01.04.1935
Efri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Guðmundsson:

Ég vil segja hér nokkur orð út af brtt. á þskj. 314, sem frestað var að taka afstöðu til við 3. umr. Býst ég þó ekki við, að það hafi mikla þýðingu, þar sem meiri hl. n. hefir lýst yfir því, að stjórnarflokkarnir séu einráðnir í að láta frv. ganga fram óbreytt.

1. brtt. er á þá leið, að felld skuli niður ákvæði 1. gr. frv. um það, að stofnaður skuli hæstiréttur og dómsvald hæstaréttar í Danmörku falli niður. Þetta á ekki lengur við og er sjálfsagt komið inn í frv. af vangá.

Í 2. gr. frv. stendur ennfremur, að landsyfirréttur skuli afnuminn. Þetta er auðvitað óþarft, þar sem landsyfirréttur var afnuminn fyrir 15 árum síðan. Þess vegna er hjákátlegt að taka slík ákvæði upp í l., sem gefin eru út 1935.

Þá er 3. gr. þessa kafla, sem ég legg til, að falli niður. Hún er um svonefndan synodalrétt. Ég tel fara betur á að flytja þá gr. aftar í þessi l. Það á ekki við, að hún sé hin raunverulega 1. gr. um hæstarétt. Þessi réttur er nokkurskonar geistlegur réttur, sem eins og kunnugt er er skipaður 3 mönnum, 3 hæstaréttardómurum og 2 guðfræðingum, sem rétturinn kallar til. Þessi gr. þarf að sönnu að vera í l., en hún á ekki við sem fyrsta efnisgr., og þess vegna sting ég upp á með 14. brtt. minni, að þessi gr. komi næst á undan niðurlagsákvæðum l. eins og þau koma til að verða, þegar þau eru gefin út, að samþ. þessu frv.

Þá kem ég að 2. brtt. sem er við 1. gr. þessa frv. um hæstarétt. Ég hefi ekki séð mér fært að leggja til, að það verði 5 dómarar, heldur 3, eins og nú er og eins og verður fyrst um sinn, þó frv. verði samþ. óbreytt. Og það er þá alltaf hægurinn hjá hvenær sem er að fjölga dómurunum. Ég skal taka það fram, að ég er því í rauninni fylgjandi, að dómurunum verði fjölgað, en ég álít, að á tímum eins og nú verði slíkt að bíða. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að reyndin verði sú, að þessi viðbót bíður jafnvel þó frv. verði samþ. óbreytt, eins og telja má nokkurn veginn víst.

3. brtt. mín er við 2. gr. frv. og gengur út á það að taka upp í þessa gr. aðalinnihald 1. frá 1914 um að kennarar lagadeildar komi í réttinn eftir hlutkesti dómaranna, þegar þeir forfallast eða víkja sæti. Ég vek dálítið að því við 2. umr. þessa máls, að þau ákvæði, sem eru í 2. gr. frv. eins og það nú liggur fyrir á þskj. 257, væru að mínu viti ákaflega óhentug. Þar er svo fyrir mælt, að þegar dómari forfallast eða víkur sæti, þá skuli dómsmrh. tilnefna dómara, 1, 2 eða 3, eftir því sem þörf krefur. Nú er það svo með dómsmrh., að enginn maður á landinn höfðar eins mörg eða áfrýjar eins mörgum málum eins og einmitt hann. Það er þess vegna ekki útilokað, að hann af ýmsum ástæðum, og meira að segja af pólitískum ástæðum sé „interesseraður“ í því, hverjir eigi að dæma í ýmsum af þeim málum. Það er því augljóst, að þó leitað væri með logandi ljósi um allt þetta land eftir manni, sem væri óheppilegri til þess að gera þetta, þá væri ekki unnt að finna hann. Hér er sem sagt verið að gera leik að því að gera tortryggilegt þetta vald dómsmrh. Það má líka bæta því við, að ríkisstj. á sjálf oft í málum, og það er ekki viðkunnanlegt og ekki mikið öryggi í því fólgið, að það sé einmitt aðili málsins, sem á að tilnefna 1—2 eða jafnvel 3 dómara, m. ö. o., að það getur hæglega farið svo, að sá maður, sem er beinlínis f. h. ríkisstj. aðili í máli, eigi að velja alla dómarana. Þetta er með öllu óhæfilegt, og mér er óskiljanlegt, að þetta skuli hafa getað náð samþykki meiri hl. þingsins. Og ég er sannfærður um, að þó að þetta verði keyrt í gegn nú með flokksfylgi og ofurkappi, þá líður ekki á löngu þangað til þessu verður breytt aftur. Þetta er beinlínis blettur á löggjöfinni um æðsta dómstól landsins. Ég tel, að það sé ólíkt betra að hafa kennara lagadeildar fyrir lögskipaða varamenn í hæstarétti. Það er miklu vafningaminna fyrir réttinn að geta kallað til þessara ákveðnu manna og þurfa ekki í hvert skipti að fara í ráðh., skrifa honum og leggja til með manni og bíða svo eftir bréfi frá ráðh. Þetta getur orðið til þess, að þegar um skyndilegan lasleika dómara er að ræða, verði að fresta máli. — Ég hefi breytt innihaldi l. frá 1914 dálítið með brtt. minni, á þá leið, að dómarar hæstaréttar séu sjálfráðir um það, hverja þeir kveðji til af kennurum lagadeildar háskólans. Það hefi ég gert af því, að ég tel, að það sé mikil trygging fyrir góðum dómara í máli, þegar rétturinn getur valið einmitt þann af kennurum lagadeildar, sem er kennari í þeirri grein, sem viðkomandi mál fjallar um. Ef t. d. um refsimál er að ræða, þá geng ég út frá því, að rétturinn kveðji til þann kennarann, sem kennir refsirétt í háskólanum. Og ef um eitthvert sérstakt réttarfarsfræðiatriði er að ræða, þá sé tilkvaddur sá maður, sem kennir þá grein. Ég held, að með þessu sé fengin sú mesta trygging, sem hægt er að fá í þessum efnum. Ég hefi ekki getað skilið, hversvegna gerður er greinarmunur á því í frv., af hvaða ástæðum dómarar skipa ekki réttinn. Ef dómari víkur sæti í einu máli, þá gilda aðrar reglur um val varadómara heldur en þegar dómari forfallast á annan hátt. En mér skilst, að um þetta eigi að gilda nákvæmlega sömu reglurnar.

