11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

75. mál, hæstiréttur

Gísli Sveinason [óyfirl.]:

Það má segja með réttu, að allir flokkar hafi staðið að lögfræðinganefndinni, sem telur sig koma með þetta mikilsverða mál fyrir Alþingi, um breyting á lögum hæstaréttar. Aðalflokkarnir stóðu að n., stjórnarflokkurinn, eins og kunnugt er — en hann er nú tvískiptur —, og Sjálfstfl. Því að Sjálfstfl. óskaði þess, að Einar Arnórsson tæki þátt í n. Þar fyrir er engan veginn gefið, að þm. flokksins fallist á allt, sem n. kemur með, þó að þessi maður væri samþykkur því. En það, sem deilt er um, er ekki heldur það, sem með réttu verður eignað Einari Arnórssyni, því að það eru aðallega tvo atriði, sem aðalflm. málsins hefir lýst yfir, að Einar Arnórsson teldi sig undanskilinn að samþykkja. Þau tvö atriði eru að hve miklu leyti eigi að auka vald dómsmrh. í réttinum með skipun hæstaréttardómara, og í öðru lagi, hvort það öryggi, sem hæstiréttur telur þurfa fyrir veitingunni, sem sé dómaraprófið, skuli afnumið.

Það er óneitanlegt, að í flestum þjóðlöndum þessarar álfu kemur nú orðið ljóst fram, að þeir, sem ráða lögum og lofum, telja ekki rétt, að æðstu dómstólar fái að dæma eftir sínu höfði í öllum málum, sízt málum, sem skipta þjóðarheill. Það er kunnugt um vini okkar Rússana, eins um vini allra manna, Þjóðverja (og við erum allir af sama stofni og þeir), ennfremur Ítali o. s. frv. Stjórnir allra þessara ríkja halda því fram, að þjóðarheill eigi að standa yfir einstaklingsrétti. Og segja ekki lögin til um það? En þegar þjóðarheill er sama og stjórnarheill meðal þessara ríkja, fer málið þá ekki að vandast? Þegar stjórn situr við völd, er eðlilegt, að hún telji heill sína fara saman við heill alþjóðar, þó að við grunum nú stundum stjórnirnar um græsku.

Nú mætti segja, að okkur Íslendingum farist ekki og getum komizt af án þess að taka þetta upp eftir öðrum ríkjum, en ætli ekki geti farið svo, að við gerum það, hvort sem okkur líkar betur eða verr?

