30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Guðmundsson:

Það er vitanlega ekki til neins að þræta um þessi formsatriði. Ég mun samt fara dálítið nánar út í þetta atriði við 3. umr. málsins. En ég vil aðeins benda á það nú, að þegar búið er að samþ. þetta frv. og konungur hefir undirskrifað lögin, þá stendur það í 1 7. gr. þeirra, að í hinum nýju samsteypulögum skuli ein ákveðin gr. verða 49. gr. þetta er ekki hægt að gera, nema hafa 2 gr., sem eru 49. gr., og sjá allir, að það nær engri átt. Sá, sem setur saman lögin, getur alls ekki uppfyllt það, sem í frv. segir. Það er því tvímælalaus formgalli á frv., og þykir mér undarlegt, að ekki skuli fást leiðrétting á þessum galla.

Þá vil ég víkja fáeinum orðum að hæstv. dómsmrh. Hann sagði, að mér hlyti að vera kunnugt um það, að hvergi nema í Danmörku og hér væri látið fara fram dómarapróf, heldur væri rétturinn spurður um, hvort hann samþ. þann dómara, sem um er spurt. Þetta er að sönnu svo, en fyrst og fremst þarf þetta ekki að vera skaðlegt ákvæði, þótt það gildi aðeins hér og í Danmörku, og í öðru lagi, og það er aðalatriðið, er jafnan farið eftir tillögum réttarins í öðrum löndum, að því er ég bezt veit. Reglurnar annarsstaðar eru því í reyndinni eins og hér. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann álíti það sama fólgið í þessu „að fengnum tillögum“ eins og í þeim rétti, sem hæstiréttur hefir nú í þessu efni. Ef það er ekki, þá er verið að rýra vald hæstaréttar. Það er ekki hægt að hafa nema eina skoðun á því atriði. En þó þessu sé öðruvísi hagað annarsstaðar, þá er það engin sönnun fyrir því, að sama fyrirkomulag blessist betur hjá okkur en það, sem verið hefir. hér er kunningsskapur milli manna miklu meiri en tíðkast í öðrum löndum, vegna mannfjölda, og þar er farið miklu meira eftir embættisaldri við embættaveitingar en hér er gert. Í því sambandi væri hægt að nefna dæmi, sem skeði nýlega. Af þessu sem nú var sagt, sest, að það er rétt, sem ég sagði, að með þessu, sem hér um ræðir, er verið að gera réttinn ósjálfstæðari en hann nú er. Viðvíkjandi því, hvort undirdómararnir eru háðir umboðsvaldinu, vil ég taka það fram, að þeir eru það vitanlega, því að umboðsvaldið getur svipt þá embætti hvenær sem er. Það er meira að segja mikið vafamál, hvort umboðsvaldið getur það ekki, enda þótt þeir standi vel í sinni stöðu. Ég get vel ímyndað mér, að það sé ekki fjarri sanni, að það fari mjög mikið eftir því, hver er ráðh. á hverjum tíma, hvort undirdómararnir eru háðir umboðsvaldinu eða ekki. Ég get ekki skilið, hvers vegna hæstv. stj. og hennar flokkur vilja þessar breyt. endilega. Hvað á að nást með þeim? Er það nokkuð annað en að auka vald pólitísks ráðh. á kostnað réttarins?

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þótt menn séu dómarar, þá hafa þeir einhverja skoðun í þjóðmálum, en þetta er ekki aðalatriði, heldur hitt, að dómarar réttarins eru að velja sér starfsbróður, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að þeir fái a. m. k. að hafa hönd í bagga með veitingu embættisins. Ég get ekki séð, að ráðh. sé á neinn hátt hafður útundan með því að honum sé gert jafnhátt undir höfði. Það þarf ekki heldur neinn að segja mér, þrátt fyrir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það geti komið fyrir, að rétturinn finni upp á því að veita hverjum manni, sem til greina getur komið, bara til þess að móðga og fjandskapast við ráðh. Einmitt í því að það eru tveir aðilar, sem þurfa að vera sammála um það, hverjir skuli teljast hæfir til þess að fara í réttinn, felst trygging fyrir því að hæfir menn verði dómarar, en pólitískur ráðh. getur, ef hann ræður einn, komið að manni, sem ekki er hæfur dómari. Segjum nú, að rétturinn vilji þetta líka, þó ég haldi, að þetta geti ekki komið fyrir, vegna þess að rétturinn er að velja sér samstarfsmann, en ef ráðh. hefir samt grun um þetta, eða veit það, þá getur hann neitað því, að veita honum embættið. Hæstv. ráðh. sagði, að rétturinn hefði í byrjun verið skipaður af pólitískum ráðh. Þetta er vitanlega rétt, því að öðruvísi gat það ómögulega verið í byrjun. En þetta sannar vitanlega ekki, að óheppilegt sé að hafa þetta fyrirkomulag, sem nú er, í framtíðinni. (Forsrh.: Reyndist þetta ekki vel?). Jú, en það sannar ekki, að öllum ráðherrum takist eins vel skipun í dóminn.

Þá minntist hæstv. ráðh. einnig á það, að dómarar, sem yrðu að fara frá fyrir aldurs sakir, ættu að dæma um, hverjir yrðu eftirmenn þeirra, og hann vildi láta skína í það, að dómarar, sem væru 65—70 ára gamlir, væru orðnir svo skyni skroppnir, að þeir væru ekki lengur færir um að ákveða, hverjir skyldu taka sæti í dóminum á eftir þeim. Ef þessum dómurum er treyst til þess að hafa dómsstörf á hendi allt fram til þess tíma, að þeir fara frá embætti, þá verð ég að telja, að þeim sé líka trúandi til þess að velja eftirmann sinn. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að víða annarsstaðar er ekkert takmark fyrir því, hvað gamlir dómarar megi verða við hæstaréttardómstóla. Í því tilfelli vill hæstv. ráðh. ekki fara eftir því, sem tíðkast erlendis. Erlendis hafa menn verið dómarar fram að áttræðu og jafnvel lengur. Þess vegna þýðir ekkert að halda því fram, að bara af því, að maður sé 65 ára gamall, þá sé hann orðinn svo sljór og hrumur, að hann geti ekki sagt til um það, hvort einhver maður, sem á að koma í réttinn, sé til þess hæfur eða ekki.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að svo gæti farið tímunum saman, að enginn nýr dómari yrði skipaður í réttinn. Það er kannske hugsanlegt, en það er engin ástæða til þess að ætla það, en ef það kæmi samt fyrir, þá er enginn hætta á ferðum, því að það er lögákveðið, hver á að vera í réttinum á meðan. Ég sé enga ástæðu til þess að halda, að rétturinn hafi tilhneigingu til þess að setja sig upp á móti dómaraefni, ef á annað borð er um hæfan starfsmann að ræða.

Það eru fleiri atriði í frv., sem ég hefði þurft að gagnrýna og ég er óánægður með, en ég ætla ekki að fara út í þau nú. Ég mun minnast nánar á ýms atriði frv. við 3. umr. málsins, þegar brtt. mínar koma til meðferðar.

Hv. 2. þm. S.-M. þarf ég engu að svara, því að það kom ekkert nýtt fram í síðustu ræðu hans.