18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

75. mál, hæstiréttur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Eins og ég tók fram við 1. umr., verð ég að segja, að ég hafði búizt við, að svokölluð lögfræðinganefnd, sem skipuð var samkv. ályktun síðasta þings, hefði fyrst og fremst snúið sér að því að undirbúa umbætur á réttarfarslöggjöfinni, sem eru meira aðkallandi en þær, sem eiga að felast í þessu frv. um hæstarétt.

Hæstiréttur býr ekki við eldri löggjöf en frá 1919. Sú löggjöf var þá sniðin eftir reynslu annara þjóða. Þá var m. a. tekinn upp munnlegur málaflutningur, sem hefir þótt gefast vel og upplýsa málin betur en hinn skrifaði málaflutningur, sem enn tíðkast í héraði.

Ef það er nokkurs metið, sem fræðimenn segja, er það eftirtektarvert, sem Einar Arnórsson hæstaréttardómari sagði á þingi 1931, er hann lét svo um mælt, að meira máli en breytingar á hæstarétti skipti það, að fá umbætur á meðferð einkamála í héraði.

Hefði nú þetta, að fá umbætur á réttarfarinu almennt, vakað fyrir meiri hl. lögfræðingan., myndi hann hafa valið þá leið að taka málið neðan frá og færa sig upp á við, eins og Einar Arnórsson lagði til 1931. En að sú leið hefir ekki verið farin, bendir til þess, að það sé ekki öryggi hæstaréttar, heldur öryggi framkvæmdavaldsins, sem tryggja eigi með þessu frv.

Þá má einnig benda á ummæli hv. 1. landsk. og hæstv. dómsmrh. á þinginu í fyrra er rætt var um opinberan ákæranda. Þá létu þeir báðir þá skoðun í ljós, að breyt. þær, sem það frv. gerði ráð fyrir á réttarfarslöggjöfinni, yrðu að ná til meðferðar allra opinberra mála.

Mér þætti gaman að vita, ef þessi hv. flm. frv. vill halda því fram í alvöru hér á eftir, að það þurfi ekki að gera síðar ráð fyrir nýjum breyt. á hæstaréttarlögunum, þegar lögfræðingan. kemur fram með aðrar breyt. á réttarfarslöggjöfinni. Og ef hann játar þetta, þá er þar með vissulega fengin fullkomin viðurkenning hans á því, að það var í mesta máta óviðeigandi og undarlegt að hrófla í þetta sinn við löggjöfinni um þennan dómstól, án þess að það væri gert í samræmi við breytingar á réttarfarslöggjöfinni í heild. Hitt skal ég játa, að það eru ýms atriði í þessu frv. til bóta frá því, sem er í núv. löggjöf, en þær breyt. eru ekkert aðkallandi. Þess vegna skrifuðum við hv. þm. Snæf. undir nál. með fyrirvara, að við viljum að vísu afgr. frv., úr því að það er fram komið, og flytjum við allverulegar brtt. við það á þskj. 185; en ef þær verða ekki samþ., þá greiði ég atkv. á móti frv.

Fyrsta brtt. okkar er um það, hversu margir dómarar skuli eiga sæti í réttinum til að dæma í málum, eftir því hvað umfangsmikil þau eru. — Þegar landsyfirrétturinn tók til starfa hér á landi, þá voru þrír dómarar í réttinum, en þá var hægt að áfrýja dómum hans til hæstaréttar Dana í Kaupmannahöfn. En þegar hæstiréttur var fluttur heim samkv. l. frá 1919, þá var það álit löggjafarvaldsins, að ekki mætti stofna þann dómstól með færri en 5 dómurum. Þótti þá mjög nauðsynlegt, að hinn æðsti dómstóll í landinu væri þannig skipaður af nægilega mörgum hæfileikamönnum í dómarasætum, að landsmenn mættu vera nokkurnveginn öruggir um meðferð mála sinna, þannig að þjóðin mætti vissulega bera fullt traust til réttarins að því er snertir starfsemi hans inn á við. Og að því er við kemur starfi dómstólsins út á við, þá þurfa erlendir aðilar iðulega að sækja mál sín undir hæstarétt, og er því mikils um vert, að þeir megi öruggir treysta dómsvaldinu hér á landi. Þegar hæstiréttur var fluttur inn í landið, var ekki mikill ágreiningur um það, að dómarar ættu að vera 5 í réttinum. Og eins og kunnugt er, þá var til enn frekara öryggis sett ákvæði um það í stjórnarskrána, að hæstaréttardómarar skyldu vera sem óháðastir og eigi taka neinn þátt í umboðsstörfum.

