22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

75. mál, hæstiréttur

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 11. landsk. taldi það ekki röksemd hjá mér gegn því að afnema skilyrðið um 1. einkunn, að hæstaréttarmálaflutningsmenn myndu þá verða fleiri en góðu hófi gegndi. Ég þekki sjálfur marga menn, sem myndu reyna að ná prófinu og komast í hóp þeirra manna, sem rétt hafa til að starfa sem hæstaréttarmálaflutningsmenn.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki ætlun hans og meðflm. hans að fjölga málaflutningsmönnum við hæstarétt um hóf fram, heldur að setja önnur skilyrði fyrir starfsréttinum. Skilyrðin eru nú þau, að þeir eiga að hafa gegnt lögfræðilegum störfum í sex ár í stað tveggja. Að öðru leyti eru skilyrðin þau sömu og verið hafa. En þegar á það er litið, að varla er nokkur málaflutningsmaður við hæstarétt, sem ekki hefir starfað meira en sex ár, þá verður þetta skilyrði þýðingarlítið.

Það, sem skilur okkur, er ekki það, að í mér sé meiri prófgorgeir en í honum. Ég lít ekki niður á 2. einkunnar menn fremur en hann. En þessum skilyrðum hv. þm. er einungis beint gegn 2. einkunnar mönnum. Það eru aðeins þeir, sem eiga að koma undir þetta strangara skilyrði. En fyrir mér er þetta ekkert aðalatriði. Það eiga ekki eingöngu að vera þeir lögfræðingar, sem fengið hafa 2. einkunn, sem sett eru sérstaklega ströng skilyrði fyrir að öðlast þennan rétt. Fyrir mér er það aukaatriði, hvort maðurinn hefir fengið 1. eða 2. einkunn. Þeir, sem fá 2. einkunn, geta orðið eins góðir eða betri lögfræðingar. Fyrir mér er aðalatriðið það, að þeir þurfi að ganga í gegnum einhvern þann hreinsunareld, er sýni að þeir skari fram úr. Ég tel, að reisa þurfi skorður við því, að þessi stétt, sem jafnmikill vandi hvílir á, verði allt of fjölmenn, og því sé réttmætt, að ganga þurfi undir einhverja þraut til þess að öðlast réttindi til að flytja mál fyrir hæstarétti.

Mig furðar á því, að hv.. 2. landsk. skyldi vera að tala um prófraun. Hvernig stendur á því, að úr öllum þeim hópi, sem gengið hefir undir hæstaréttarmálflutningsmannapróf, hefir enginn fallið, enda þótt þeir hafi ekki verið álitnir nema miðlungsmenn? Það er vegna þess, að dómurinn hefir ekki gengið inn á þá braut. Eða heldur hv. 11. landsk., að það yrði frekar gert, ef aðeins 2. eink. menn ættu hlut að máli?

Það eru tvo atriði, sem okkur greinir hér á um. Hv. 11. landsk. virðist líta meira á 2. eink. en prófin, og vill gera aðstöðumuninn enn meiri og verri fyrir 2 eink. menn. En ég vil láta það gilda jafnt fyrir alla lögfræðinga, hvað sem einkunnum líður, að þeir komist ekki að starfinu nema þeir hafi sýnt, að þeir séu hæfari en fjöldinn. Það gæti svo farið, ef kippt væri burt öðrum skilyrðum en prófraun, að menn eins og Árni frá Höfðahólum eða Pétur Jakobsson fengju dómarapróf. Ef þeir leystu sæmilega úr því verkefni, sem fyrir þá væri lagt, gæti vel farið svo, að dómarar þyrðu ekki annað en veita þeim réttindi eftir þeirri frammistöðu. En það er ekki aðalatriði, hvernig menn leysa þannig einstaka prófraun, heldur hvernig þeir hafa yfirleitt leyst af hendi þau trúnaðarstörf, sem þeim hafa verið falin.

Ég vil gjarnan taka höndum saman við hv. 11. landsk. um að þrengja þessi skilyrði svo, að það sé ekki bara leikur fyrir hvern sem er að fullnægja þeim. Fyrir mér er aðalatriði, hvernig hægt sé að skapa reglulega duglega og hæfa málflutningsmannastétt, eftir því, sem okkar litla þjóðfélag hefir völ á, á hverjum tíma.

Hv. þm. álasaði mér fyrir að vilja ekki ganga inn á þá líkingu, sem hann gerði milli presta og málflutningsmanna, en þar er svo ólíku saman að jafna, að ekki er hægt að bera það saman. Að ganga undir próf færustu manna stéttarinnar, eða að ganga undir próf almennra kosninga, þar sem jafnvel er hægt að flytja ræður, sem aðrir hafa samið. Ef hv. þm. vill ganga inn á mína skoðun um, að rétt sé að takmarka fjölgun hæstaréttarmálflutningsmanna og leggja áherzlu á, að í þá stétt veljist vel hæfir menn, þá er einnig bezt fyrir hann að fallast á, að heppilegast sé að láta alla ganga gegnum sama hreinsunareldinn.

Um persónulega hagsmuni þurfum við ekki að tala, því það er vonandi, að þm. láti þá hvergi koma til greina. Og í þessu atriði snertir það mig ekki, því bæði mun ég ekki fara að spreyta mig á hæstaréttarmálflutningsmannsprófi, og hefi enda til þess öll réttindi, en ég vil aðeins benda hv. þm. á, að það gæti fremur komið honum í koll.

Annars er þýðingarlaust fyrir okkur að þræta um þá hluti, því það mun hvorugum okkar 11. landsk. fært að rannsaka hjörtun og nýrun.