19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

75. mál, hæstiréttur

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það hefir orðið að vonum, að nokkuð miklar umr. yrðu um þetta mál, og satt að segja er það svo, að ýmsum okkar dm. sem hér sitjum, finnst, að það gæti gengið öðruvísi en verið hefir með hraðann á gangi þessa frv. Okkur finnst, að málið hefði átt að sæta gætilegri meðferð í þinginu. En það hefir verið lagt alveg sérstakt kapp á það af flm. frv. að hamra það áfram. Eins og öllum má vera ljóst, þegar verið er að tala um að breyta æðsta dómi landsins, þá getur það ekki þótt neitt lítilræði. Menn muna, hversu við brá um undirtektir, þegar fimmtardómsfrv. kom fram. Þá höfðu flokkar þeir, sem þá stóðu að ríkisstj., nægilegt atkvæðamagn til að samþ. það og gera að lögum, ef þeir hefðu fengizt til að standa óskiptir um málið. En það þótti þá ekki öllum henta og því fengust ekki allir flokksmenn ríkisstj. til þess að ganga að málinu og ljá því fylgi sitt. Þetta þóf hefir nú staðið í nokkur ár, og upp úr því er nú komið annað frv., runnið undan rifjum núv. ríkisstj. En það er ekkert áhlaupaverk, og á heldur ekki að vera áhlaupaverk, að breyta um meðferð mála í æðsta dómi landsins. Eins og allir vita, er rétta sá dómstóll, sem ekki verður áfrýjað frá, og hlutaðeigendur verða að láta sér niðurstöður hans lynda, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Það verður því um fram allt að gæta þeirrar sjálfsögðu reglu að ganga svo frá þessum dómi, að það geti orðið almennings álit og orki ekki tvímælis, að hann hljóti að vera óhlutdrægur. Ég benti á það með nokkrum orðum, sem ég lét falla við 1. umr. þessa máls, hver væri hin almenna stefna þessara flokka, ég sýndi fram á það, sem öllum er ljóst, að nú á tímum er þessi pólitíska einræðisstefna víða mjög áberandi. En mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar lögfesting á þeirri stefnu er borin fram af þeirri ríkisstj. og þeim flokkum, sem samkv. sinni eigin umsögn og blaðaskrifum þykjast standa einir á lýðræðisgrundvelli hér í landi. auðvitað eru þessi orð töluð algerlega út í loftið. Það er fullkunnugt, að þessir flokkar eru ekki fremur lýðræðissinnaðir heldur en aðrir, og koma jafnvel stundum fram sem ofbeldisflokkar og hreinir einræðissinnar, þó að það sé undir lýðræðisyfirskini. En jafnvel þó að þessi stefna sé vísa áberandi, þá virðist engin þörf á að lögfesta hana í flýti, og engin ástaða að hrófla við æðsta dómi landsins.

