03.04.1935
Efri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

75. mál, hæstiréttur

Pétur Magnússon:

Ég get gert grein fyrir afstöðu minni í fáum orðum. — því hefir verið haldið fram af hv. þm. S.-Þ., og verið tekið undir það af hv. 1. þm. Skagf., að þetta frv. sé sama eðlis og það, sem lá fyrir Alþ. á árunum 1930—1933, eða fimmtardómsfrv. Ég get ekki fallizt á, að þetta sé rétt. Ég álít þetta frv. vera annars eðlis.

Athyglisverðast við fimmtardómsfrv. var það, að þar var gert ráð fyrir að leggja hæstarétt niður. Síðast var þetta þó aðeins orðið teoretiskt atriði, því að ákveðið var, að dómarar þeir, sem sátu í hæstarétti, skyldu eiga sæti í hinum nýja dómstóll. En samt, þó að það væri ekki annað en teoretiskt atriði, þá var það alvarlegt, óskynsamlegt og hættulegt í löggjöfinni. það gat verið hreinn voði fyrir þjóðfélagið, ef löggjafarvaldið gæti tekið æðsta dómstól landsins og gert hann að leiksoppi pólitískra flokka. Þessu atriði var barizt harðast á móti af mér og öðrum. Í þessu frv. er engin slík ráðagerð, af skiljanlegum ástæðum, því að sá maður, sem er dómsmrh. nú, ber skyn á starf sitt og veit, hvað hann er að gera. Hann ber þá virðingu fyrir starfi sínu að hann fer ekki fram á slíka óhæfu sem fyrirrennari hans, hv. þm. S.-Þ., ætlaði að gera á sínum tíma. Tillögur hans um dómstólinn voru sennilega meira sprottnar af því, að hann bar ekki skynbragð á starf sitt, af þekkingarleysi hans og dómgreindarleysi, heldur en hinu, að hann ætlaði sér að gera illt með þeim. En það getur aldrei farið vel, þegar menn taka að sér störf, sem þeir hafa enga þekkingu á eða vitsmuni til að leysa af hendi.

Á ýms önnur ákvæði þessa frv., sem eru samhljóða fimmtardómsfrv., verður nú litið öðrum augum en áður, af því að dómsmrh. sá, sem nú situr, er siðaður maður. Á ég þar fyrst og fremst við ákvæði 3. gr. og 2. gr. frv.

Sum nýmæli frv., t. d. ákvæði 1. gr. um dómarafjölgunina, þar sem a. m. k. í orði kveðnu er heimild til að fjölga dómurunum upp í fimm. álít ég vera til bóta. Ég hefi haldið það vera styrk fyrir réttinn, að dómarar væru fleiri en nú. Ég játa þó, að óviðkunnanlegt er, að það skuli komið undir fjárveitingarvaldinu, hvenær dómurunum verður fjölgað. Fyrst lögin mæla svo fyrir, að dómarar skuli vera fimm, þá er óhjákvæmileg afleiðing að það verði ætlað fé til launa þeirra. Ég hefði því kunnað betur við, að ákvæði síðustu gr. frv. (22. gr.), „dómarar skulu þó aðeins vera 3 þangað til fé er veitt í fjárlögum til fjölgunar dómurum“, hefði verið fellt burtu, svo að dómarafjölgunin kæmi strax til framkvæmdar. En það má segja, að þetta sé ekkert höfuðatriði. Rétturinn er skipaður af jafnmörgum dómurum og síðustu ár.