En árið 1924, þegar þjóðin átti við óvenjulega fjárhagsörðugleika að etja, og leita þurfti margskonar sparnaðarráðstafana til útgjaldalækkunar á þjóðarbúinu, var ein þeirra ráðstafana sú, að dómurum var fækkað í hæstarétti úr 5 niður í 3. Einu rökin, sem borin voru fram til stuðnings þessari ráðstöfun, var fjársparnaðarþörf ríkisins. Jafnframt og þetta var gert urðu allir, sem að því stóðu, að játa, að raunverulega væri með þessari ákvörðun dregið mjög mikið úr réttarörygginu í landinu. Og nú, eftir að þessi dómarafækkun var látin fara fram, hafa komið fram hvað eftir annað mjög áberandi óánægjuraddir alstaðar að, út af því, að ekki skuli vera nema 3 dómarar í hæstarétti. Það er út af fyrir sig ekki af því, að 3 dómarar geti ekki dæmt rétt í málum eins og 5 manna dómstóll. En það, sem fyrir þeim mönnum vakir, sem þessar kröfur gera, er, að það veiti þó ætíð meira öryggi, bæði inn á við og gagnvart erlendum aðilum, því fleiri sem þeir dómarar eru, er komizt hafa að sömu dómsniðurstöðu. Þessar kröfur um fjölgun dómara í hæstarétti hafa komið fram frá lagadeild Háskóla Íslands og frá dómurum í hæstarétti, og iðulega frá málflutningsmannafél. Íslands. Það hefir oftar en einu sinni sent Alþingi tilmæli og áskoranir um það, að dómurum yrði fjölgað í hæstarétti. Dr. Björn Þórðarson, lögmaður í Reykjavík, ritaði fyrir nokkrum árum mjög góða grein um þetta mál í tímarit lögfræðinga og hagfræðinga, og komst þar að þeirri niðurstöðu, að réttaröryggi í landinu væri ekki fyllilega borgið nema í hæstarétti væru 5 dómarar. Á Alþingi 1930 flutti þáv. dómsmrh. (Jónas Jónsson) frv. um fimmtardóm, sem einnig var síðar flutt á þingunum 1931 og 1932, með lítilsháttar breytingum. Þó að allverulegur ágreiningur væri í þinginu um ýms atriði þess frv., þá var samt í því ein athyglisverð nýjung, þar sem lagt var til, að aðaldómarar í réttinum skyldu vera þrír, en að í hinum stærri og þýðingarmeiri málum, vandasömustu einkamálum og opinberum málum, skyldu 2 af prófessorum lagadeildar háskólans einnig taka sæti í réttinum, og ennfremur þegar aðaldómarar krefjist þess. Áttu þeir að taka sæti sem aukadómarar og vera þá 5 í dómnum. hér er farið bil beggja í brtt. okkur á þskj. 185, og miðað við þetta ákvæði, sem var í fimmtardómsfrv. Leggjum við til, að aðaldómarar séu aðeins 3, og er þannig tekið fullt tillit til þeirra raka um sparnaðinn, sem komu fram á Alþingi 1934, þegar dómurum var fækkað úr 5 í 3, með því að ákveða ekki 5 fasta dómara. En til þess á hinn bóginn að taka nokkurt tillit til þeirra krafa, sem fram hafa komið um öryggi réttarins, þá er farin sú leið, að 2 af lagaprófessorum háskólans skuli vera aukadómarar, og taka þeir sæti í réttinum þegar hann hefir margbrotin og umfangsmikil mál til meðferðar. Ég geri ráð fyrir, að eins og þau rök voru tekin gild af meiri hl. Alþingis 1924, að fjárhagur ríkissjóðs leyfi ekki að hafðir væru 5 fastir dómarar í hæstarétti, þá sé skiljanlegt, að hv. þdm. vilji ekki, sökum slæmrar fjárhagsafkomu ríkissjóðs, auka nú við tveimur föstum dómurum í hæstarétt. En hinsvegar er það einnig skiljanlegt, að hinir, sem vilja tryggja sem bezt réttaröryggi í landinu, vilji fara þá leið, sem stungið var upp á. í frv. um fimmtardóm, að fá aukadómara í réttinn í vandasamari málum. Í 1. lið brtt. á þskj. 18a, frá mér og hv. þm. Snæf., er einmitt stungið upp á þessu fyrirkomulagi — 3 aðaldómurum og 2 aukadómurum — og ætlazt er til, að þeir skipi sæti í réttinum eftir þeim reglum, sem settar eru í greininni.