Ég ætla þá sérstaklega að koma að þremur áberandi atriðum. Í fyrsta lagi, hvernig frv. er til komið utan þings og fram borið í þinginu. Eins og tekið hefir verið fram og kunnugt er af grg. frv., situr hér svokölluð lögfræðinganefnd, hvort sem hún nú hefir meðal almennings fengið nafn sitt af því, að allir þeir, sem eiga sæti í henni, eru lögfræðingar, eða af öðrum ástæðum, þá hefir hún sem sagt fengið nafnið lögfræðinganefnd. Þessi n. var skipuð til að koma fram með tillögur til gerbreytingar á réttarfarslöggjöf landsins. Hún hefir svo ekki komið fram með aðrar till. en frv. þetta, sem hér liggur fyrir, og á það hefir verið bent við þessar umr., að mönnum kemur það mjög á óvart, að n. sá það eitt vanta að breyta nokkrum ákvæðum um hæstaréttarlöggjöfina. Það má nú búast við, að n. ætli sér að sitja lon og don og taki sér til fyrirmyndar aðra nefnd, sem hér situr og er að peðra frá sér hinum ólíklegustu frumvörpum. En ef þessi hv. n. ætlar sér að koma með fleiri brtt., þá er ekki annað hægt að segja en að hún hafi byrjað á öfugum enda og komið nú fram með tillögur um breytingar á því, sem sízt var þörf á að breyta. Það gefur að skilja og orkar ekki tvímælis, að hæstaréttarlöggjöfin er það nýjasta og fullkomnasta, sem við höfum í okkar löggjöf, og því varasamt að hrófla við henni. Það getur heldur enginn sýnt fram á það með frambærilegum rökum, að á þessari löggjöf sé aðkallandi nauðsyn á breytingu. Það eru engin frambærileg rök, þó að pólitískir ofstækismenn krefjist þess að fá að hafa hönd í bagga með einstökum dómum. Enginn maður með fullri ábyrgðartilfinningu getur sýnt fram á aðkallandi þörf á að breyta hæstaréttarlöggjöfinni. Þessir hv. nefndarmenn hefðu átt að byrja á öðrum enda — byrja á því að laga það, sem meira fór aflaga. „Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er.“ Vitanlega hefðu þeir fyrst og fremst átt að koma með brtt. við almenna réttarfarslöggjöf. En með þessu er sýnt, hvert stefnir, og er í samræmi við það, sem ég hefi lýst hér áður. Það á að fara með lögum að fullkomna einræðisvald hinnar pólitísku ríkisstj. Ekki aðeins á öðrum sviðum, heldur á það líka að endurtaka sig hér, á þeim vettvangi, sem á að vera yfir það hafinn og á að geta tryggt rétt hinna einstöku borgara. Það er að nokkru leyti í samhengi við það, sem ég tala um. Það er nefnilega eins og þeir menn, sem helzt standa að málinu, jafnvel sjálfir flutningsmenn, og svo stjórnarflokksmenn og ríkisstj., álíti sér alveg óviðkomandi að hlusta á umr. um það eða taka þátt í þeim. nema í hæsta lagi einn og einn í viðlögum. Fyrst var það hv. þm. Barð., sem gafst upp á miðri leið. Síðan varð að taka við af honum hv. 1. landsk. og gerði það á þann veg, að menn gátu bara orðið hissa, en alls ekki öðruvísi. En sjálf ríkisstj. forðast að vera við, og það hæstv. dómsmrh. líka, sem málið snertir virkilega, því að það er m. a. frá hans rótum runnið.

Annars var það ljóst einmitt af ræðu hv. 1. landsk. í gær, hvernig málið er rekið í hv. deild og hvað bak við liggur. Það er látlaust malað um aukaatriði, en dregin fjöður yfir það, sem er undirrótin og aðalatriðið. Hann talaði langt mál um það, sem enginn er að rekast í og ekki hefir tekið nema hálftíma til klukkutíma verk að undirbúa, um það, að breyta fresti til ákveðinna athafna í dómnum, og hitt, hvernig orðalag samræmdist betur að fenginni reynslu. Eða þá það, sem hann gerði að stóru atriði, líkt og hv. þm. Barð., þetta mikla nýmæli, sem á að vera í hinni opinberu atkvgr. og sannleikanum samkv. er hreint ekki það, sem verið er að tala um. Þetta kalla þeir hið mesta nýmæli. Er það að finna í 13. gr., sem ég skal lesa. með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurlag dóms eða úrskurðar skal lesa upp í dómi í heyranda hljóði. Að því loknu skal þess getið, ef ágreiningur hefir verið um niðurstöðu, og lesa þá upp á sama hátt niðurlag ágreiningsatkvæðis.“

Og ennfremur segir, með leyfi hæstv. forseta: „Alla dóma hæstaréttar og úrskurði og öll ágreiningsatkvæði skal orðrétt birta jafnan í dómasafni hans, enda fylgi hverju bindi af því rækilegt efnisyfirlit.“

