11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

75. mál, hæstiréttur

Flm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Mikill hluti af ræðu hv. 8. landsk. var um það, að við nm. hefðum brugðizt skyldu okkar, og rökin fyrir því voru þau, að aðallega hefði meiningin með þál., sem varð til þess, að við vorum skipaðir, verið sú, að fást við réttarfar í undirrétti. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. getur fengið þetta út úr till., þar sem þar er skýrt tekið fram, að rannsaka eigi og gera till. um alla réttarfarslöggjöf landsins, einkamál og opinber mál, og landsdómi bætt við. Það er m. ö. o. allt réttarfar, allir dómstólar, sem till. nær yfir, og það er gengið svo langt, að það er heimtað, að farið sé eftir fullkomnustu erlendum fyrirmyndum. Nú veit hv. þm., að n. var skipuð skömmu fyrir áramót og hefir því ekki á svo stuttum tíma haft tíma til að gera þær gagngerðu breytingar, sem hún á að gera í þessum efnum, og það er ástæðan til þess, að hún núna kemur aðeins með breyt. á hæstaréttarl. Það liggur í augum uppi, að það lá beinast við að byrja á þessu, þar sem þarna var um stofnun að ræða, sem hægast var að koma nær nútímanum með því að gera breyt. Hitt er algerður misskilningur, að það hafi verið meiningin, að n. mætti alls ekki hrófla við hæstarétti; hann væri alveg fyrir utan hennar verksvið. Á þeim stutta tíma, sem við höfum haft til starfa, höfum við reynt að gera sæmilegar bætur til bráðabirgða á lögum hæstaréttar. Hitt er annað mál, ef rannsókn leiðir í ljós, að gera verður fleiri breyt. á hæstarétti, þá getum við orðið því samþykkir að gera það. En við vorum allir nm., líka flokksbróðir hv. 8. landsk., Einar Arnórsson, þeirrar skoðunar, að auka þyrfti réttaröryggið í landinu, og með því að gera æðsta dómstól landsins sem fullkomnastan mætti bæta úr þeim göllum, sem eru á lægri dómstólunum.

Hv. 8. landsk. hneykslaðist á því, að við skyldum ekki hafa sett í frv. atriðið um opinberan ákæranda, sem kom fram í frv. á síðasta þingi. En fyrst og fremst er ekki gefið, að við séum sammála um að stofna embætti opinbers ákæranda eða okkur finnist við séum búnir að rannsaka það mál nógu vel, og okkur ber alls ekki skylda til þess á þessum stutta tíma, sem við höfum haft til umráða. Þetta verður að vera í samræmi við álít okkar á öðrum breyt. réttarfarsins, t. d. þeim, hvort koma eigi á kviðdómi og slíku. En það tvennt, að gera breytingar á stofnun, sem þegar er til í landinu, einhverri þýðingarmestu stofnun, sem engum dettur í hug að leggja niður, eða taka upp opinberan ákæranda út í bláinn, er auðvitað ósambærilegt.

Annars voru aths. hv. þm. yfirleitt ekki þannig lagaðar, að það taki því að fara frekar út í þær. Hann bar fram þá fyrirspurn til mín og hæstv. dómsmrh., hvort ákvæði 1. og 2. gr. frv., „að fengnum tillögum dómsins“ og „leita umsagnar dómsins“ viðvíkjandi skipun dómara til bráðabirgða í hæstarétt, væru bindandi umsagnir. Ég vil aðeins biðja hv. þm. að taka eftir orðum gr. Það er augljóst, að þegar dómsmrh. hefir fengið tillögur dómsins, gerir hann sína ákvörðun, hvort sem hann fellst á tillögurnar eða ekki. En með þessu gefst hæstarétti kostur á því að láta skoðanir sínar í ljós, dómsmrh. gefst tækifæri til að nota sér allt hæstaréttar, en dómsmrh. verður eftir sem áður að fara eftir sínu eigin mati. Ákvæðin eru því alls ekki bindandi.

Þá minntist hv. þm. á dómaraprófið. Ég er sannfærður um, því meira sem ég hugsa um það efni (og ég hefi hugsað mikið um það), að þessi barátta með dómaraprófinu er einungis af gömlum þráa, og stafar af því að Íhaldsfl. beit sig í það, þegar frv. um fimmtardóm kom fram, að hér væri um pólitískt atriði að ræða. En það, að halda af pólitískum þráa í ákvæði, sem ekki gildir nema í einu landi utan Íslands, og er auk þess ákvæði, sem aldrei hefir verið notað, og vafasamt er, að nokkurn tíma yrði notað, má telja furðu litla alvöru í jafnmikilvægu máli.

En ég álít, að það versta við að halda ákvæðinu um dómaraprófið sé einmitt það, að af því geti risið pólitískar deilur milli dómara og dómsmrn. Dómsmrh. er ekki skuldbundinn til að veita stöðuna þeim manni, sem staðizt hefir prófið; hann getur sett mann í hana endalaust. Og það gæti orðið langtum meira tilefni til pólitískra deilna. En það eru einmitt blöð þess flokks, sem hv. þm. fylgir, sem mest hafa talað um, að dómstólar eigi ekki að vera pólitískir. Og það er líka rétt. En þess vegna eiga ekki heldur að vera í lögum um þá ákvæði, sem geta vakið pólitískan styr. Það er ekkert annað en slagorð hjá hv. þm., að réttaröryggið sé minna en áður með afnámi þessa ákvæðis. Ég fæ ekki skilið, hvers vegna hann er með þessum orðum að vega að flokksbróður sínum, einum mesta lögfræðingi landsins, þó að hann af pólitískum ástæðum vilji vega að mér og hv. 1. landsk.

Ég vil taka það fram, að fyrir mér hefir ekki vakað neitt annað en að gera endurbætur á frv. Ég held, að opinbera atkvæðagreiðslan sé í þessu efni aðalatriðið. Dómarar vanda sig þá betur, þegar þeir vita, að allir lögfræðingar landsins geta heyrt og dæmt um úrskurði þeirra, og þegar þeir verða persónulega að standa fyrir dómsúrskurði sínum, en geta ekki skotið sér á bak við tvo aðra. Ábyrgð dómaranna hlýtur þannig að vaxa og þeir að vanda sig betur, þegar þeir standa þannig berskjaldaðir fyrir alþjóð.

Það lítur út fyrir, að hv. 8. landsk. hafi skrifað greinina, sem birtist í Mbl. á dögunum, eftir ummælunum þar að dæma. Í greininni stóð, að það væri nær að fjölga dómurum í hæstarétti heldur en draga úr öryggi hans. Við höfum ekkert á móti því í n., að dómurum væri fjölgað. En við teljum ekki, að nú séu þeir tímar eða þær fjárhagslegu ástæður, að rétt sé að auka embætti og útgjöld, þar sem hægt er að spara. En svo er ekki heldur nein trygging fyrir því, að t. d. 5 dómarar dæmi betur en 3. Það fer mest eftir því, að dómararnir séu góðir.