Þá kem ég að 4. brtt., við 3. gr. frv., um það, að e- og d-liður falli niður. Þessar brtt. snerta hið svokallaða dómarapróf. Ég fór um það nokkrum orðum við 2. umr. þessa máls og skal því ekki bæta miklu þar við, enda fann ég ekki, að þau rök, sem þá komu fram á móti dómaraprófinu, væru önnur en þau, að ennþá hefði ekki þurft á því að halda. En allir gengu þó inn á það við 2. umr., að það hafi ekki verið hægt að viðhafa slíkt próf í byrjun, og í það eina skipti, sem nýr dómari kom í réttinn, hafi verið um mann að ræða, sem hafði kveðið upp dóma í 40—50 málum og þar af leiðandi margfaldlega leyst af hendi þessa þraut, sem þarna er um að ræða. — Og undarlegt verður það að teljast undir öllum kringumstæðum, að dómarar eiga ekki að leysa af hendi neitt próf, sem málfærslumenn þó verða að gera. Þessi breyt. á þeim reglum, sem nú gilda, getur ekki verið af öðru sprottin en því, að það sé beinlínis vilji meiri hl. þings, að stj. fái meira vald yfir réttinum heldur en hún nú hefir. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr., að það er ekki hægt að fá meiri tryggingu fyrir heppilegu vali manna í réttinn heldur en þá, að bæði dómsmrh. og rétturinn þurfi að vera sammála. En það sjá væntanlega allir, að með því að gefa öðrumhvorum þessara aðilja fullan rétt er dregið úr örygginu. Eftir því, sem frv. er nú, getur hvaða ráðh. sem er skipað í réttinn af pólitískum ástæðum. Ég skal líka ganga inn á það, að slíkt hið sama gæti komið fyrir, ef rétturinn einn ætti að ráða. En þegar samþykki beggja þessara aðila þarf til, þá tel ég slíkt hér um bil útilokað. Það verður að muna eftir því, að dómararnir í réttinum hafa ákaflega sterka hvöt til þess að velja glöggan og góðan starfsmann til þess að vinna með sér, og það er þeim mjög sterk hvöt til að velja eftir beztu sannfæringu.

Þá kem ég að 5. brtt., við 11. gr. frv. Þessi brtt. ásamt 6.—13. brtt. er í raun og veru aðeins formsbrtt. og gengur út á það, að leiðrétta þær formsskekkjur, sem komið hafa inn í frv. við 2. umr. í Nd., og mér skilst það bezt gert á þann hátt, sem hér er stungið upp á, að segja bara, að í staðinn fyrir þessar gr., 44.—47. í l. frá 1919 og 1924, komi 8 nýjar gr., sem verður einn kafli. Og þá á að sjálfsögðu að falla niður þessi tilvísun í upphafi gr. til l. frá 1919. Ég sé því ekki neina ástæðu til þess að ræða um hverja einstaka af þessum brtt. Þær eru bara til þess að leiðrétta frv., svo að það sé frambærilegt og í raun og veru samþykkjanlegt, því eins og ég tók fram við 2. umr., er komin inn í frv. tilvísunarskekkja, sem veldur því, að ómögulegt er að setja saman l. á þann hátt, sem fyrir er skipað í þessu frv.

Um 13. brtt. er það að segja, að 19. gr. frv. má eftir mín viti alveg falla niður, vegna þess að ef 1. brtt. mín verður samþ., er búið að nema úr gildi einn kafla, svo að kaflatalan kemur til með að verða rétt.

Um 14. brtt. er í raun og veru búið að tala, þar sem ég minntist á synodalrétt. En það sér hver maður, að hann á ekki heima í I. um hæstarétt sem fyrsta efnisgr.

Þá er 15. brtt. um það, að 21. gr. frv. falli niður. Hún er óþörf, því hún er um það að breyta réttri töluröð á köflum.

Um 16. brtt., við 22. gr., er það að segja, að ég kann ómögulega við að taka upp hér í l. frá 1935 alla þá lagarunu, sem var felld úr gildi 1919. Tel ég það með öllu óþarft og óviðeigandi, því ef menn fara síðar að líta á þessi l., þá sýnist þeim, sem ekki þekkir til, að það sé nú í fyrsta skipti, sem þessi l. eru afnumin. Og eins og ég sagði við 2. umr., þá tel ég ekki hættu á því, að þessi gömlu og úreltu lagaákvæði finni upp á því að ganga aftur, þó ekki sé farið að afnema þau í annað skipti.

Ég skal svo ekki, af því ég fór svo nákvæmlega út í þetta mál við 2. umr., segja um það fleiri orð að sinni a. m. k., en bíð eftir undirtektum undir þessar brtt. mínar, þó ég verði að viðurkenna, að það sé í raun og veru búið að lýsa því yfir, að ekkert af þeim verði samþ.