Þetta kalla þeir vera svo nýtt og stórmikils vert. Ég fullyrði, að það er svo frá þessu gengið, að það er alls ekki mikils virði og alls ekki í neinu verulegu atriði frábrugðið því, sem verið hefir, því að það hefir verið venja að gefa til kynna um ágreining um dómsniðurstöðu. Það er alls ekki svo, að þetta sé fyrir opnum dyrum. Það er bara tilkynnt um ágreining, sem þegar er orðinn. En opinber „votering“ er með allt öðrum hætti. Hún er þannig, að allir fá að heyra, hvernig ráðagerðir og rökstuðningur dóma er. Þetta gerðist á opinberum stað, og þess vegna væri öllum opið og ljóst, hvernig dómarar færu að kveða upp dóm, með hvaða ágreiningi og með hvaða rökstuðningi. hér er ekki um slíkt að tala. Þetta er í rauninni meir breyt. á orðalagi á því, sem hefir við gengizt, en nálgast ekki neitt að vera opinber atkvgr., enda síður en svo aðalatriði í þessu frv. Tilgangur þess segir til sín í ákvæðum 1. gr., og líka að nokkru leyti í 2. gr. Og loks er þriðja atriðið, sem segir til um markmiðið, og það er meðferð málsins hér í hv. deild. Það er eins og það sé eitt af þeim málum, sem fyrirfram er ákveðið um, hvaða úrlausn og afgreiðslu eigi að fá. En hér er alls ekki um kartöflur né kláða að tala. Hér er að tala um gerbreytingu á viðhorfi í æðstu réttarfarsmálum, gerbreytingu á því, hvernig fara beri með einstaklinga og aðra, sem leita úrskurðar dómstóla á landi hér. Og um 1. gr. verður það að takast fram alveg afdráttarlaust, að hún miðar mjög til að þjóna þeirri pólitísku einræðisstefnu, sem ég hefi vikið að. Minni hl. hv. allshn., hv. 8. landsk. og þm. Snæf., komu fram með brtt. á þskj. 185, sem fyrir þetta í lag, ef samþ. verður, og mætti þar ná framgangi það atriði, sem öllum skynbærum mönnum kemur saman um, að geti verið til bóta, en engum til skaða.

Nú er það kunnugt öllum, sem þekkja þessa löggjöf, að það er ekki svo sem ráðh. geti engu ráðið, hvort sem er um skipun hæstaréttardómara eða annað embætti, sem konungur skipar í. Ráðh. er það vitanlega, sem skipar dómara í hæstarétt, en vitanlega aðeins þá, sem hæstaréttarl. frá 1919 segja, að komi til greina. Það verður hver ráðh. að sætta sig við. Og ef fleiri menn eru, sem uppfylla skilyrði l., þá getur hann valið. Hann er sem sé ekki með öllu bundinn við það, sem hæstiréttur segir. Þá kemur og til greina hið svokallaða dómarapróf, sú raun, sem þeir verða að ganga undir, sem ætla sér að verða skipaðir dómarar í hæstarétt.

Nú hefir verið talað um það, m. a. af hæstv. dómsmrh., sem kom hingað eins og kría á stein á dögunum, að þetta próf hafi ekki verið notað. Af hverju? Af því að enn hefir það ekki komið til, að maður sækti í hæstarétt, nema sá, sem var búinn að standast strauminn, líka að vottorði hæstaréttar, nefnilega Einar Arnórsson. Það er þess vegna ekki hægt að afnema þetta atriði með því að slá svona orðum alveg út í loftið. Prófið er auðvitað til þess að nota það þegar þess þarf, en annars ekki. Þetta getur komið til greina í framtíðinni. Og það hefir væntanlega hæstv. ríkisstj. og hennar menn séð, að það hlaut að reka að því, að í dómstólinn kæmu nýir menn, og þá væri um að gera að tryggja, að hæstiréttur sjálfur hefði ekki mikil tók á að ráða, — m. o. o. engin —, því að eins og brtt. við frv. gerir ráð fyrir, á hann engin ráð um skipun fastra dómara í réttinn.

