27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Ólafur Thors:

Það er nú búið að ræða þetta mál svo ýtarlega hér á Alþingi, að ég tel enga ástæðu til þess að bæta miklu við rök flokksbræðra minna til sönnunar á okkar skoðunum á málinu. Það frv., sem hér liggur fyrir, er ekkert annað en fullkomin brigðmælgi á þeim vilyrðum um lausn á málinu, sem ríkisstj. gaf í lok síðasta Alþingis. Frv. þetta er aðeins ófullnægjandi tilraun til þess að leysa úr einum þætti þeirra vandræða, sem sjávarútvegurinn á nú við að búa og greinilega er lýst í skýrslum og áliti mþn. í sjávarútvegsmálum, er lögð voru fyrir síðasta þing og þá var gerð fullkomin tilraun til að leysa með þeim frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, um fiskveiðasjóð og fleiri frv., er þá voru fram borin af sjálfstæðismönnum hér í hv. Nd. Ég tel enga þörf á því, eins og ég þegar hefi tekið fram, að bæta við rök minna flokksbræðra fyrir því, að frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér enga lausn á þessu mikla vandamáli, en ég vildi gjarnan láta það sjást í Alþt., að þetta er mín skoðun eins og þeirra og ég hygg megi segja, skoðun allra sjálfstæðismanna á Íslandi. Skýrsla sú, er hv. 6. þm. Reykv. flutti í síðustu ræðu sinni, er mjög merkilegt sönnunargagn í þessu máli og sýnir það, að hæstv. ríkisstj. hefir ekki litið á málið frá réttu sjónarmiði, þegar hún bar fram sínar lítilmótlegu og veigalitlu till. í þessu frv. Ég tel mig vera allkunnugan þessum málum, en þó brestur mig kunnugleika til þess að bæta nokkru við þá skýrslu, sem hv. 6. þm. Reykv. flutti hér í sinni síðustu ræðu. Ég vil aðeins minna á það, að daglaun á togurunum hafa á síðustu 4 árum verið meira en helmingi hærri en daglaun annara sjómanna á öðrum skipum, en jafnframt má taka það fram, að atvinnan á togurunum hefir yfirleitt náð yfir lengri tíma á hverju ári en atvinnan á hinum öðrum skipum, og mér er kunnugt um það, að meðaltekjur sjómanna á togurunum hafa verið tvisvar til þrisvar sinnum hærri yfir árið en á öðrum veiðitækjum, og margir þeir menn, sem á togurunum vinna, hafa enga aðra atvinnu yfir árið.

Af þessu er augljóst, sem hæstv. ráðh. þá líka telur sig hafa vitað, að togaraútgerðin er arðvænlegasta atvinnugreinin við sjávarsíðuna, en þá staðreynd, að þessi útgerð hefir ekki skilað sínum eigendum eins góðum tekjum og önnur veiðitæki, ber að rekja til þess, að þessi útgerð hefir greitt þeim, sem að henni vinna, hærra kaup en aðrar atvinnugreinir, og sömuleiðis hærri gjöld til hins opinbera. — Ég skal svo enda þessi orð mín með því að lýsa því yfir enn á ný, að ég uni á engan hátt við þau úrslit þessa máls, sem í frv. felast. Það má náttúrlega segja, að nokkur bot sé ráðin á málinu, ef hin skrifl. brtt. hv. þm. Vestm. verður samþ., og greiði ég henni að sjálfsögðu atkv., en lausnin er þó eftir sem áður ófullnaegjandi og þeir, sem frv. bera fram, hafa ekki staðið við þau loforð, er þeir gáfu á síðasta þingi, heldur hafa þeir riftað þeim.