16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Frsm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Mér er sönn ánægja að því að svara þeim fyrirspurnum, sem hv. þm. Snæf. kom með, þó að ég í framsöguræðu minni hafi tekið flest af því fram, sem hann spurði um, en hann hafi þá ekki veitt því eftirtekt. Sú breyt., sem á frumv. yrði, ef farið væri að tilmælum háskólaráðsins, er ekki önnur en sú, að rannsóknarstofa læknadeildar, sem sennilega yrði kölluð svo áfram, héldi áfram að hafa leyfi til þess að hafa á hendi lyfjasamsetningu og lyfjasölu. Prófessorar háskólans héldu því fram, að margar af þeim lyfjavörum og efnasamsetningum, sem þessi rannsóknarstofa hefði haft með höndum, gætu ekki fallið undir rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna. Aftur á móti fellur sú lyfjasala og lyfjagerð, sem búfénað snertir, undir þessa deild. Hún á líka þau áhöld, sem til þess þarf að nota. Voru þau gefin hingað 1930. var það þýzka ríkið, sem gaf þau og ætlaði þau sérstaklega til búfjárræktunar.

Hér er ekki um það að ræða, að eitthvað sé tekið frá öðrum og gefið hinum; enda kemur þetta í sama stað niður, því eigandinn er sá sami — hvorttveggja er ríkisins eign — og húsakynnin eru sameiginleg; en sá kostnaður, sem af þessu yrði, væri þá færður á nýju deildina.

Eins og reikningar deildarinnar hafa sýnt, hefir verið sæmilegur hagnaður af þessu starfi. Má gera ráð fyrir, að hann sé um 30 þús. kr. Finnst mér mjög líklegt, að sá sami maður, sem þessu hefir veitt forstöðu — sem er prófessor Niels Dungal — og hefir farið það mjög vel úr hendi, gæti náð samkomulagi við ríkisstj. um það, hvernig starfinu yrði haldið áfram.

Ég er ekki á sömu skoðun og hv. þm. Snæf. um það, að rétt væri, að forstjórinn væri einráður um starf rannsóknarstofunnar. Mér finnst réttara að hafa sama fyrirkomulag og haft er í Danmörku, að nefnd sérfróðra manna sé höfð til þess að halda þessu í beinu og lifandi sambandi við atvinnuvegina og sjái um, hvað sérstaklega er á rannsóknarplaninu á hverju ári.

Þar sem margir eiga að starfa samhliða, má ekki ganga ákvörðunarlaust til vinnu og búast við því, að verkefnin komi fljúgandi upp í hendur manna og taka aðeins það, sem þannig berst að. Þeir, sem eiga að framkvæma starfið, verða að gera áætlun fyrirfram, þeir verða sjálfir að gera út um það, hver þau verkefni eru, sem mest eru aðkallandi, og hvernig eðli þeirra smærri verkefna, sem þeim kunna að berast, sé háttað og hvernig þetta allt verði framkvæmt í sem nánustu og beztu samræmi við hina ýmsu þætti atvinnulífsins. Tilgangur frumv. er sá, að festa sem bezt lifandi samband milli rannsóknarstofnunarinnar og atvinnuveganna.

Þá fann hv. þm. Snæf. að því, að ekki skuli ákveðið að taka upp kennslu af hverjum manni þegar háskólaráðið telur, að skilyrði séu fyrir hendi. Ég tel það heppilegt að hafa það ekki bundið með lögum í hverri grein, hver skuli kenna. Það er á valdi rannsóknarstofnunarinnar sjálfrar að dæma um það, hvort hún álítur sig hafa hæfa menn til að hafa þau störf á hendi og að hverjum sviðum menntunin eigi fyrst og fremst að veitast; og þá er eðlilegt, að staðfestingarvaldið sé hjá ráðh., og ef misbeiting þykir á því valdi, þá er auðvelt að gera á því breyt. og leggja þær fyrir þing og fá þær samþykktar.

Þá finnst hv. þm. Snæf. framlag háskólans til rannsóknarstofnunarinnar vera of mikið, og að háskólinn fái of lítið í staðinn. Nú er ætlazt til, að þessu verði þannig skipt, að rannsóknarstofan sjálf leggi til helminginn af byggingarkostnaðinum með jöfnu árlegu framlagi í 10 ár, en háskólinn sjálfur legði fram hinn helminginn, og þó að bein afnot háskólans af þessu yrðu lítil í byrjun, þá yrðu þau strax nokkur, t. d. við efnafræðikennslu, og það segir sig sjálft, að eftir því sem atvinnuvegirnir þroskast og því víðara svið sem atvinnugreinarnar taka yfir, því meiri skylda er háskólanum að leggja þeim stuðning.

Það er rétt, að þetta tefur háskólabygginguna um eitt ár og kannske meira en hún virðist nú eiga nokkuð langt í land, ef byggja á eftir tillögum háskólaráðsins, en það er meiri aðkallandi þörf á að koma upp húsnæði fyrir rannsóknarstofnunina heldur en fyrir háskólann sjálfan.

Viðvíkjandi kostnaðaráætluninni er því að svara að vel má vera, að hún sé ekki fyllilega rétt. Ég þori t. d. ekki að fullyrða, að það fáist 15000 kr. fyrir matarrannsóknir, en ég get bent á það, að fyrir smjörlíkisrannsóknir eru nú greiddar 5000 kr., svo ef matarrannsóknir yrðu almennar, þá virðist þetta ekki vera of hátt reiknað. Við lýsisrannsóknir má búast við allverulegum tekjum með tímanum, er það kemst í lag, að heimtuð verði um það efnarannsóknarvottorð og þau tekin gild erlendis, og fleira mætti telja. Ég hygg, að þessar tekjur séu fremur of lágt reiknaðar en of hátt.

Ég held, að það hafi svo ekki verið fleiri atriði í ræðu hv. þm. Snæf., sem ég þurfti að svara.