19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

75. mál, hæstiréttur

Thor Thors:

Hæstv. forsrh. vill gera lítið úr dómaraprófinu. Rökstyður hann andstöðu sína gegn prófinu með því, að það hafi ekki verið notað fram að þessu. Ég vil nú benda honum á, að rík ástæða var til þess, að prófið var ekki viðhaft. Í 51. gr. hæstaréttarl. er það beint tekið fram, að ekki þurfi að beita prófinu, af því að þá var völ á færustu dómurum landsins í réttinn, mönnum, sem starfað höfðu í landsyfirrétti, reyndum dómara utan af landi og prófessor í lögfræði.

Það hefir verið tekið fram af meðflm. mínum, að prófinu var í raun og veru beitt í fyrsta sinn sem l. heimiluðu, sem sé þegar Einar Arnórsson fékk sæti í réttinum. Hann hafði þá slæmt í svo mörgum málum, sem varadómari, að hann þótti hafa fullnægt skilyrðunum.

Hæstv. forsrh. virtist leggja kapp á, að dómarar í hæstarétti væru pólitískir og þótti mér ánægjulegt að heyra þá játningu. Ég þekki að vísu engin l. hér á landi, er banni mönnum að hafa pólitíska skoðun, og hæstaréttardómarar mega auðvitað hafa sína skoðun sem aðrir. En þeir mega ekki taka virkan þátt í stjórnmálabaráttunni. Þetta var lögfest með því að þeir einir allra embættismanna voru sviptir kjörgengi. Það þótti fara illa á því, að menn gengju beint af vettvangi hinnar pólitísku baráttu upp í dómarasætið.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta ákvæði væri hvergi í gildi nema á Íslandi og í Danmörku. Ég skal ekki fullyrða neitt um það. En ég tel meiri ástæðu til þess að það gildi hér en annarsstaðar, vegna þess, hve mjög stjórnmálabaráttan fer hér fram í návígi.

Þá fannst mér það harla einkennilegt, sem hæstv. ráðh. var að rugla um það, hvernig dómarar tækju sæti í réttinum, er þeir gengju undir próf, og tel ég óþarft að mótmæla þessum staðhæfingum hans frekar en þegar hefir verið gert.