21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Hv. þm. Snæf. taldi það rangt hjá mér, sem ég sagði, að háskólaráð hefði tekið þann kostinn, sem réttastur var og sanngjarnastur og kleift að framkvæma. Hann „filosoferaði“ einnig yfir því, að það væri lítið gagn fyrir stúdenta að því námi, sem ekki ætti að hefjast fyrr en einhvern tíma langt úti í framtíðinni. Ég vil þá spyrja hv. þm., hvort hann telji stúdenta hafa meira gagn af námi, sem þeir fá ekkert próf í fyrr en einhvern tíma úti í framtíðinni, og ef til vill enn síðar en gert er ráð fyrir, að kennsla hefjist í okkar frv. Samkv. grg. þeirra frv. er ekki gert ráð fyrir því, að stúdentum gefist kostur á að ganga undir próf fyrr en einhvern tíma seinna, eftir dúk og disk. Þetta er því verri og hættulegri leið en sú, sem farin er í okkar frv., vegna þess að hún dregur stúdenta út í nám, sem hefir lítið gagn í för með sér fyrir þá, en er þeim lítið annað en tímaeyðsla og fyrirhöfn. Sú leið, sem aftur á móti er farin í okkar frv., er að byggja þetta upp smátt og smátt, eftir því sem unnt er, en fara ekki örara en það, að stúdentarnir fái prófréttindi fyrir þann námstíma, sem þeir fást við námið við háskólann eftir að kennsla hefir verið tekin þar upp.