19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

75. mál, hæstiréttur

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr. um hóf fram.

Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af þeirri siðferðispredikun, sem hv. 8. landsk. fann ástæðu til að halda yfir mér. Hann sagði, að ég hefði farið hér með níðgrein (hefir víst meint níðræðu) um hæstaréttardómara. Ég neita þessum áburði. En ég álít, að þeir hefðu, sjálfra sín vegna og almenningsálitsins, átt að víkja úr dómi í þessu máli, þar sem vitað var, að þeir voru sérstakir vinir þess sakfellda. Hv. 8. landsk. hefði eflaust sjálfum fallið illa að verða að dæma í máli bekkjarbróður síns og sérstaks vinar. Ég sé ekki heldur annað en að ég hafi haft leyfi til að geta þess, að einn hinn göfugasti og bezt gefni maður, sem var í skóla með þessum manni, viðhafði þau orð, að hann væri sannfærður um það, af þekkingu sinni á þessum dómurum, að þeir myndu hvenær sem væri finna undanskot til að sýkna þennan sakborning. Get ég hvenær sem er sannað þetta.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið ósmekklegt af mér að minnast á Hafnarfjörð. Það getur verið, eftir þeim reglum, sem gilt hafa hér á landi um slík mál, þá hefði átt að veita hv. þm. V.-Sk. þetta embætti. En þessar reglur er nú margsinnis búið að þverbrjóta, og það hafa fleiri gert en Jónas Jónsson. Það er kunnugt, að fyrrv. dómsmrh. Magnús Guðmundsson lét það vera sitt síðasta embættisverk að veita eitt af stærstu bæjarfógetaembættum hér á landi ungum kandidat, enda var hann Heimdellingur. Vona ég, að fyrrv. dómsmrh. svari sjálfur, ef hann treystir sér til að réttlæta sig.

Hér í þingi er einn flokkur, sem hefði mátt ætla, að ekki réðist á mig með þeim svívirðingum, sem blað hans hefir borið mér á brýn. Þessar svívirðingar þeirra eru algerlega órökstuddar og ómaklegar í minn garð. Þessir menn mega þó vita, að framarlega í flokki þeirra eru ýmsir menn, sem sekari eru en ég um það, sem á mig var borið. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn. Ég gæti opinberað þau, ef ég yrði til þess neyddur. En þessi árás á mig er algerlega ómakleg, ef tillit er tekið til ýmsra flokksbræðra þeirra. Sjálfstæðismenn hafa farið með svipaðar ásakanir á mig. En það er eins og öllum öðrum megi líðast það, sem ráðizt er á mig fyrir. Það er ekki á það minnzt, þótt hv. þm. V.-Sk. og hv. 8. landsk. drekki, þótt allir viti, að þeir drekka meira áfengi en ég.

Við skulum ekki vera að ræða þessar reglur um embættaveitingar, sem allir vita, að búið er að þverbrjóta. Hver ráðh. hefir þær reglur, sem honum sýnist, um slíkar veitingar. Þeir hafa sýnt, að þeir vilja ekki virða neinar reglur í þeim efnum. Anciennitetið er horfið úr sögunni.

Ég skal ekki um það dæma, hvor okkar hv. þm. V.-Sk. er hæfari til að vera bæjarstjóri í Hafnarfirði. Ég er nú yngri maður og gæti e. t. v. af þeim ástæðum verið þróttmeiri til starfa. En það má vera, að hann sé bæði betur gefinn og hafi betri sögu að baki sér.

En því vil ég mótmæla, að ég hafi flutt níð um nokkurn mann hér. Það hefir verið ráðizt á mig, svo að það er því nær eins dæmi hér á landi. Ég viðurkenni ekki, að slíkar árásir á mig eigi meiri rétt á sér en það, þótt lítillega sé hnippt í hæstaréttardómara. Það er rétt, að það eru hinir síðustu dómarar, en því meiri ástæða er til að kritisera þá, ef tilefni er til þess gefið. Frá þeim getur stafað meiri hætta en öðrum dómendum.

Ástæðan til þess, að ég viðhafði þessi orð áðan, var sú, að hv. þm. V.-Sk. lét þau orð falla, að ég hefði verið látinn dæma dóm þann, er hann talaði um. Ég gæti auðvitað með sama rétti sagt um hann, að hann hefði verið látinn framkvæma ýms embættisverk, látinn skipta búum, dæma ákveðna dóma o. s. frv. En þetta segi ég ekki, og hann hefir ekki frekar rétt til að segja svona hluti um mig.

Ég er þess fullviss, að framtíðin mun dæma minn dóm og eins hæstaréttar í þessu máli, og ég er ekkert hræddur við þann dóm.