vil ég leggja til, að orðalaginu yrði dálítið breytt og vikið við, þannig að hendur manna séu ekki algerlega rígbundnar í þessu efni.