Þetta atriði, hvort hæstaréttardómarar skyldu vera 5, kom til umtals í allshn., og skal ég taka það fram, að raunverulega voru allir nm. því fylgjandi og sammála um nauðsyn þess að fjölga dómurunum í réttinum, en töldu af ýmsum ástæðum ekki fært að framfylgja því að svo komnu. Nú er það vitanlegt, að fjöldi af þeim málum, sem koma fyrir hæstarétt, eru ákaflega einföld og umfangslítil og vandalaust að dæma í þeim; er því óþarft, að um þau fjalli fleiri en þrír dómarar. En svo koma hinsvegar stundum ýms vandasöm mál, sem menn skiptast mjög í flokka um, t. d. eftir afstöðu í þjóðmálum, og getur verið, að þau snerti jafnvel heilar stéttir í þjóðfélaginu. Þá er öruggara að hafa fleiri en 3 dómara.

Mér hefir skilizt á hv. flm. þessa frv., þm. Barð. og 1. landsk., að þeir mundu ekki treysta sér til að vera með brtt. um fjölgun dómara í réttinum. Mér finnst þetta satt að segja dálítið undarlegt, þegar litið er til þess, sem ég nú skal upplýsa, að hv. 1. landsk. átti upptökin að þessari till., að bæta við aukadómurum í hæstarétt, þegar hann undirbjó og samdi frv. um fimmtardóm 1930. Og til þess ennfremur að gera hv. þdm. kunna afstöðu hv. þm. Barð. í þessu efni, eins og hún var 1932, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr ræðu hans í þingtíðindunum frá því ári um fjölgun dómara í hæstarétti. Hann segir:

„Um fyrsta atriðið munu allir sammála, að þar sé um miklar umbætur að ræða frá því skipulagi, sem nú er, en margir munu hinsvegar fremur hafa kosið, að hinum föstu dómurum réttarins hefði verið fjölgað upp í 5; en það er hvorttveggja, að þetta hefði orðið allmiklu dýrara en að taka prófessora lagadeildar inn í dóminn, þegar á þarf að halda, eins og frv. gerir ráð fyrir, enda er meiri trygging fyrir því með þessu móti, að dómurinn sé vel skipaður í vandasömum málum, sem til hans er skotið.

Eru allar líkur til þess, að við lagadeild háskólans séu á hverjum tíma starfandi færustu og lærðustu lögfræðingar landsins, og þó að það sé að vísu rétt, að fræðimaður í lögum þarf ekki endilega að vera góður dómari, mælir þó allt með því, að þetta fari að öllum jafnaði nokkuð saman, enda mun reglan sú, að góður dómari sé ekki síður fræðimaður í sínu fagi, þó að undantekningar séu frá þeirri reglu, sem öllum reglum öðrum.“

Þannig leit hv. þm. Barð. á þetta mál 1932, að það gæti ekki orðið ágreiningur um, að þetta atriði væri til bóta, og að æskilegt væri, að hinir færustu og lærðustu lögfræðingar í landinu — prófessorar í lagadeild háskólans — tækju sæti í réttinum og störfuðu þar sem aukadómarar þegar mest þætti við þurfa. — Ég lýsi því yfir, að ég er því mjög fylgjandi, að það séu 5 fastir dómarar í hæstarétti. En ég veit, að það mætir mótspyrnu í þinginu vegna aukins kostnaðar. Hinsvegar get ég ekki skilið, hvernig þeir þdm., sem fyrir fáum missirum voru ákveðið fylgjandi þessari tilhögun, geta nú greitt atkvæði á móti henni. Ég skil ekki með nokkru móti þau rök, sem þeir láta leiðast af.

