14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Frsm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Það er mikill misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni, að frumkvæði og upphaf þessa máls hafi komið fram á síðasta þingi. Aðdraganda þess má rekja lengra aftur í tímann. Á þinginu 1929 kom fyrst fram frv. um rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna. Hitt er aftur á móti rétt, að á síðasta þingi kom fram till. um það, að þetta ætti fyrst og fremst að vera prófessorastofnun við háskólann, því að dósentar verða síðar gerðir að prófessorum, en ekki rannsóknarstofnun fyrir atvinnuvegina. Nú höfum við, sem flytjum þetta frv., aðallega haldið okkur við þá stefnu, að þetta ætti að vera rannsóknarstofnun, en þó jafnframt ætlazt til þess, að í sambandi við hana væri hægt að fá aukna kennslukrafta við háskólann í hagnýtum fræðum, sem stofnunin fjallar um, þegar því verður við komið.

En hitt er enganveginn eins nauðsynlegt, sem sumir hafa mest talað um, að reisa þessa stofnun aðeins fyrir þann stúdentagrúa, sem nú er í landinu, svo að þeir fái aðstöðu til þess að ná magisterprófi í sem flestum greinum. Við höfum að vísu þörf fyrir nokkra vísindalega menntaða menn í þeim hagnýtu fræðum, sem hér er gert ráð fyrir, en þeir geta komið smámsaman, og mætti þá síðar búa betur í haginn fyrir þá við háskólann til vísindalegs náms. Ég vil halda fast við það, að sú stefna okkar er rétt, að þessi stofnun á fyrst og fremst að starfa fyrir atvinnuvegina, en ekki sem stúdentasmiðja.

Viðvíkjandi andmælum hv. þm. Snæf. gegn því, að háskólaráðið hafi tjáð sig fylgjandi þessu frv. okkar, vil ég aðeins vísa til þess, sem stendur í fskj. með frv., að meiri hl. háskólaráðs hefir samþ. það, og þarf ekki frekar um það að deila. Meiri hl. þess hefir fullkomið vald til að ákveða, að þessi stofnun skuli byggð, og getur gert bindandi ráðstafanir um fjárframlög til hennar frá háskólanum. Það er ekki hlutverk háskólans að segja fyrir um það, hvort lögin eigi að vera á þennan hátt eða hinn, heldur þingsins. Þess vegna skiptir það ekki svo miklu máli, hvað háskólinn segir um þau. En háskólaráðið hefir skriflega lofað að veita fé til byggingar fyrir rannsóknarstofnunina, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og það er aðalatriðið.

Ég vil mótmæla því, að þessu frv. verði aftur vísað til allshn. Hv. minni hl. n. kvaðst ætla að flytja brtt. við frv. og tafði fyrir því í 3 daga í n. En nú hafa þeir flutt sérstakt frv. um málið, og mætti vitanlega vísa því til n. Þar að auki má búast við, að þessi hluti þingsins standi ekki lengi, og þess vegna er nauðsynlegt, að þetta mál fái fljóta afgreiðslu á þinginu, svo að hægt sé að undirbúa byggingu stofnunarinnar fyrir mesta þing. Ég get því ekki verið meðmæltur neinum töfum á framgangi þessa máls, þó að ekki sé nema um 2—3 daga að ræða, því að búast má við, að hv. þm. Snæf. vilji draga það á langinn og koma í veg fyrir afgreiðslu þess nú.