06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Af reynslu hefi ég oft vitað menn gera sig seka um smámuni og líka um stóra hluti, eins og hæstv. atvmrh. hefir nú gert. En það er fremur sjaldgæft um menn á hans aldri, að þeir séu eins hreyknir og næstum að segja megi uppblásnir af því að hafa framið ódrengilegt bragð, og það þegar það er orðið uppvíst. Ég hefði samt sem áður ekki skipt mér af þessum umr., ef hæstv. ráðh. hefði ekki beint til mín nokkuð mörgum orðum, miður vingjarnlegum, miður kurteisum og miður sönnum. Það er líklega rétt, fyrst svo er komið, að deilt er um þetta mál, að ég svari hæstv. ráðh. orði til orð um þessi atriði og byrji þá á byrjuninni.

Það er öllum þingheimi kunnugt, og líklega öllu landsfólki líka, að um þetta mál, sem hér er deilt um, var samkomulag á milli flokkanna, og það var ákaflega eðlilegt, að ef einhver flokkur teldi þörf á því að gera einhverjar breyt. á fyrirkomulaginu, um þann tilgang, sem markaðs- og verðjöfnunarsióður hefir, að tryggja markað fyrir aðalútflutningsvöru landsmanna - það var mjög eðlilegt, ef einhver flokkur teldi þörf á breyt. á því fyrirkomulagi, að hann hefði þá leitað um það samkomulags við hina flokkana, en þyti ekki af stað með gagngerðar breyt. á þessu fyrirkomulagi án þess að leita fyrir sér um það, hvort málið gæti ekki áfram verið samkomulagsmál, því að þetta getur ekki talizt neitt smámál, hvort hægt er að selja aðalútflutningsvöru landsmanna. Það vita allir, að það er mál alþjóðar fyrst og fremst, en ekki sérmál neinnar stéttar í landinu; þar snertir hvern einasta borgara í þjóðfelaginu. Hver einasti borgari þess á það undir þessu komið, hvort afkoma hans verður hörmuleg eða hún verður sæmileg.

Því er ekki að leyna, að við sjálfstæðismenn vorum óánægðir með það frá öndverðu, að það væri ætlað fiskeigendum einum að bera kostnað af þessu, einmitt af þessari sömu ástæðu, sem ég tók fram, að það er ekki sérmál neinnar atvinnustéttar í landinu, hvort Íslendingar geta selt aðalútflutningsvöru sína. Og við vorum líka, a. m. k. ég, óánægðir með það, hvað þetta gjald var hátt. Þetta gjald til sjóðsins var að mínu áliti sett allt of hátt. Nú var þessu máli þess vegna haldið opnu frá upphafi, og það voru umr. um það innan Sjálfstfl., hvort ekki mundi vera hægt að fá stjórnarflokkana til þess að ganga inn á a. m. k. lækkun á þessu gjaldi, sem var knúð fram, að yrði 6%, á móti okkar vilja. Ég get í þessu sambandi látið þess getið, að tveir sjálfstæðismenn fluttu á síðasta þingi till. til breyt. í þessu máli. Það voru þeir hv. þm. Vestm. og hv. þm. Snæf, að mig minnir, sem fluttu brtt. um, að gjaldið yrði ekki nema 5%, en það gekk ekki. Ég vænti, að öllum þyki eðlilegt, fyrst svona var, að við vorum óánægðir með gjaldið, - okkur þótti það bæði of hátt og við vorum líka óánægðir með, að það væri tekið eingöngu af fiskeigendum, - að við vildum leita samkomulags um að gera breyt. á þessu gjaldi.

Nú er rétt að taka það líka fram, að gjaldið var ákaflega óvinsælt meðal fiskeigenda, og í raun og veru meðal allra, sem atvinnu sína höfðu af sjávarútvegi. Þess vegna var opin leið fyrir menn, sem vildu krefjast þess, að gjald þetta yrði afnumið, að skapa sér miklar vinsældir meðal þessara manna. Og það var í raun og veru ekki óeðlilegt, þótt sjálfstæðismenn hefðu talið sig eiga rétt til þess að öðlast þessar vinsældir, af því að þeir hafa frá öndverðu staðið þeim megin í þessari baráttu, sem var fiskeigendum í vil. En eins og gangur málsins hefir verið, sem nú er búið að sýna, þá kom okkur ekki til hugar að gera þetta, einmitt vegna þess, hvernig mál þetta hefir legið fyrir. Og einnig þess vegna var það, að leitað var samkomulags um þetta við hæstv. ráðh.