En svo er hitt, sem sýnir berast af öllu, hvert stefnir. Þeim þykir ekki nóg að ráða dómarana, ef dómarapróf verður fellt, heldur má dómari ekki forfallast einn dag, því þá kemur ráðh. óðar og skipar sinn mann, sem honum sýnist. Eins og það nái raunar nokkurri átt, þó að dómari forfallist einn dag, að dómstóllinn sjálfur, sem þannig er um búið, að engin hætta er á, að hann misnoti vald sitt, ráði ekki, hver kemur. Nú er það svo, að í slíkum tilfellum er það viss hópur manna, mjög þröngur, sem mönnum kemur saman um, að séu vel fallnir að grípa til. Það eru lagaprófessorarnir við háskólann. Og rétturinn á að ákveða, hver þeirra það sé, sem kemur. Þetta virðist svo einfalt, að ekki þyrfti um að bæta, ef aðeins væri réttaröryggið um að ræða. En hér er verið að blanda pólitískum ráðh. inn í, til þess að þjóna þessari pólitísku stefnu, sem á að innleiða.

Það er sagt í 1. gr., að ef dómari víkur sæti, þá velur dómsmrh. einhvern þann mann, sem komið getur til greina, til að taka sæti í dómnum. Í öðru lagi, að ef dómari forfallast eitthvað — þarf ekki að vera nema einn dag —, þá á dómsmrh. líka að fá vald til að skipa mann, ekki af þeim, sem lögkvaddir eru til þess, kennurum við háskólann, heldur af þeim hópi manna, sem nú verður stækkaður; og mætti þó telja að ýmsu leyti skaplega í sakir farið, ef eitthvert íhald væri þarna í, en ekki allt með gáleysi gert. Ég fullyrði enn, að þessi breyt. sé alls ekki af umhyggju fyrir réttaröryggi borin fram, og alls ekki fyrir umkvörtun frá neinum þeim, sem hlut eiga að máli og dómbærir eru í þessu efni. Þetta er því alveg út í loftið og mundi talið firra ein, ef menn vissu ekki um upphafið og ástæðuna.

Brtt. frá minni hl. allshn., sem ég gat um, ræður bót á þessu tvennu og líka því, sem 2. gr. ætlast til, að ákvarðað verði, sem sé að niður falli svokallað dómarapróf.

Hv. flytjendur þessa máls hafa vitnað í það, að dómsmrh. gæti ekki valið þessa menn nema að fengnum till. hæstaréttar. Það er rétt. En nú er á allra vitorði, — enda skýrt til fulls af hæstv. dómsmrh. — að það þýðir alls ekki, að það eigi að taka tillit til bendingar hæstaréttar undir vissum kringumstæðum. Upphaflega var ekki hægt að víkja frá till. réttarins, en síðan var þessu breytt og hefir svo haldizt, þar sem ríkisstj. og flokkar hafa viljað ná tökum yfir öllum stofnunum. Till. eru fengnar að nafninu til, en hafa verið — og væntanlega verða — oft að vettugi virtar. Og þetta, sem þeir vitna í um dómaralaunin, er sama „humbugið“, að leita umsagnar, sem þeir eru fyrirfram ráðnir í að binda sig ekki við frekar en verkast vill. Það getur náttúrlega vel verið, að samvizkusamir menn í ráðuneytinu taki tillit til umsagna réttarins, en við vitum vel, að það er langt frá, að í þessu felist nokkur trygging. Við vitum, að ráðherrar fara nú á tímum eftir sínu pólitíska höfði og því, sem þeir hyggja koma flokknum og einstaklingum hans vel, en ekki eftir því, þótt dómstóll gefi umsögn sína. Það gæti auðvitað af hendingu farið saman í einstökum tilfellum.

Fyrir þessa sök skal það endurtekið, að það er óhæfa að festa þetta í lög eins og það kemur frá hv. flm. og eins og það er undirbúið af þessari lögfræðinganefnd, þ. e. a. s. meiri hl. Það hefir komið í ljós síðar, að einn úr n., Einar Arnórsson, er á móti þessu atriði, sem hér hefir verið deilt á. Hann sér vitanlega vel, að það er verið að ofurselja dóminn í hendur þess valds, er sízt skyldi.