21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Það er aðeins örstutt, því ég þarf ekki miklu að svara. Ég vil aðeins minna hv. 2. þm. N.-M. á, að það hefði þótt fyrirsögn fyrir nokkrum dögum, þegar ég var að deila við háskólamennina um íhlutun atvinnuveganna um stjórn stofnunarinnar, ef ég yrði á móti slíkri íhlutun nú. Ég hélt því fram þá, að heilbrigð íhlutun væri sjálfsögð, þó ég gengi ekki eins langt og hv. 2. þm. N.-M. Það er nú svo, að vísindalegar rannsóknir þokast ekki langt á 1/2 ári og eru því verkefnin oft svo að kalla jafnlangt frá að vera leyst. Ég tel því ekki hafa þýðingu að ákveða fundi á hverjum ársfjórðungi, þar sem n. er aðeins ætlað að leggja höfuðlínurnar. Frekari íhlutun tel ég óþarfa, og jafnvel geta orðið til skaða.

Það, sem fyrir mér vakir, er að fá samvinnu atvinnuveganna og vísindanna um, hvað þurfi að gera og hvar sé mest þörfin, að bætt sé úr. atvinnuvegirnir eiga því að fá fullkomlega heilbrigða íhlutun, þó till. hv. þm. N.-M. verði felld, enda ekki líklegt, að hún kæmi að sérstökum notum.

Um ræðu hv. þm. Snæf. get ég verið fáorður. Hann sagði, að við 1. umr. hefðum við deilt um, hvort kennsla ætti að vera eða ekki. Ég minnist ekki, að við höfum deilt um það, heldur hvenær kennslan skuli hefjast og hvernig henni verði hagað. Og það er einmitt þetta, sem hefir mótað afstöðu mína, en ég tel óþarft að fara að rökræða aftur nú.

Þá sagði hv. þm., að ráða mætti hug háskólamanna af ályktun þeirri, sem hann las upp frá almennum stúdentafundi. Ég tel það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir menn séu því fylgjandi, að sem mest sé gert fyrir þá stofnun, sem þeir eru ýmist nemendur eða kennarar við. Þeir eru þar í fyllsta rétti, og býst ég við, að eins hefði farið um mig, ef ég hefði haft sömu afstöðu til þeirrar stofnunar. En hér verður að fara eftir því, sem rétt er og sanngjarnt á báðar hliðar, eftir viðhorfi á hverjum tíma.

Ég tel sæmilega séð fyrir þessum málum, ef undirbúningur verður hafinn samkv. frv. okkar meiri hl. allshn. Hitt er misskilningur, að þessum málum sé betur borgið með frv. hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk., þó að það hljómi betur í eyrum, að kennsla skuli hafin strax í búnaðarvísindum, fiskifræði og efnafræði, en að gera þar ráð fyrir allverulegum undirbúningi. En þeir, sem vilja málinu vel, ættu að taka vænsta kostinn og vera sanngjarnir og fylgja því fram til úrlausnar á þeim grundvelli, sem tryggt er, að það gangi fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram nú, þar sem málið er þrautrætt frá fyrri umr.