Um dómaraprófið ætla ég ekki að ræða; ég hefi talað svo oft um það áður. Ég játa, að í höndum sæmilegs dómsmrh., sem ber virðingu fyrir sér og stöðu sinni, er það lítt hættulegt, þó að dómaraprófið falli niður. Ég álít þetta ákvæði hæstaréttarlaganna vera aðeins aðhald fyrir dómsmálastjórnina, að senda ekki til prófs aðra en þá, sem fyrirfram er nokkurn veginn víst um, að standist prófið. Og ég held varla, að nokkur stjórn myndi senda til prófsins aðra en þá, sem stæðust það. Og ég er líka sannfærður um, að svo framarlega sem í sæti dómsmrh. situr maður, sem vill gera rétt og sjá til þess, að æðsti dómstóll landsins sé þannig skipaður, að þaðan megi vænta réttlátra dóma, þá skipar hann ekki annan í dómarasætið en þann, sem stæðist prófið. Aðeins í því eina tilfelli, að landið hendi slík ógæfa, að í embætti dómsmrh. veljist misindismaður eða fáráðlingur, getur orðið hætta af afnámi prófsins. Ef dómsmrh. er svo gerður, að hann hefir annað sjónarmið en það að fá hæfasta mann í starfið, getur komið fyrir, að í hæstarétt veljist menn, sem ekki eru færir um að taka á sig jafnábyrgðarmikið og vandasamt starf sem það er að kveða upp endanlega dóma.

Ég verð því að segja, að þessi breyt., að afnema dómaraprófið, er til hins verra. Ég álít það hollt og heppilegt fyrir stj. að hafa aðhald það, sem í dómaraprófinu felst, án þess að ég haldi, að hér sé stór hætta á ferðinni. Sú hætta er einungis, ef óhæfur maður skipar sæti dómsmrh. Það hefir komið fyrir, og það getur orðið aftur, en þó er vonandi, að þjóðina hendi ekki sú ógæfa með stuttu millibili, að í sæti dómsmrh. veljist maður eins og hv. þm. S.-Þ.

Þá má segja, að til spillis sé það ákvæði, sem kom inn í frv., að dómsmrh. tilkveðji varadómara í réttinn í stað þess, að nú eru lögákveðnir lagaprófessorar við háskólann. Það hefir verið bent á það af hv. 1. þm. Skagf., og ég þarf ekki að endurtaka það, að sú hætta felst í þessu, að dómsmrh. getur oft haft áhrif á það, hvaða menn sitja réttinn, líka í málum, sem varða hann persónulega eða sem dómsmrh. Þetta er allmjög athugavert, þó ég játi eins og áður, að í höndum sæmilegs dómsmrh. er það ekki stórhættulegt. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að dómsmrh., sem vill rétta niðurstöðu málanna, taki þá í réttinn, sem sízt eru hæfir til starfsins, heldur hina, sem hann telur hæfasta. Ég get þó sagt sama um þetta nýmæli og það fyrra, að ég álít það til spillis, því að ég hefi ekki komið auga á líklegri menn til þess að taka varadómarastarfið að sér en lagakennarana við háskólann.

Annað atriði, sem bent var á af hv. 1. þm. Skagf., er naumast hægt að telja nýmæli í frv., að gert er að skyldu að prenta ágreiningsatriði í dómunum. Eftir l. nú er heimild til þessa, en eftir frv. á það að verða skylda. Ég álít það heppilegt, að ágreiningsatriðin komi alltaf fram, og sé því breytingin til bóta, en þó ekki af þeim ástæðum, sem hv. þm. S.-Þ. hélt fram, að þetta væri siðferðislegt aðhald fyrir dómarana, svo að þeir væru í minni hættu að víkja frá sannfæringu sinni. Þetta er vitanlega mesti misskilningur, enda hefir opinber atkvgr. hvergi verið rökstudd á þann veg. Þvert á móti hefir það verið fært fram sem rök á móti henni, að dómararnir hefðu frekar tilhneigingu til að látast vera sammála, ef atkvæðin væru birt. En einu rökin fyrir þessu eru þau, að það er lærdómsríkt, einkum fyrir lögfræðinga, að sjá atkv. þess dómara, sem orðið hefir í minni hluta. Og þegar breytingar verða á réttinum við mannaskipti, þá líta nýju dómararnir á, hvernig fyrirrennarar þeirra hafa dæmt, þó þeir séu í minni hluta, eða hafi verið.

Það getur vel komið fyrir, og hlýtur hver maður að skilja, að hversu vandaður sem rétturinn er í dómum sínum, þá getur minni hl. haft betri rök eða jafngóð fyrir sínum málstað eins og meiri hl., af þeirri einföldu stæðu, að allir menn eru ófullkomnir og öllum getur yfirsézt.

