30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst meðferð þessa máls allkynleg, því að eins og kunnugt er, var því vísað til allshn., en n. hefir ekki komið með neitt nál., og samt er það tekið á dagskrá. Ég get ekki skilið 18. gr. þingskapa öðruvísi en þannig, að nefndir eigi að láta uppi álit um mál, sem til þeirra er vísað. Þar stendur, að n. láti uppi álit sitt um málið, það skuli prentað og því skuli útbýtt til þm. Þetta hefir ekki átt sér stað hér. Hinsvegar býst ég við, að heimilt sé að veita afbrigði frá þingsköpum um þetta ákvæði, eins og yfirleitt flest ákvæði þingskapa, en mér skilst það ekki vera hægt. a. m. k. ekki eins og málið liggur nú fyrir, þar sem nál. er ókomið, að taka málið fyrir nema fyrst fáist undanþága um þetta. Ég vildi gjarnan óska eftir úrskurði hæstv. forseta um þetta atriði. Ég hygg, að 2. málsgr. 18. gr. þingskapanna eigi hér við.