30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

75. mál, hæstiréttur

Ingvar Pálmason:

Ég tel rétt að svara hv. 1. þm. Skagf. nokkrum orðum, þó að í raun og veru gæfi ræða hans ekki tilefni til andsvara. vegna þess, sem hann lét skína í það, að við stjórnarstuðningsmenn vildum ekki mikið um þetta mál segja, vil ég taka það fram, að ég vil um það segja allt það, sem ég hefi um málið að segja.

Það fór eins og mig grunaði um eðli athugasemdanna, að þær lytu að formsatriðum. Það var eðlilegt, eftir því sem fram kom í n. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að meiri hl. n. hefði kannazt við það á fundi, að nokkrir formgallar væru á frumvarpinu. Þetta er ekki rétt. Það eina, sem ég kannaðist við, var það, að álitamál væri, hvort ekki væri rétt að taka lögin upp að nýju og flytja frv. til l. um hæstarétt, en ekki frv. til l. um breyt á l. um hæstarétt. Hitt gekk ég ekki inn á, að formgallar væru á frv.

Það, sem hann fyrst reyndi að sýna fram á, var það, að í frv. væru ákvæði, sem ekki væri hægt að fella inn í meginmál laganna eins og þau væru nú, og nefndi hann sem dæmi núv. 15. gr. og sagði, að af því að 13. gr. væri skipt í tvær greinar gæti þetta ekki passað. Nú er 15. gr. breyt. á 47. gr. laganna eins og þau eru nú og verður því látin falla þar inn og greinartalan breytist eftir því. Hitt er ekki fremur formgalli, sem hann nefndi, að 14. gr. væri nú búið að kljúfa frá 11. gr. í frv. eins og það var lagt fyrir Nd. og væri nú hvergi vísað inn. En bæði leiðir það af sjálfu sér og áframhald á 13. gr. sýnir, hvar þetta á að koma inn. Svo þetta er enginn formgalli.

Hv. 1. þm. Skagf. sagðist ekki kunna við það ákvæði í lögum, sem gefin væru út árið 1935, að dómsvald Dana væri afnumið og stofnaður hér hæstiréttur. Fyrst ber að líta á, hvernig þetta ber að. Þetta ber svo að, að Alþ. samþ. breyt. á l. frá 1919 um hæstarétt, og auðvitað ber það svo að, að fyrst verða staðfest l. um breyt. á l. frá 1919 og svo verða lögin frá 1919 gefin út með þeim breytingum. Þó að lögunum sé breytt 1935, ber fyrst að staðfesta breytingarnar og svo eru þær færðar inn í lögin, og lögin þannig gefin út sem lög frá 6. okt. 1919 um hæstarétt. Þess vegna er það ekkert álappalegt, eins og hv. l. þm. Skagf. komst að orði, þó þau lög mæli svo fyrir, að dómsvald Dana sé hér afnumið og hæstiréttur settur á stofn. Ef þetta frv. verður samþ. og staðfest af konungi sem 1., gerir það ekki annað en breyta vissri gr. í l. frá 1919, en aðalefni l. stendur óbreytt. Hitt skal ég kannast við og var rætt í n., að það getur verið álitamál, hvort ekki er eins heppilegt að semja l. frá 1919 alveg upp að nýju og fella úr gildi l. frá 1921 og 1924. En það eru ýms fordæmi fyrir því, að svona hefir verið farið að, að samþ. lagabreyt., sem felldar eru inn í aðallögin og þau svo gefin út í heild sem l. frá þeim tíma, er heildarlögin voru staðfest. N. hafði fyrir sér ummæli glöggra lögfræðinga, sem töldu enga formgalla á frv., eða a. m. k. ekki áberandi. Ég verð því að telja þau ummæli hv. þm. alveg óréttmæt. Ég vil líka minna hann á, að í Nd. fjölluðu um málið margir lögfræðingar, þar á meðal ýmsir flokksbræður hv. 1. þm. Skagf. Fluttu þeir að vísu brtt. við frv., en ekki um formgalla. Og hvað sem um álit okkar þessara ólögfróðu manna er að segja, eru a. m. k. ekki allir lögfræðingar sammála hv. 1. þm. Skagf. um, að formgallar séu á frv. Ég vil líka benda á, að próf Einar Arnórsson var með við samningu frv., og þó ekki væri sérstaklega minnzt á þetta atriði býst ég ekki við, að neinn þurfi að væna próf. um að kasta svo höndunum að sínum störfum, að hann léti frá sér frv. með þeim formgöllum, að ekki væri fært fyrir Alþingi að samþ. Ég held því, að formgallar geti ekki orðið því til fyrirstöðu, að frv. nái fram að ganga.

Þá kom hv. 1. þm. Skagf. að efni frv. Það er allt annað mál, þó menn hafi skiptar skoðanir um það. Það fyrsta, sem hann nefndi, var, að hann taldi óheppilegt að fella niður dómaraprófið. Það er nú erfitt fyrir mig að tala um þetta frá lögfræðilegu sjónarmiði. En með dómgreind ólögfróðs manns virðist mér þetta ákvæði ekki að neinu leyti óeðlilegt. Ég vildi spyrjast fyrir um, hvað þetta ákvæði, sem búið er að gilda í 15 ár, hefir oft verið notað, fyrst það er þessi gimsteinn, sem ekki má sleppa. Var það notað í því eina tilfelli, sem dómaraskipti hafa orðið? Ég spyr, því ég hefi ekki heyrt þess getið. Nokkur ágreiningur varð milli n. og próf. E. A. um þetta atriði.

