27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja mjög umr. um málið úr þessu. Það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, breytti að engu leyti því, sem ég hafi sagt. Hann gat ekki komizt hjá því að viðurkenna þær tölur réttar, sem ég nefndi; svo langt sem þær náðu. Hitt er mér ljóst, enda hefi ég aldrei borið á móti því, að togararnir, að undanskildum örfáum undantekningum, hafa greitt mikið í vinnulaun og veitt ríkissjóði verulegar tekjur. Það er því ekkert annað en útúrsnúningur af verstu tegund að skilja orð mín svo, að mér sé ósárt um, þó floti togaraútgerðarinnar stöðvaðist. Mér er fyllilega ljóst, hvílíkur voði slíkt væri fyrir þjóðina og ríkið, en þar sem togaraútgerðin hefir að langsamlega mestu leyti lánsfé frá bönkunum, sem eins og allir vita eru ríkisstofnanir, þá tel ég rétt, að bankarnir geri upp skuldamál togaraútgerðarinnar. Aðalhætta bátaútgerðarinnar er aftur á móti sú, að mikill hluti þeirra skulda, sem á henni hvíla, eru verzlunarskuldir, sem eru kræfar hvenær sem er og skuldareigendum þóknast. Þess vegna verð ég að álíta, að þessi útgerð sé í meiri hættu vegna lánardrottna sinna heldur en togaraútgerðin. Það er því hreinasti útúrsnúningur að halda því fram, að ég vilji togaraútgerðina feiga, en með tilliti til takmarkaðrar getu ríkissjóðs, þá verð ég að telja sjálfsagt að reyna að hjálpa þeirri útgerðinni, sem í mestri hættu er stödd. Þá var ekki alveg réttur sá samanburður, sem hv. 6. þm. Reykv. var að gera á tekjum þeirra manna, sem vinna að útgerð á bátum og togurum. Bæði er það, að vélbátaútgerðin er af mörgum stunduð sem hjáverk, en togaraútgerðin miklu síður, og svo er á það að líta, að togararnir eru flestir gerðir út í Reykjavík, þar sem kaup er hærra en annarsstaðar á landinu, og sömuleiðis opinber gjöld og allar lífsnauðsynjar manna. Aftur á móti eru flestir vélbátarnir gerðir út víðsvegar úr öðrum landshlutum. Ég ber engar brigður á það, að togararnir skili miklu kaupi þann tíma, sem þeir starfa, en það gera fleiri tegundir útgerðar. Línuveiðararnir eru næstum því jafnháir og stærri vélbátar í einstöku tilfellum, þegar á allt er litið. Að ég gerði í síðustu ræðu minni samanburð á rekstrarafkomu mismunandi greina útgerðarinnar, var í tilefni af orðum hv. 5. þm. Reykv. um daginn.

Þá er það hin mesta meinloka hjá hv. 6. þm. Reykv., að lánin ættu að vera því hærri, sem eignirnar séu minni. Slíkt nær ekki nokkurri átt, því ef hann vill lána þeim meira, sem minna eiga en aðrir, samanborið við skuldir, þá er það ekki annað en það, að verið er að greiða lánardrottnum skuldir, sem eru þeim að mestu leyti tapað fé, og þá væri hér um að ræða fyrst og fremst hjálp til lánardrottna útgerðarinnar, en ekki til hennar sjálfrar, en tilgangurinn er ekki sá fyrir þeim, sem flytja þetta frv., heldur hinn, að tryggja mönnum með tiltölulega lítilli hjálp eftirgjöf á skuldum, svo þeir geti verið færir um að starfa áfram.

Hv. 6. þm. Reykv. þótti það óviðfelldið, að bankastjóri í öðrum bankanum ætti að hafa yfirstjórn skuldaskilanna, en að hinn bankinn hefði þar enga íhlutun. Ég skal játa, að í fljótu bragði lítur þetta svona út, og skal ég gera grein fyrir því, hvers vegna þetta er talið heppilegt. Í 25. gr. frv. segir svo: „Þegar lokið er lánveitingum úr skuldaskilasjóði, skulu eignir sjóðsins renna í stofnsjóð fiskveiðasjóðs Íslands, jafnóðum og útlán skuldaskilasjóðs útborgast“, enda á fiskveiðasjóður að annast allt skrifstofuhald skuldaskilasjóðs frá upphafi, skuldaskilasjóði að kostnaðarlausu. Nú er það svo, að einn af bankastjórum Útvegsbankans hefir stjórn og umsjón fiskveiðasjóðs með höndum, og þar sem eignir og tekjur skuldaskilasjóðs eiga að renna í stofnsjóð fiskveiðasjóðs, þótti okkur eðlilegt og rétt, að sá bankastjóri, sem hefir stjórn þess sjóðs með höndum, væri einnig formaður skuldaskilasjóðs.