Um 2. brtt. okkar á þskj. 185 er það að segja, að hún felur í sér mjög mikilsvert nýmæli, sem gengur út á að ákveða um það, hvernig skipa skuli í dómarasæti í hæstarétti, ef hæstaréttardómari víkur sæti eða forfallast. Í frv. er gerður greinarmunur á því, hvort dómarasæti losnar í réttinum í einstöku máli eða um lengri tíma. Í öðru tilfellinu á dómsmrh. að skipa dómara í hið auða sæti, en í hinu gildir sú regla, sem ég hefi áður lýst, að einn af prófessorum lagad. háskólans tekur sætið eftir hlutkesti þeirra á milli eða tillögu hæstaréttar. Ég fæ ekki séð, að það sé neinn raunverulegur munur á því, hvort hæstaréttardómari víkur sæti í einu máli eða vegna forfalla, t. d. veikinda um lengri eða skemmri tíma. Í báðum tilfellum verður að setja mann í réttinn í hans stað, og fæ ég ekki séð, að á þessu tvennu sé neinn grundvallarmunur. Það er undarlegt, að í öðru tilfellinu á dómsmrh. að útnefna hinn setta dómara, en rétturinn sjálfur á að velja einn af prófessorum lagad. háskólans í hinu tilfellinu. Ég finn ekki nema aðeins eina skýringu á þessu, og hún er sú, að dómsmrh. vill þannig tryggja sér atkvæði í réttinum í pólitískum málum, og leggur því undir sig ákvörðunarrétt, sem á að vera í höndum dómaranna í hæstarétti. Um þetta hafa þær reglur gilt undanfarið, að þegar dómarasæti losnar í réttinum, þá tilkynnir forseti hæstaréttar lagadeild háskólans forfallin, og síðan er varpað hlutkesti á milli lagaprófessora deildarinnar um það, hver þeirra skuli settur í hið auða sæti í hvert sinn.

Það má vel vera, að ef til þess kæmi, að prófessorar lagadeildarinnar taka sæti sem aukadómarar í hæstarétti, þá sé hér um of þröngt svið að ræða, ef aðeins á að leita til lagadeildarinnar um dómara í forföllum hinna föstu dómara réttarins. Þess vegna höfum við í brtt. okkar fært út þetta svið þannig, að velja megi einhvern af kennurum lagadeildar háskólans, einhvern hæstaréttarmálaflm. eða héraðsdómara, sem fullnægir skilyrðum þessara laga, til þess að vera skipaður dómari í hæstarétti, og er þeim skylt að taka við þeirri kvaðningu. Sá meginmunur er á brtt. okkar og frv.gr., að samkv. brtt. okkar á hæstiréttur sjálfur að tilnefna mann í réttinn, en samkv. frvgr. á dómsmálaráðh. að gera það.