Þá kem ég að því, að hv. þm. taldi ástæðu til þess að leggja fyrir mig spurningar. Ég skil vel, að hann hafi hug á að sýna yfirburði málaflutningsmannsins fram yfir leikmanninn, sem aldrei hefir við þessi mál fengizt og aldrei mætt fyrir sáttanefnd, og því síður í rétti nema einusinni sem vitni. En þetta hefði þm. átt að geta gert lýðnum ljóst án þess að þurfa að leggja fyrir mig lögfræðilegar spurningar. En þó sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu, að ég frá mínu leikmannssjónarmiði svari því, hvernig ég skil gr. frv., en það er gefin sök, að ég fer ekki út í skæklatog um lögfræðilegar skýringar. Út í það dettur mér ekki í hug að fara. Hv. þm. spurði hvernig færi, ef það yrði gert gildandi, að 5 menn fengju sæti í dóminum, og fé yrði jafnframt veitt til þess í fjárl., en svo vildi fjárveitingavaldið kippa aftur að sér hendinni og veitti ekki féð. Ég get sagt það, að ég lít þannig á þetta mínum leikmannsaugum, að þegar þetta hefir einu sinni átt sér stað, að skipað hefir verið í embættin og launagreiðslur til þeirra tekin upp í fjárl., þá sé ekki hægt að breyta því nema með nýrri lagasetningu. Svona skil ég þetta, en hvort hv. 1. þm. Skagf. skilur það öðruvísi, get ég ekki sagt um. Ef litið er á þetta frá heilbrigðu leikmannssjónarmiði, en án alls skæklatogs, virðist mér þetta auðskilið.

Þá var sami hv. þm. að tala um, að sér fyndist það ekki viðfeldin ráðstöfun, að það skyldi vera dómsmrh., sem hefði skipunarvald í dóminn, án þess að það væri borið undir þá dómendur, sem fyrir eru. Minntist hann sérstaklega á, að ef dómari forfallaðist, þá gæti svo farið, að af hlytist töf á afgreiðslu mála, ef svo væri um búið. Því komið gæti fyrir, að dómari forfallaðist á næturfresti, en búið væri að ákveða fyrirtöku máls. Þá gæti svo farið, ef leita þyrfti ráðh. um skipun dómara, að ekki næðist til hans í tæka tíð. Það kann að vera, að þetta geti komið að sök meðan dómarar eru ekki nema 3, en þó mun þetta undir flestum kringumstæðum ekki koma að sök. því oftast mun dómsmrh. vera í Rvík, eða a. m. k. annar ráðh. settur í hans stað. Hygg ég því, að meira sé gert úr þessu af hv. þm. en ástæða er til, en þó vil ég ekki fortaka, að þetta geti komið fyrir. En þetta er svo lítilfjörleg ástæða, að tæplega er þörf á að breyta frv. þess vegna, því það er skýrt, að eftir að dómendur eru orðnir 5 getur þetta ekki komið að sök.

Hv. þm. sagði, að dómstólar hér á landi hefðu sérstöðu að því leyti, að þeir væru óháðir umboðsvaldinu. Ég er ekki fróður um þessi mál, en ég held að þetta nái ekki nema til hæstaréttar. Ég held, að dómarar undirrétta séu skipaðir af dómsmrh., og geta þeir því ekki talizt óháðir umboðsvaldinu. Ég vil segja almennt talað, að smærri borgarar eigi ekki minna undir héraðsdómurum en yfirréttar, því flest þeirra mál lúkast í héraði. Það er ekki hlaupið með mál til hæstaréttar fyrir okkur smámennina, og því oftast látið sitja við dóm héraðanna.

Ég hefi þá gert hv. 1. þm. Skagf. úrlausn bæði á þann hátt, að ég hefi sýnt, að við stuðningsmenn stj. erum ekki hræddir við að halda uppi og verja okkar málstað og munum því ekki flýja af hólmi eins og hv. þm. var að gefa í skyn. Í öðru lagi hefi ég nokkuð rökrætt þau atriði, sem ágreiningur hefir verið um.

Að því er formshliðina snertir sé ég ekki betur með minni leikmannsþekkingu en að mín rök standist fyllilega, að hér sé ekki um neitt formsbrot að ræða og því sé óhætt að láta frv. ganga fram þess vegna.

Mér nægir að vitna um þetta til ummæla hv. þm., hann kvað ekki fastara að orði en svo, að sér felli ekki, að l. byrjuðu svona, og að orðalagið yrði álappalegt, þegar búið væri að fella þetta inn í lögin.

Ég ætla svo að láta þetta nægja í bili. Þó ég vilji í fullri vinsemd tala við hv. 1. þm. Skagf., skal ég ekki gefa tilefni til málþófs eða langra umr. Við höfum nú báðir flutt fram okkar rök, og er honum vitanlega heimilt að gagnrýna mín rok.