Ég get ekki kvartað undan hæstarétti, og ég held, að stjórnin geti það ekki heldur. Ég hygg, að segja mætti, að hæstiréttur væri farinn að laga sig eftir öðrum löndum, og væri orðinn ófús að dæma gegn stjórnarheill, jafnvel þó það væri fyrir þjóðarheill. Ég vil ekki þar með segja, að hæstiréttur sé svo ranglátur, eða þetta sé svo vísvitandi, heldur er hér eins og um lóð í vogarskál að ræða. Það getur verið álitamál, hvort lóðið vigtar hér meira, en það er eins og lóð stj. vilji oft verða þyngra. Þetta getur farið vel, ef heill stj. fer saman við alþjóðarheill, en annars illa. Þess gætir ef til vill helzt á Norðurlöndum, að einstaklingsréttur eigi að vera mest metinn. Aðrir geta reynt að hrekja þetta, en þó er þetta stefnan víðast, eins og allar fréttir staðfesta, sem utan að berast. Þessi stefna er venjulega talin vera afleiðing af einræði stjórnarvaldanna, en hún getur líka komið frá sjálfum þjóðunum, eða sumpart af því að ávallt beri á hverjum tíma, í mótsetningu við það, sem tíðkaðist um síðustu aldamót, að breyta æ meir um stefnu í þá átt að meta þjóðarheildina meira en einstaklinginn, og vinna að því að einstaklingurinn drukkni í heildinni. Ég er nú einu sinni svo gamaldags, að ég er á móti því að auka vald ríkisstj. eða áhrif um veitingu embætta, eins og gert er ráð fyrir í frv. þessu. mér virðist hv. aðalflm. telja það sjálfsagt, að veiting embætta þessara yrði hagað eftir till. dómara, en það er tekið fram, að veitingu þessara embætta skuli hagað eins og áður þannig, að konungur veitir þau eftir till. ráðh., og er engu þar um breytt. Þá eru burt felld úr lögunum skilyrðin um dómarapróf, og fæ ég ekki skilið, að þessi settu skilyrði valdi nokkrum trafala. Nú hefir það réttilega verið tekið fram, m. a. af hæstv. forsrh., að þetta dómarapróf hafi aldrei verið notað. En því er þá verið að gera úr þessu meinlitla ákvæði stórt atriði? Því má það ekki vera eins og áður, þó að hvergi sé í lögum, nema í Danmörku? Mér finnst ekki ástæða fyrir hæstv. stjórn að sparka í þetta atriði, þó það sé í lögum í Danmörku. Mér hefir heyrzt, að þangað voru sótt svo mörg fordæmi, að það hæfir sízt, enda hlýtur einhver önnur ástæða að liggja á bak við. Mér finnst það vera öfug „logik“ að afnema ákvæði vegna þess að það hefir ekki gert ógagn, en getur vel verið til öryggis. Það hlýtur að vera eitthvað sérstakt, sem vakir fyrir um að afnema þetta ákvæði, sem er til öryggis, þó að það hafi ekki verið notað. Þó að sett sé það skilyrði að leita umsagnar dómaranna, er það ekki sama og próf.

Þá er það og ekki heldur sama, að ráðh. sé skylt að leita álits dómara, eða fara eftir þeirra tillögum um skipun í dómaraembættin, og ráðh. er alls ekki skyldugur að fara eftir till. dómara. Þetta ákvæði, að ráðh. skuli „að fengnum till.“, er sett til að punta sem mest upp á þessa málsgr., en dómsmrh. getur samkv. frv. þessu ráðið því, hver situr í réttinum þennan og þennan dag sem dómari í forföllum aðaldómara Hér er verið að stinga inn litla fingrinum, til þess síðar að geta komið inn allri hendinni. Dómarar réttarins hafa ráðið því fram til þessa, hverjir koma inn í forföllum. Nú er þetta vald lagt í hendur dómsmrh. og svo er talað um, að óþarfi sé að vekja umr. um svona lítið atriði.

En þetta er stefnumál, sem fyllilega er leyfilegt að ræða við 1. umr. Ég skal taka það fram, að núv. stjórn eða dómsmrh. getur ekki þakkað sér að eiga upptök að þessu máli, þó hann vildi Hér sat dómsmrh. á undan honum, sem öllu vildi einn ráða og hafa bæði tögl og hagldir í æðsta dómstóli landsins, þ. e. hafa hæstarétt pólitískan, því vitanlega hneig allt í þá átt að draga hann undir hið pólitíska vald, og þetta hnígur til sömu áttar. Því hér er ekki átt við neitt annað en að dómsmrh. leiti umsagnar án þess að þurfa að taka tillit til hennar á nokkurn hátt. Hitt getur vel verið, að núv. hæstv. dómsmrh. álíti, að mikil rök þurfi til að brjóta í bága við álit dómaranna, eins og hann minntist á í ræðu sinni. Er sjálfsagt óhugsandi annað en ráðh. taki til athugunar rök hæstaréttar, en dómar manna eru ærið misjafnir. Og hver er til að dæma um þau rök, ef ráðh. sýnist annað en dómurunum? Enginn annar en hann sjálfur. Ég skal taka það fram, af því ég sé hv. fyrrv. dómsmrh. skjótast hér um deildina, að hans stjórn og blöð stjórnarflokkanna hafa kallað suma dóma hæstaréttar íhaldsdóma. við getum því skilið, hvernig dómar pólitísks ráðh. geta orðið um sín eigin rök, ef hann segir t. d., að rök hæstaréttar séu einskis virði eins og hv. fyrrv. dómsmrh. hefir komizt að orði, — því það má hann eiga, að hann fer ekki stundum dult með skoðanir sínar.