Ég lít svo á, eins og fram kemur í lögunum um hæstarétt frá 1919, að það eigi að neyta allra ráða til þess að hafa dómstólinn algerlega óháðan umboðsvaldinu. Dómararnir eiga að vera 5 og ekki gegna öðrum störfum en dómarastarfinu. Eftir okkar tillögum eiga þeir að vera sem óháðastir, og Alþingi á fyrst og fremst að gæta þeirrar reglu. En það verður vitanlega ekki, ef pólitískur ráðh. getur skipað menn í dómarasæti upp á sitt eindæmi, ef svo ber undir. Þriðja brtt., sem hér er um að ræða, er um það, með hverjum hætti skipa skuli hina föstu dómara í hæstarétti. Samkv. gildandi l. er ekki hægt að skipa dómara í réttinn nema þeir fullnægi vissum skilyrðum. Þeir þurfa að hafa hlotið 1. eink. við embættispróf og hafa starfað sem lögfræðingar ákveðinn tíma o. s. frv. Auk þess þurfa þeir að ganga undir dómarapróf, sem er fólgið í því, að dómaraefni á að kveða fyrstur upp dómsatkvæði í fjórum málum, af þeim á a. m. k. eitt að vera opinbert mál, og verður hann að hafa sýnt með þessu, að hann sé fær um að gegna dómsstörfum í hæstarétti. Með þessu ákvæði hefir það verið lagt á vald hæstaréttar að meta það, hvort viðkomandi er hæfur til að skipa sæti í réttinum eða ekki. Þetta er eitt af þeim ákvæðum, sem löggjafarvaldið setti inn í lögin 1919, til tryggingar því, að dómarar væru ekki skipaðir eftir geðþótta pólitísks ráðh., heldur samkv. reglum, sem löggjafinn taldi öruggar. Ef þetta ákvæði væri ekki í lögunum, þá gæti dómsmrh. skipað mann í réttinn, sem engin trygging er fyrir, að sé hæfur dómari, en hinsvegar fullvíst, að hann muni vera pólitískur fylgismaður ráðh. þegar rætt var um þetta atriði á alþingi 1932, var mjög mikið um það deilt. Og sá maður, sem almennt mun viðurkennt, að hefir mesta þekkingu á þessu máli, núv. forseti hæstaréttar, Einar Arnórsson, lét svo um mælt þá — með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er hitt höfuðatriðið, sem hv. frsm. meiri hl. talaði um. Það er um dómararaunina. Hann sagðist ekki skilja í mér, ekki lakari en ég væri nú, að ég skyldi vilja fórna frv. fyrir ákvæðið um dómararaunina. Það eru ekki mjög sannfærandi röksemdir, þó að megi á það benda, að í stórum löndum hér í álfu sé þessi skipun ekki höfð á. Við höfum síðan 1915 hér í okkar landi lagt mikla áherzlu á, að dómendur í æðsta dómstól landsins væru lausir við stjórnmál og dægurþras. Þess vegna voru sett þau ákvæði í stjskr. 1915, að dómendur væru sem lausastir við öll önnur mál en þau, sem fyrir réttinn koma. En á móti átti það að koma, að séð var um af löggjafarvaldinu, að þessi dómstóll gæti notið sín sem bezt og aflað sér þess trausts, sem nauðsynlegt væri. Í stórum löndum er ekki eins mikil hætta á ferðinni. Hér þekkir svo að segja hver annan, og hér er flokkabarátta hvað illvígust vegna fámennis og þeirrar smæðar, sem er hér á öllu hjá okkur. Þess vegna er hættara við því hér en annarsstaðar, að kall kunni að komast inn hjá pólitískum andstæðingum. Þess vegna hefir það verið skoðun mín og minni hl., að hættara sé við, að pólitískur ráðherra skipi í réttinn einungis menn eftir sínu höfði, sína pólitísku samherja, ef hann réði einn, heldur en ef rétturinn ætti að dæma um það, hverjir væru hæfir eða ekki. Það er að vísu svo, að ráðh. skipar menn í önnur embætti. En eftir minni skoðun er ekki jafnhættulegt, þó að lægri embætti séu skipuð pólitískt, eins og ef æðsti dómstóll landsins væri skipaður með þeim hætti. Ef dómaraefni á að sýna það í dóminum sjálfum, að hann muni vera hæfur til þess að vinna þau verk, sem þar skal vinna, þá skilst mér, að ríkari trygging sé fengin fyrir því, að maðurinn sé hæfur til verksins en með því fyrirkomulagi, sem hv. meiri hl. mælir með.“

Þannig lítur þessi reyndi lögfræðingur og dómari á þetta atriði. Og ég fæ ekki séð, að það sé með sanngirni hægt að halda því fram, að aðrir séu hæfari að dæma um hæfni dómaraefnis heldur en þeir, sem á hverjum tíma sitja eftir í hæstarétti, og ég fæ ekki séð, hvers vegna ekki má tryggja það á þennan hátt, að hæfustu mennirnir komi til með að taka sæti í réttinum, því að á annan veg tekst það ekki betur.

