27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Við 2. umr. þessa frv. lét ég í ljós fyrst og fremst dálítinn vafa um, að þessi tilraun, sem hér á að gera til að bjarga útgerðinni, væri á nokkurn hátt fullnægjandi, og í öðru lagi að það, sem hér átti að gera, væri að styðja þann lakast stæða hluta af lökustu framleiðslutækjum landsmanna til samkeppni við önnur framleiðslutæki sömu atvinnugreinar. Ég var sannfærður um það þá, og er það enn, að ef á að nota aðstöðu ríkisvaldsins til þess að halda uppi útgerð án þess að tilkostnaður hennar sé nokkuð lukkaður eða að von sé um arð, þá er vafasamt, að þetta frv. fari í rétta átt, m. a. vegna þess, að gera má ráð fyrir, að togaraútvegurinn og stærri skipin í flota landsmanna séu hagkvæmari fyrir þjóðfélagið í rekstri heldur en smábátaútvegurinn, og þó sérstaklega smærri mótorbátar. Ég sagði þá, að ég skyldi reyna við þessa umr. að lýsa því nokkuð með tölum, hvernig hlutfallið er milli þessara framleiðslutækja, togaraútgerðarinnar og smábátaútvegsins, þegar litið er til þess, hversu mikið þessi útgerð hvor fyrir sig verður að kaupa af því, sem okkur landsmönnum er óhagstæðast, nefnilega frá útlöndum. Nú þykist ég vera nokkru nær um þetta, og skal ég því leyfa mér að segja með nokkrum tölum frá þeirri niðurstöðu, sem ég hefi komizt að í þessu efni.

Það er þá fyrst samanburður á aflamagni og tilkostnaði hjá bátaútgerðinni 1933, borið saman við afla og tilkostnað togaraútgerðarinnar frá sama tíma.

Sé nú aflinn athugaður fyrst, þá kemur það í ljós, að togararnir, 40 að tölu, hafa aflað alls um 50% af heildarafla landsmanna, og mótorbátarnir, 400 að tölu, hafa aflað á þessu sama ári 40% af öllum aflanum. Tilkostnaðurinn greiddur til útlanda var hjá togurunum á þessu ári hér um bil 1890000 kr., en samskonar kostnaður hjá smábátunum þessa sömu vertíð var hér um bil 2925000 kr., og eins og áður var sagt, var aflinn álíka mikill, eða 40%. Það munar því rúmlega 1 millj. kr., sem vélbátaútvegurinn hefir verið óhagstæðari þjóðarbúinu heldur en togaraútgerðin í þá 80 daga, sem það tók að ná í þennan afla.

Það er augljóst af þessu, að ef ríkisvaldið vill taka tillit til þess, hversu mikið hver grein sjávarútvegsinns þarf að kaupa frá öðrum löndum, þá er óhentugt að styðja vélbátaútveginn. Og það er alveg augljóst, að ef ríkisvaldið er með fjárframlögum að styðja lakasta hlutann af framleiðslutækjunum til þess að keppa — með árangri skulum við segja —, við betri framleiðslutæki, þá er ríkisvaldið þar að gera ráðstafanir, sem eru til þjóðartjóns.

Ég hélt, að það mundi ekki vera tilgangur ríkisvaldsins með þeirri íhlutun, sem þeir hafa nú meiri og meiri með hverjum mánuði um alla atvinnuháttu landsmanna, að tilgangurinn með þessum ráðstöfunum væri sá, að gera þjóðarbúinu augljóst tjón, með því að ég heyrði líka hæstv. atvmrh. viðurkenna, að þetta sjónarmið væri þó nokkurs virði, og að bæri vissulega að taka tillit til þess arna í hugleiðingunum um það, hvernig ráðstafanir skyldi gera, ef ríkisvaldið hefði afskipti af svona framleiðslu, og því vildi ég benda hæstv. ráðh. á það, hvort hann vildi ekki, áður en hann gerir ráðstafanir til að fá þessa löggjöf í gegn óbreytta eins og hún liggur fyrir nú, kynna sér þetta og vitanlega draga af því ályktanir, sem ég fyrir mitt leyti álít, að geti ekki verið nema á einn veg, ef hér á að gera ráðstafanir til frambúðar, og ef þær ráðstafanir, sem gera á, eiga að verða til hagsmuna fyrir þennan atvinnuveg, og þá um leið fyrir þjóðarbúið í heild. Ég get skilið, að hæstv. ráðh. vilji ekki líta á þetta, ef hann vill bara hugsa um hagsmuni einstakra aðilja, en ekki taka tillit til þarfa þjóðfélagsins eða þeirra erfiðleika, sem nú eru að dynja yfir.

Hæstv. ráðh. segir, að fleiri menn hafi atvinnu á mótorbátum en í sambandi við togaraútgerðina. Ég játa, að mikið tillit má taka til þess. En af því að hæstv. ráðh. sagði við 2. umr., að hann hefði ekki gert sér grein fyrir því, ekki hefðu legið fyrir upplýsingar um það atriði sérstaklega og því hefði hann ekki tekið tillit til þess, þá vildi ég óska, að hæstv. ráðh. kynnti sér nánar þetta atriði og léti það hafa áhrif á sínar framkvæmdir í þessu máli, því að það er a. m. k. fyrir mér alveg augljóst, að ef ríkisvaldið ætlar að taka upp á sína arma og styðja þessi verstu framleiðslutæki, smábátana, og láta þá útrýma betri framleiðslutækjum, sem sé stærri skipunum, sérstaklega togurunum, styðja þá svo í samkeppninni við togaraflotann, að hann biði lægri hlut, þó að ég sé ekki í vafa um, að hér sé verið að vinna óþurftarverk fyrir land og lýð.