Ef ráðh. ætti samkv. frv. þessu að vera bundinn við tillögur dómara hvað snertir skipun nýs dómara eða setningu forfalladómara, þá hefði svo verið frá gengið að ákveða í grein þessari, að dómsmrh. setti í embættin eftir till. hæstaréttardómara, það hefði verið rétt orðalag, ef ætlazt hefði verið til þess af aðstandendum og flm. þessa frv., að svo yrði gert. En hitt skilur enginn maður svo, að ráðh. sé skuldbundinn, þó að eigi skuli skipa í embættið fyrr en að „fengnum till. hæstaréttardómara“. Eftir því sem stjórnskipunarlagafræði hefir verið skilin og skýrð, þá er ekki unnt að leggja annan skilning í þetta atriði. Þarf ekki að fjölyrða um, að með þessu frv. er verið að flytja veitingarvaldið úr hendi dómaranna yfir til ráðh., því stjórnin vill fá að vera einráð um dómaravalið og það verður hún, ef orðalag þessarar frvgr. verður samþ. óbreytt. Nú vil ég spyrja, hvort hæstv. stjórn vill ekki fallast á að taka þarna í stað orðanna „að fengnum till.“ — eftir tillögum, ef brtt. kemur fram um það, — hvort hún vill ekki hverfa frá þessari einræðisstefnu, þegar allt er nú gert í samræmi við lýðræðið, og að stofnunin mætti ráða þarna um, sérstaklega þegar ekki verður nú oft nema um stuttan tíma að ræða í forföllum, eins og skýrt er tekið fram í 1. gr. frv. að gegna dómaraembætti í forföllum aðaldómara.

Mér skilst, að fulltrúi Sjálfstfl. í lögfræðinganefndinni hafi gert ágreining um það, sem talið er annað höfuðágreiningsatriðið, hvort dómsuppkvaðning og atkvgr. í réttinum skuli vera opinber eða ekki. Menn hafa ekki fundið til þess hingað til, þó svo væri ekki, m. a. vegna þess, að það eru sérlega fá tilfelli, sem ágreiningur hefir orðið í hæstarétti. Það er rétt, að frá sjónarmiði praktiserandi lögfræðinga hefir þetta dálítið að segja, en ekki fyrir aðra, nema þá ef menn ætla að elta ólar við dómsuppkvaðningu eða nota í pólitísku augnamiði.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt meira að sinni, en vildi aðeins taka fram aðalatriðin við þessa umr., þar sem um stefnumun er að ræða. Þó menn hafi fellt misjafna dóma um hæstarétt, og ekki fundizt hann alltaf þjóna vissri pólitískri stefnu, þá hafa menn aldrei efast um, að í honum væri fullkomið öryggi. En svo maður segi ekki of mikið, þá er það alrangt, að með þessu frv. sé réttaröryggið tryggt á nokkurn hátt, enda er svo frá gengið, að tæplega er unnt að umbæta gildandi lög um hæstarétt hvað það snertir, en hér er gerð tilraun til að rýra það. Það er engan veginn hægt að koma með rök eins og það, að í staðinn fyrir vald eða rétt dómaranna komi úrskurður pólitísks dómsmrh., eða sem a. m. k. verður pólitískur ráðh. meðan núv. stjórn situr. Vildi ég mega vænta þess, að menn gætu komið sér saman um lausn þessa máls, svo ekki þyrfti að rísa meiri ágreiningur en orðið er. Loks vil ég svo segja það, að það var ekki þetta atriði, sem lá beint fyrir, að nefndin ryki til, þegar hún vildi sýna rausn sína og þykjast vilja einhverjar umbætur á l. um hæstarétt.