Þau ummæli hæstv. dómsmrh. við 1. umr., að aldrei hafi verið gripið til dómaraprófsins síðan það var lögfest 1919, hefi ég nú tekið til athugunar. Þá kemur það í ljós, að á þessu tímabili hefir aðeins einn sinni verið skipaður dómari í hæstarétt, og var það Einar Arnórsson. En þá lá fyrir yfirlýsing frá dómurum réttarins um, að E. A. hefði þegar sýnt það með dómsuppkvaðningu í 4 málum, að hann væri hæfur dómari.

Önnur ummæli hæstv. dómsmrh. við 1. umr. voru þau, að hrumur maður, sem væri á förum úr dómnum, ætti að dæma um hæfileika þeirra, sem taka ættu sæti í réttinum í hans stað. Þetta er fullkominn misskilningur, því að það eru þeir dómarar, sem eftir sitja í réttinum, er eiga að dæma um hæfni dómaraefna. Ég skal fúslega játa, að prófraunin út af fyrir sig eykur á engan hátt hæfni þeirra dómara, sem hana þreyta, en hún er sönnun, eða einskonar vottorð um það, að þeir séu færir um að taka að sér dómarastarfið. Og hvert sem við lítum liggja fyrir kröfur um prófraunir. Það er yfirleitt ekki hægt að skipa menn í embætti hér á landi án þess að þeir hafi lokið ákveðnu prófi. Það er ekki nægilegt, að maður hafi stundað sitt nám svo og svo lengi og komi með prófvottorð frá erlendum háskóla; hann verður að taka próf á ný. Og til þess að verða málaflutningsmaður fyrir hæstarétti, þarf lögfræðingur, auk þess að hafa 1. eink. og hafa starfað ákveðinn tíma sem lögfræðingur eða fulltrúi, að taka próf, sem felst í því, að hann hafi flutt a. m. k. 4 mál í hæstarétti og sýnt með því, að hann geti flutt mál sæmilega. Það fer eftir dómi hæstaréttar í hvert einstakt sinn. En ég hygg, að enginn vilji halda því fram í alvöru, að það beri yfirleitt að gera minni kröfur til þeirra manna, sem sitja í hæstarétti sem dómarar, heldur en til þeirra, sem flytja mál fyrir hæstarétti. En eftir því frv., sem hér liggur fyrir, er gerður mjög mikill greinarmunur á því að geta komizt til hæstaréttar sem dómari eða sem málflutningsmaður. Dómarinn þarf ekkert próf að taka, en málfærslumaðurinn verður að taka próf. Þetta er teoretiskt séð hreinasta hneyksli. Annað hvort verður að gera kröfu til þess, að dómarar taki próf eins og málflutningsmenn, eða þá að ganga verður út frá því, að prófin séu einskis virði. Í þessu sambandi vil ég vísa til þess, sem hv. þm. Barð. sagði á þingi 1932 og ég las upp áðan, sem sé, að það þurfi alls ekki að fara saman að vera góður lögfræðingur eða vera góður dómari. Við getum t. d. tekið fulltrúa í dómsmálaráðuneytinu, sem út af fyrir sig kannske hefir sýnt góða lögfræðikunnáttu. Ef hann hefir verið fulltrúi í 5 ár, er hægt að skipa hann sem fastan dómara í hæstarétti, en hann getur ekki orðið málaflutningsmaður fyrir hæstarétti an þess að taka próf fyrst, þ. e. a. s., að þessi sami maður er fær um að dæma í öllum málum, en er alls ekki fær um að flytja mál fyrir hæstarétti. Það hlýtur nú öllum að vera ljóst, hvað mikið ósamræmi er í þessu, því það er tvennt ólíkt að leggja mál fyrir rétt eftir framlögðum skjölum eða vinza burtu aukaatriði og það, sem er rangt, og semja forsendur dóms. Það er þess vegna frá þessu sjónarmiði séð ekki nokkur vissa fengin fyrir því, að sá maður, sem út af fyrir sig er góður lögfræðingur, þurfi jafnframt að vera góður dómari. Þess