Ég hefi nú stuttlega gert grein fyrir skoðun minni á þeim ágreiningsatriðum og nýmælum, sem eru í frv. þessu og mestur styr hefir staðið um, en ég álít, að fullmikið hafi verið gert úr þeirri hættu, sem af því mundi stafa að samþ. frv. þetta. Ég er heldur á móti því, að dómaraprófið sé fellt niður og að ráðh. hafi valdið um kvaðningu dómara í réttinn, en ég álít þetta alls ekki stórhættulegt.

Hv. þm. S.-Þ. er ekki staddur hér í d. fremur venju. En hann fór hér í þessum umr. sömu leiðina og hann er vanur gagnvart hæstarétti. Hann jós úr sér óbótaskömmum og sagði berum orðum, að dómararnir hefðu vísvitandi dæmt ranga dóma, og reyndi að henda gaman að réttinum og gera hann hlægilegan. Ég ætla mér ekki að fara að rökræða við þennan hv. þm. um þessa hluti, því það er ekki hægt, þar sem hann ber ekki skyn á þá. Það á ekki að deila um lögfræði við börn, og ekki heldur fullorðna menn, sem eru „börn í lögum“ og auk þess „litblindir á allt velsæmi“. En ég vil minna hv. d. á það, að hæstiréttur hefir hlotið þann dóm hjá öllum skynbærum mönnum, sem um það hafa talað, að hann hafi leyst starf sitt betur af hendi en nokkur gat búizt við, þegar æðsta dómsvaldið var flutt heim. Var þá nokkur uggur í mönnum, að þjóðin ætti dómhæfa menn, því hér vantaði menn með dómaraæfingu, þó að þekkingin væri nægileg. Ég ætla ekki að segja, að hæstiréttur sé óskeikull, — því dettur mér ekki í hug að halda fram, og ég efast ekki um, að hæstarétti í öllum löndum hefir yfirsézt. En hitt er ég ekki í nokkrum vafa um, að dómar hæstaréttar hafa verið vel undirbyggðir, og annað er ekki hægt að segja með réttu en að menn hafa með öryggi mátt leggja mál sín undir réttinn. Ég vil líka minna á ummæli lögfræðiráðunautar eins stórveldis álfunnar, sem fékk til meðferðar einn —. ekki óverulegasta — þáttinn úr dómum hæstaréttar, sem voru dómar í landhelgismálum fram til 1933. Hann segist hafa fengið hina mestu virðingu fyrir réttinum, og dómar hæstaréttar hafi verið eins og hann mundi sjálfur hafa dæmt. Ég verð að segja, að þessi ummæli eru meira virði og meira mark takandi á þeim en sleggjudómum hv. þm. S.-Þ., sem að vísu eru skiljanlegir út frá því, að hann vill ekki, að hæstiréttur kveði upp rétta dóma, og er því óánægður með dóma hans. Hann sýndi það bezt, þegar hann var dómsmrh., að honum var annara um eitthvað annað frekar en vandaða dóma. Hann fékk mann til að vinna að dómarastörfum, sem ekki var orðinn fær um það vegna andlegs heilsubrests, og kvað svo ramt að, að úr varð ævarandi hneyksli og skömm fyrir íslenzkt réttarfar.

Í áframhaldi af skömmum þessum fann hann einnig ástæðu til að ráðast að einum merkasta þm., sem um langt árabil átti hér sæti í þessari hv. deild. — Jóni Jónssyni frá Stóradal og hann skammar þennan mæta mann af nákvæmlega sömu ástæðu og hann skammar hæstarétt, af því að hann þolir ekki réttdæmi. En Jón frá Stóradal mat meira sannfæringu sína en flokksfylgi, og þó svo hafi verið, að hann hafi af þeim sökum tapað kjördæminu, þá ætla ég, að hann megi vel við una að tapa kjördæminu fremur en að missa æruna með því að láta flokkshagsmuni ráða meiru en sannfæringu sína. Það er alveg af sama toga spunnið, þegar þessi hv. þm. skammar hæstarétt og þennan fyrrv. þm. Það er af því, að hann þolir engum manni að breyta rétt.