19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

75. mál, hæstiréttur

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær deilur, sem út af þessu máli hafa spunnizt og liggja að mestu fyrir utan það. Það er talað um embættaveitingar, dómara hæstaréttar og að menn séu látnir dæma þetta og hitt. Það er umræðuefni, sem ég ætla ekki að blanda mér í, fyrr en ég sé, að það gengur svo langt, að maður sé neyddur til að svara því einhverju. En viðvíkjandi embættaveitingunum vil ég geta þess, að það er ekki rétt að snúa sér til þeirra, sem um embættin hafa sótt og fengið þau, heldur til þeirra, sem hafa veitt þau, og þess vegna ætti hv. 8. landsk. að snúa sér til mín; það er velkomið, ef hann óskar eftir að ræða um slíkt við mig.

En viðvíkjandi því máli, sem hér liggur fyrir, þá vil ég taka það fram, að það atriði, sem vitanlega er mestur ágreiningur um, er það, hvort eigi að afnema dómaraprófið í hæstarétti eða eigi, og hvort dómararnir eigi sjálfir að segja til um það, hverjir eigi að taka sæti í hæstarétti, þ. e. að veitingavaldið sé í raun og veru í höndum réttarins. Þetta gildir í einu landi, Danmörku — hvergi annarsstaðar en þar og hér á Íslandi. — Þetta margumtalaða dómarapróf hefir aldrei verið notað í hæstarétti í þau 16 ár, sem hæstiréttur hefir starfað hér. (GÞ: Af hverju?). Vegna þess fyrst og fremst, að þeir, sem tóku sæti í réttinum í upphafi, gátu vitanlega ekki gengið undir próf hjá neinum. Síðan hefir verið fækkað í réttinum og þess vegna ekki komið til skipta. Sá dómari, sem seinast tók sæti í réttinum, þótti hafa dæmt svo marga dóma, að þess var ekki álitin þörf, að hann gengi undir dómarapróf. Nú álíta allir menn, sem fylgja dómaraprófinu, að rétturinn sé prýðilega skipaður eins og hann er, en þó hefir enginn þeirra, er sæti eiga í réttinum, tekið dómarapróf. Þetta er mjög einkennilegt ósamræmi, því að hv. þm. V.-Sk. hefir haldið því fram, að það væri nauðsynlegt að hafa dómarapróf, vegna þess að því fylgdi svo mikið öryggi. Þó hefir það sýnt sig, segir hann, að dóminn hefir verið hægt að skipa vel í þau 16 ár, sem hann hefir starfað, án þess að nokkurt dómarapróf hafi verið notað.

Það er náttúrlega hægt að staðhæfa, að það sé öryggi að prófinu, en það er ekki hægt að sanna það. Það er alltaf í sambandi við veitingu þessara dómaraembætta verið að tala um, að pólitík megi ekki komast inn í réttinn. Ég vil benda á í því sambandi, að þeir menn, sem eru hæfir til þess að taka sæti í hæstarétti og sitja þar sem dómarar, munu tvímælalaust, eins og hver maður í þessu landi, sem er meira en miðlungsmaður, hafa einhverja ákveðna pólitíska skoðun. Það er staðreynd, að þeir, sem lítið koma nálægt stjórnmálum, þeir, sem ekki sitja hér á þingi og tala við andstæðinga sína og finna á þeim ýmsar góðar hliðar sem mönnum, eru oft og tíðum manna æstastir í stjórnmálaskoðunum. Þess vegna verður valdið yfir hæstarétti aldrei dregið úr höndum þeirra manna, sem hafa pólitískar skoðanir. Það, sem andstæðingarnir vitanlega álíta að rétt sé, er, að í réttinum sitji menn, eins og nú er, sömu pólitískrar skoðunar og andstæðingar ríkisstj., — að haldið sé áfram á þeirri braut, sem nú er, og leggja ekki veitingavaldið í hendur dómsmrh., sem vitanlega skiptast á af ýmsum flokkum. Þá halda þeir, að veiting dómaraembættanna muni sveigjast eftir því, sem pólitísk skoðun viðkomandi dómsmrh. er. á hverjum tíma. Um þetta er í raun og veru deilt. En það er ómögulegt út af fyrir sig að segja, að dómaraprófið sé nokkurt öryggi í þessu sambandi.

En það hefir verið reynt að færa fram rök þessu viðvíkjandi, og þau eru, að undanfarið hefir það tíðkazt, að menn hafa orðið að taka próf til þess að mega flytja mál fyrir hæstarétti. En ég ætla að leyfa mér að staðhæfa, án þess þó að deila á neinn sérstakan hér í bænum, að sumir þeirra, sem tekið hafa próf sem málafærslumenn, eru ekkert betri málafærslumenn, nema síður sé, heldur en þeir, sem ekkert próf hafa tekið.

Ég hefði gaman af að spyrja hv. 8. landsk. um það, hvort hann viti til, að nokkur hafi fallið við þetta próf? Það er áreiðanlegt, að það hefir enginn fallið við þetta próf, svo að það er ekki nema kák.

Við skulum alveg sleppa að fara út í aukaatriði þessa máls. Deiluatriðið er, hvort eigi að hafa veitingavaldið viðvíkjandi dómurunum í hæstarétti, eins og það er alstaðar utan Danmerkur og Íslands, eða ekki. Deiluatriðið er það, hver eigi að hafa veitingavaldið um dómaraembættin við hæstarétt. Og ég get ekki séð, að fram hafi komið nokkur gild rök með því, að við eigum, fremur en aðrir, að halda þessu ákvæði um dómarapróf, sem auk þess hefir aldrei verið notað.