Ég kem nú að því, sem hæstv. ráðh. sagði um það, hvernig byr þetta mál hafði í fisksölunefndinni. Mig furðar mjög á því, að hann skyldi draga fisksölun. inn í þetta mál. Þar, sem þar fer fram, er ekki ætlazt til, að verði út í æsar rætt utan n. Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. hafi ekki sérlega góðar heimildir fyrir sínu máli. Ég þykist vita, hver muni hafa tuggið í hann, ég þykist merkja það á því, sem hann lét út úr sér fara, að það hafi verið tuggið í hann á þann hátt, sem vanalega gerist í þeirri verksmiðju.

En ég skal lýsa því yfir, af því að fisksölun. er samsett af mönnum úr þremur aðalflokkunum og af því að hún, samkv. sinni stöðu, er skyldug til að standa á verði fyrir hagsmuni fiskeigenda, þá þótti mér eðlilegt, að mál þetta hefði þar sinn útgangspunkt. Þess vegna bar ég það upp í n., að hún skyldi senda hæstv. Alþ. rökstudda kröfu um, að gjaldi þessu yrði létt af fiskeigendum sérstaklega og að það fé, sem afla þyrfti til þess að tryggja fiskmarkaðimi, eins og fram er tekið í l. um markaðs- og verðjöfnunarsjóð, yrði veitt í fjárlögum hvers árs. Nú segir hæstv. ráðh., að það séu ósannindi, að þetta hafi haft byr í n. og segir, að því hafi verið vísað frá. Ég þykist vita, að hæstv. atvmrh. hafi þarna goldið þess að trúa of vel illum heimildum. En gerðabók n. getur sýnt, hvernig þetta mál var tekið í n. Mér er víst óhætt að fullyrða, að þeir voru ekki fleiri en einn eða tveir í n., sem ekki voru þessu strax ákveðið fylgjandi. En til marks um það, hvort málið hafi haft byr í n., skal ég lýsa því yfir, því að það er ekkert launungarmáli að það var fisksölustjórnin, ég held ágreiningslaust, sem samþ. að fela ákveðnum mönnum að semja rökstuðning til Alþ. fyrir þessari kröfu. Og hæstv. atvmrh. getur nú, sennilega alveg án þess að hafa nokkra hjálp eða heimildarmann, rannsakað þetta. Hann fær efalaust að sjá þetta í gerðabók stjórnarinnar. Af þeirri rannsókn hygg ég, að jafngreindur maður og hann er geti dregið þá ályktun, að þetta mundi ekki hafa verið samþ. í fisksölun., að senda hæstv. Alþ. rökstudda kröfu um afnám þessa gjalds, ef fisksölustjórnin hefði verið því mótfallin. Af því að hæstv. ráðh. áminnti mig um að vera vandur að heimildum, þá vona ég, að þessi slysni, sem hefir hér hent hann, verði til þess að kenna honum sjálfum að vera vandari að heimildum en hann var í þessu atriði.

Þá kem ég að því atriði í þessu máli, sem að mér snýr, sérstaklega, sem snertir flutning þessa frv. sjálfs. Það er alveg rétt, sem form. Sjálfstfl. sagði, að okkar samtal fór fram áður en frv. var samið og þess vegna áður en það var lagt fram í sjútvn. Okkur var báðum alveg ljóst, að kjarni þessa máls er sá, að létt sé þessu 6%, gjaldi af fiskeigendum sérstaklega. En um það má deila, hvort þar fyrir á einskis fjár að afla til þess að tryggja saltfiskmarkaðinn. Um þennan kjarna málsins talaði form. Sjálfstfl. við hæstv. atvmrh. Það er alveg rétt, sem tekið er fram í grg. frv., að hæstv. atvmrh. tók líklega í þetta, og er þar ekki mjög sterkt til orða tekið. Hvernig sem hann vill reyna að snúa út úr þessu máli, þá fær hann aldrei dulið það, að það er kjarni þessa máls, hvort það eigi að létta þessu gjaldi af sjávarafurðum eða ekki. Hitt er náttúrlega mikilsvert, en þó í þessu sambandi aukaatriði, hvað í staðinn kemur, hvort fjárins til tryggingar fiskmarkaðinum verður aflað með framlagi beint úr ríkissjóði eða á annan hátt. Ég þykist vita, að um þá hlið málsins verði ágreiningur, þó ég ætli ekki að fara út í að ræða það mál nú, því að það er ekki beinlínis til umr.