vegna er það skynsamlegast og tryggast, að hæstaréttardómararnir sjálfir kveði upp sinn dóm um það, hvort viðkomandi maður sé einnig fær um að dæma í málum. Og það má nefna annað dæmi. Skv. frv. er hægt að skipa sem dómara í hæstarétt þann mann, sem hefir 1. einkunn, óflekkað mannorð og hefir setið sem dómari í einhverri sýslu landsins í 3 ár. Nú er það svo í sumum sýslum þessa lands, að það er einsdæmi, ef fyrir kemur nokkurt mál, sem þarf að dæma um. Vill nú nokkur halda því fram, að ungur lögfræðingur, sem skipaður hefir verið sýslumaður í einhverri minnstu sýslu þessa lands tilsettan tíma, kannske dæmt 8—10 mál, sé líklegur til þess að vera hæfur dómari í hæstarétti. Þetta er svo mikil fjarstæða, að mér finnst það alveg makalaust, að hæstv. dómsmrh. skuli geta staðið að þessu frv. Sú minnsta krafa, sem hægt er að gera, er, að sá hringur, sem hægt er að velja menn úr til þess að vera fastir dómarar, sé þrengdur og burtu teknir þeir menn, sem engin vissa er fyrir, að séu hæfir til þess að vera dómarar, eins og t. d. fulltrúar dómsmálaráðuneytisins og sýslumenn utan af landi. Aftur á móti tel ég fulltrúa lögmanns, sem hafa það lífsstarf eitt að dæma mál, hæfa til þess að vera dómarar í hæstarétti. Ég vildi skjóta því til hæstv. dómsmrh., að hann athugaði, hvort ekki væri rétt að þrengja þennan hring. Ég veit, að hann fellst á það, að óviturlegt væri að skipa sýslumenn, sem ekki hafa neina reynslu í því að dæma mál, sem fasta dómara í hæstarétt. Ef þetta verður svo, að prófraunin er afnumin, þá verður afleiðingin sú, að það er ráðh., sem á að skipa alla dómara, að fenginni umsögn hæstaréttar, sem hann ekki þarf að fara eftir. Og ég hygg, að það gangi þess enginn dulinn, að þegar svo er komið, að pólitískur ráðh. skipar dómara í hæstarétt, þá sé ekki lengur borgið því öryggi, sem þingið 1919 vildi þó fyrst og fremst tryggja og stjórnarskrárgjafinn 1915 með því að setja það ákv. í stjskr., að dómarar ættu ekki að hafa umboðsstarf með höndum. En jafnvel þó að ráðh. skipaði í þetta embætti eftir beztu sannfæringu, án tillits til pólitískrar skoðunar, þá er sá hængur á, að einmitt af því að það var hann, sem skipaði í embættið, mun koma upp einhver kurr eftir dómsuppsögu, að það sé eðlilegt, að dómurinn hafi farið svona og svona af því að það var ráðh., sem skipaði dómarann, og hann hefði tryggt sér, að úrslitin yrðu þessi. Hinsvegar er ekki hægt að koma með þessi rök, ef ráðh. hefir ekki sjálfur skipað í dóminn. Við höfum dálitla reynslu fyrir okkur í þessu, sem sé þá, að þangað til 1919 var það ráðh., sem skipaði dómara í landsyfirrétt, og einmitt þetta ákvæði um skipunarvald ráðh. í landsyfirrétt var fellt niður af því það sýndi sig, að það vakti óróa í kringum réttinn, og það var álitið að geta haft skaðleg áhrif á úrslit dóma í vissum tilfellum. Ég vona því, að þingið, sem nú sker úr um þetta, eftir nánari yfirvegun vilji fallast á, að það sé eðlilegra, að settar séu meiri takmarkanir fyrir því, að menn geti komizt til hæstaréttar sem fastir dómarar, að það sé heppilegra bæði inn á við og út á við að hafa þessa stofnun eins óháða umboðsvaldinu eins og frekast er unnt, sem ekki verður, ef ráðh. hefir meira og minna hönd í bagga með skipun dómara.

