30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

75. mál, hæstiréttur

Ingvar Pálmason:

Það er rétt hjá hæstv. forseta, að hann spurði mig og meiri hl. n. líka, að ég hygg, hvort n. væri viðbúin því, að þetta mál yrði tekið á dagskrá. Ég svaraði, að n. væri það, þótt hún væri ekki búin að skila nál. Ég vil aðeins geta þessa til þess að sýna fram á, að ummæli hæstv. forseta voru rétt að þessu leyti.

Þetta frv. er eins og hv. þdm. er kunnugt um, samið af milliþn., sem starfaði að athugun á réttarfarslöggjöfinni. Ég þarf ekki að nafngreina þessa nm., því að ég býst við, að öllum hv. þdm. sé kunnugt um þá. Frv. er flutt af tveimur nm., sem sæti eiga í hv. Nd., eins og mönnum er að sjálfsögðu kunnugt um. Frv. gerir ráð fyrir breyt. á l. um hæstarétt frá 1919, sem mér skilst aðallega vera tvennskonar. Fyrri breyt. er um skilyrðið til þess, að menn geti verið skipaðir í dóma og um fyrirkomulag á skipun dómsins. Að vísu hefir bætzt brtt. inn í frv. úr hv. Nd., þess efnis, að hæstiréttur skuli skipaður 5 dómurum. Seinni aðalbreyt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir á hæstaréttarlögunum, er sú, að dómsatkvæði hæstaréttardómara skuli gert kunnugt, einnig þegar ágreiningur verður í dómnum, og þá skuli færð rök fyrir atkvgr. Nokkrar fleiri breyt. er gerðar á lögunum, en ég tel ástæðulaust að minnast á þær sérstaklega. Þó vil ég benda á það, að allar breyt., sem í þessu frv. felast á l. um hæstarétt, hafa verið til meðferðar hér á hv. þingi áður í tveim frv.formum, frv. um fimmtardóm og frv. um æðsta dóm, enda er til þess vísað í grg., sem fylgir frá hv. flm., og þar er skýring á þeim breyt., sem frv. fer fram á, að verði gerðar.

Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar og haldið um það tvo fundi. Á þeim fyrri, sem var aukafundur, en þó boðaður öllum nm., mættu aðeins þrír af nm. Var frv. þá athugað og borið saman við hæstaréttarlögin og ákvað meiri hl. n., sem mættur var á fundinum, að bera sig saman við lögfræðinga, fyrst og fremst hv. flm. málsins, og ennfremur, til frekari tryggingar, við aðra lögfræðinga, sem eru málinu óháðir. Allir þeir, sem eru í meiri hl. n., eru ólögfróðir menn. Þess vegna þótti þeim rétt að leita upplýsinga og aðstoðar lögfræðinga um ýms atriði málsins. Að þeim upplýsingum fengnum, bæði frá hv. flm. frv. og frá tveimur lögfræðingum, sem eru málinu óháðir, komst meiri hl. n. að þeirri niðurstöðu, að fylgja frv. óbreyttu eins og það liggur fyrir. Síðan var annar fundur haldinn, og þá var öll n. mætt. Þá kom það strax í ljós, að n. var ekki öll sammála um málið, og sá lögfræðingur, sem á sæti í allshn., hv. 1. þm. Skagf., taldi verulega formgalla vera á frv., en það var einmitt um þá hlið málsins, formshliðina, sem meiri hl. n. hafði leitað sér upplýsinga hjá þessum lögfræðingum, sem ég nefndi áðan.

Um efnisbreyt. á frv. var ekki rætt í n., en niðurstaðan varð sú, að n. gat ekki orðið sammála. Hv. 1. þm. Skagf. og hv. 10. landsk. töldu báðir, að á frv. væru formgallar og ekki hægt að láta það ganga fram óbreytt. Það má vel vera, að einhverjar efnisbreyt. hafi þeim líka þótt ástæða til að gera, en ekki kom það samt fram í n. Nú liggja hér fyrir brtt. frá hv. 1. þm. Skagf. Ég ætla samt ekkert að ræða um þær að neinu leyti, því að eftir því sem orð hans fellu áðan, þá veit ég ekki, hvort hann ætlast til þess, að umr. fari fram um þær nú. En ég vildi lýsa yfir því fyrir hönd meiri hl. allshn., að hann leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og hefir sannfærzt um það, að þeir formgallar, sem hv. 1. þm. Skagf. telur vera á frv., eru ekki þess eðlis, að ástæða sé til þess að leggjast á móti frv. þeirra vegna. Og eins og málið liggur nú fyrir sé ég enga ástæðu til þess að lengja þessa umr., nema ef tilefni kynni að gefast til þess út af brtt. hv. þm. Skagf.