Þá er rétt, að ég minnist á framkomu stjórnarflokkanna og hæstv. atvmrh. í þessu máli og beri hana saman við framkomu okkar sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn ætluðu sér engan pólitískan ávinning að hafa af lausn þessa máls. Þeir gátu stofnað til þess, ef þeir vildu. En þeir vildu það ekki, af því að málið hafði verið samkomulagsmál, og þeir vildu ekki draga það út af þeim vettvangi, ef annað væri hægt. En hvað gerir svo hæstv. ráðh. og hans flokksmenn? Þegar við sjálfstæðismenn erum búnir að reyna að semja um þetta mál og reyna að koma því á framfæri, eftir þeim heppilegustu leiðum, sem við gátum fundið því, en þó þannig, að lausn þess gæti ekki haft á sér neinn flokksblæ, bæði með því að reyna að semja við stjórnarflokkana og atvmrh. sérstaklega og með því að fá stuðning fisksölun., sem er ópólitísk og skipuð mönnum úr þremur stærstu flokkum þingsins, og ennfremur með því, að frá minni hálfu var till. um, að hæstv. atvmrh. væri boðaður á fund í sjútvn. til þess að ráðgast við hann um það, hvernig þetta mál yrði borið fram og hvernig hægt væri að ná um það samkomulagi á milli flokkanna (og ég ætla, að mönnum sé af öllum þessum ástæðum það fullljóst, að sjálfstæðismenn hafa farið á allan hátt heiðarlega og drengilega að í þessu máli) - þá hefst þáttur stj. og hennar flokka í málinu. Sá þáttur hefst með því, að flokksmenn stj. leggja fram frv. í sjútvn. Og þegar ég spyr formann n., hvernig á þessu frv. standi, hvort það sé fram komið fyrir hans atbeina eins eða stjórnarflokkanna, eða stj. sjálfrar, þá svarar hann mér því, að það sé svar stjórnarflokkanna við frv. mínu. Mér fannst þetta svar undarlegt og ógreinilegt, en lét þó kyrrt liggja, af því að ég bjóst við, að hæstv. ráðh. mundi koma á okkar fund til að ræða málið. En af því varð aldrei.

Það næsta, sem spyrst til málsins, er það, að haldinn er allfjölmennur fundur, þar sem útgerðarmenn í Reykjavík fjölmenntu sem áheyrendur. Þá hleypur hæstv. ráðh. til hér í þingsölum, undir umr. um allt annað mál, og gefur yfirlýsingu um það, að hann, í samráði við sinn flokk, ætli að létta að mestu eða öllu leyti af þessu gjaldi, sem vitað var, að útgerðarmönnum er ákaflega mikið áhugamál, að af verði létt. Honum datt ekki í hug að segja, að þetta mál hefði byr í Sjálfstfl. og því síður að segja eins og salt var, að það hefði verið töluvert fast sótt af Sjálfstfl. Nei. Það datt hæstv. atvmrh. ekki í hug. En af því að þetta var á opinberum fundi, kom strax skýring frá form. Sjálfstfl. um afstöðu flokksins í málinu. Þá sér hæstv. ráðh., að nú eru góð ráð dýr, og hleypur í útvarpið, eða réttara sagt laumast hann í útvarpið með þessa yfirlýsingu sína, sem á að sýna þá sérstöðu hans í málinu, að hann sé frelsari þeirra manna, sem stunið hafa undir þessum skatti. Það þýðir ekkert að breiða yfir sig hræsnisflíkur, þegar menn standa naktir. Hæstv. ráðh. hefir þarna farið á bak við menn, sem barizt hafa fyrir þessu máli, og beinlínis prettað þá. Það er fullkomlega ódrengilegt í máli, sem hafið var jafndrengilega og þetta mál var hafið af okkur sjálfstæðismönnum.

Ég vil enda þessi orð mín með því að endurtaka þá ráðleggingu mína til hæstv. atvmrh., að hann verða vandari að heimildum framvegis en hann hefir verið í þessu máli, þegar hann hermdi, hvað gerðist í fisksölun., og ennfremur að fara ekki að dansa í svona máli fyrr en hann veit sig hafa þann lepp yfir sér, sem ekki sér alveg í gegnum.