Hv. 2. flm. þessa máls sagði í sinni ræðu hér í dag, að aðalbreyt. væri fólgin í hinni opinberu atkvgr. Ég veit það, að flokksbræður þessa hv. þm., og eins sérstaklega hv. þm. S.-Þ., gerðu á sínum tíma talsvert veður út af þessu ákvæði, að ráðagerðir og atkvgr. dómaranna skyldi vera opinber, og nú hefir þessi hv. þm. í einfeldni sinni álitið, að það ákvæði, sem hann flytur, væri shlj. því, sem stóð í frv. hv. þm. S.-Þ. um fimmtardóm 1930. En svo er alls ekki. Ákvæðið eins og það er nú í frv. er í raun og veru ekkert annað en það, sem gengið hefir fyrir sig við dómsuppsögu. Sá eini munur er það, að dómari er nú skyldur til þess að birta ágreiningsatkv. sitt, en áður hafði hann heimild til þess, en ekki skyldu. Og ég vil benda á, að það út af fyrir sig hefir vitanlega engin áhrif á niðurstöðu dóms, hvort minni hl. dómenda birtir sitt atkv. eða ekki; dómsniðurstaðan er jafnóhagganleg fyrir það. Það má líka benda á, að reynslan hefir yfirleitt verið sú, að dómarar hafa birt ágreiningsatkv. sín. Og hv. þm., sem eflaust les hæstaréttartíðindin, hlýtur að vita þetta mjög vel. Hann má ekki blanda saman þeirri gr., sem nú kemur fram í þessu frv., við þá gr., sem áður var tekin upp í fimmtardómsfrv. 1930. Sú gr. gekk miklu lengra. Þegar þessari gr. þess frv. var síðar breytt með frv. 1932, þá viðhafði próf. Einar Arnórsson sem þm. Þau ummæli, að í raun og veru væri þetta fyrirkomulag ekkert annað en það, sem gerist við dómsuppsögu. Dómararnir hafa innbyrðis sínar ráðagerðir. Þeir ræða málin eftir að búið er að flytja þau, og einum dómaranum er falið að koma með dómsniðurstöðu og semja forsendur. Og ef hinir dómararnir eru samþ., rita þeir undir dómsuppkastið og það er fært inn sem dómur. Ef dómari er ekki samþykkur, er honum heimilt að birta ágreiningsatkvæði sitt. Munurinn er aðeins sá, að nú er skylda að birta ágreiningsatkvæðið. Ég skal taka það fram, að ég er þessu alveg sammála, að hafa þetta svona, en það er bara dálítið hlægilegt, þegar hv. flm. er að apa það eftir hv. þm. S.-Þ., að þetta — sem á sér stað í framkvæmdinni — sé eitthvert meginatriði.

Brtt. okkar við 9. gr. er aðeins orðabreyt., og þarf ekki að fara neitt inn á það. Sama er að segja um brtt. við 6. gr. frv. — Að því er snertir brtt. við 10. gr., þá er eðlilegt, að þar sé bætt inn orðunum: í máli, sem flutt hefir verið munnlega, — því gr. ber það með sér, að hún á aðeins við munnlegan flutning máls. Það er líka eðlilegt, að 2. og 3. málsgr. 11. gr. komi sem sérstök gr., vegna þess að þær málsgr. eiga bæði við 10. og 11. gr. frv., sem sé bæði við skriflegan og munnlegan málflutning.

Að síðustu skal ég taka það fram, að mér finnst eðlilegt, að þessi l. séu látin ganga í gildi eftir sumarfríið, sem sé 1. sept. Dómararnir hætta sínum störfum í hæstarétti, þegar sumarfríin byrja, og þá er eðlilegast, ef nýir dómarar koma, að þeir taki sæti að haustinu til, þegar rétturinn kemur saman. Ef hæstv. dómsmrh. vill ekki ganga inn á þetta, þá hlýtur að vaka eitthvað sérstakt fyrir honum, og ég get þá í seinni ræðu bent honum á það, ef hann getur ekki getið sér þess til. Ég veit, að hann skilur hálfkveðna vísu, enda líka slær samvizkan hann. Hann hefir ekki getað setið rólegur nokkra stund undir ræðu minni, því hann veit, að það, sem hér gildir, er ekki aukið öryggi réttarins, heldur aukin áhrif pólitísks ráðh. í réttinum.