06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að vera fjölorður um þetta mál, því það er nú miklu betur upplýst eftir að hv. 6. þm. Reykv. gaf skýrslu um það. - Út af síðustu ummælum hæstv. ráðh. vil ég segja það, að málið liggur nú þannig fyrir, að sjálfstæðismenn óskuðu eftir, að 6% gjaldinu til markaðs- og verðjöfnunarsjóðs væri aflétt. Og ég varð ekki var við annað en hæstv. ráðh. tæki undir þá ósk. Hinu vilja sjálfstæðismenn halda utan við þessa deilu, hvort niður skuli falla greiðslur þær, sem lágu til grundvallar fyrir því, að gjald þetta var lagt á. Okkar aðstaða er sú, að hvort sem stj. óskar eftir áframhaldi í þessum greiðslum eða að þær verða látnar falla niður, þá geti útvegsmenn ekki einir staðið undir þeirri þörf, sem liggur til grundvallar fyrir þeim. Um hitt mætti ræða síðar, að hve miklu leyti sjálfstæðismenn taka undir ráðstafanir til þess að ná þessu gjaldi. Till. er komin fram um það, að taka eitthvað af ágóða áfengisverzlunarinnar í þessu skyni, allt að helming, og þar að auki framlag ríkissjóðs eins og það væri ákveðið í fjárl. hvers árs. En Sjálfstfl. vill ekki innleiða deilur um það, hvort gjaldið verður látið niður falla án þess að nokkuð komi í staðinn eða ekki, en hitt er aðalatriðið, að það verði látið niður falla í þeirri mynd, sem það nú er.

Ég get að nokkru unað við þá játningu, sem hæstv. ráðh. gaf í næstsíðustu ræðu sinni. Það var auðséð, að mér hafði tekizt að opna augu hans fyrir því, að hann hefði í þessu tilfelli misnotað aðstöðu sína. En ég er sannfærður um, að þó að hæstv. ráðh. hafi gert þetta, sem verður að teljast fullkomlega ósæmilegt, hvort sem hann nú hefir gert það af ásettu ráði eða í ógáti, að hann hefir áttað sig á því, að hann var ámælisverður fyrir þetta athæfi sitt. Hann kemst ekki hjá því að játa, úr því hann hlutaðist til um, að yfirlýsing kæmi frá honum í útvarpinu svona miklu hitamáli, þá bar honum skylda til þess að gera mér aðvart, svo að yfirlýsing gæti komið frá minni hálfu um leið. Ég veit, að hann skilur, að hann hefir gengið hér lengra en honum bar.

Hann var í seinni ræðu sinni kominn í þær kröggur, að hann var þá hættur að tala um hina óvöldu þm. og búinn að biðja velvirðingar í þeim orðum sínum. Ég tek á móti þeirri fyrirgefningarbeiðni og fyrirgef honum með því skilyrði, að hann brjóti ekki aftur þá grein almennra mannasiða. En þegar hæstv. ráðh. var horfinn frá umtali sínu um hina óvöldu þm., þá vildi hann skjóta sér undir það, að menn yrðu að gera greinarmun í því, sem ráðh. segði úr ráðh.stóli, og yfirlýsingum, sem einstakir þm. gæfu um velvilja sinn til almennra mála. En það liggur nú ekki í verkahring hæstv. ráðh. að gera upp á milli þeirra orða, sem hann mælir úr ráðherrastóli, og þeirra, sem ég mæli t. d. sem óbreyttur þm. En svo að ég haldi mér við orðalag hans um velvilja einstakra þm. til almennra mála, eða hnútukast til einstakra þm., þá eiga þau ummæli hans ekkert skylt við yfirlýsingu mína. Ég hefi áður lesið hana upp, og ég vil nú lesa hana aftur upp, með leyfi hæstv. forseti: „Frá þingbyrjun hafa staðið yfir samningar milli Sjálfstfl. og stjórnarflokkanna um að létta af sjávarútveginum hinu þungbæra 6% gjaldi, sem allt þingið lagði á útveginn í fyrra. Allir hafa verið á einu máli um, að þetta væri ekki aðeins æskilegt, heldur og brýn nauðsyn. Hæstv. ráðh. hefir nú lýst því yfir fyrir hönd stjórnarflokkanna, að þeir fyrir sitt leyti samþykki að létta af gjaldinu.

Sjálfstfl. er, eins og ríkisstj. er kunnugt, þessu samþykkur, og má þá, eftir yfirlýsingu atvmrh., telja tryggt, að þessum skatti verði nú aflétt. Sjálfstæðismenn fagna þessum tíðindum.“

Sjálfstfl. á sama kröfurétt og hæstv. ráðh. á því að tilkynna þjóðinni afstöðu sína til þessa máls, eins og hæstv. ráðh. á til að tilkynna afstöðu stj. og stj.flokkanna. Og í þessari yfirlýsingu minni var ekkert orð, sem hneyksli mætti valda. Það verður ekki komizt hjá því, að ef hæstv. ráðh. gerir þá kröfu til útvarpsins, að það flytji yfirlýsingar hans í því skyni að afla pólitísks fylgis, þá var það ekki einungis drengskaparskylda, heldur fullnæging á lægstu kröfu á hendur manni í hans stöðu, að hann hefði gert mér aðvart, svo að ég hefði getað látið birta mína yfirlýsingu um leið. Ég veit, að hæstv. ráðh. viðurkennir þetta í hjarta sínu. Það verður að teljast skakkt af útvarpinu að taka á móti svona yfirlýsingu, því þó að það heyri undir þennan ráðh., sem gaf yfirlýsinguna, þá er það samt ekki skyldugt til þess að brjóta hlutleysisregluna. En hitt verður auðvitað að afsaka, þó að það sé veilt fyrir að taka til greina óskir síns yfirmanns. Hæstv. ráðh. verður líka að viðurkenna, að það er þessu máli óskylt, að Sjálfstfl. hefir séð sig tilknúinn að slíta samvinnu við stj.flokkana í utanríkismálanefnd, þangað til ríkisstj. hefir gefið yfirlýsingu um það, hvernig hún líti á misbrest þann, sem orðið hefir á framkomu eins nefndarmanns. Ef hæstv. ráðh. á við það, að hann hafi ekki haft aðstöðu til þess að halda áfram umr. um þetta mál við mig, þá er það misskilningur hjá honum, því eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, þá lá málið fyrir í sjútvn. og var þar hægt að halda áfram á eðlilegum vettvangi samningum um málið.

Ég hirði svo ekki að ræða frekar um málið. Ég vænti, að það tvennt hafi unnizt við þessar umr, að hæstv. ráðh. hafi ekki í frammi samskonar atferli aftur, og ennfremur það, að forsetar taki til athugunar, hvort ekki sé nauðsynlegt að gera frekari ráðstafanir til tryggingar misnotkun útvarpsins í sambandi við fréttaflutning frá Alþ. Og þó að það sé þessu máli óviðkomandi, þá tel ég rétt að geta þess, að þetta er í annað skipti, sem hæstv. ráðh. misnotar aðstöðu sína gagnvart útvarpinu. Hitt skiptið var í sumar, þegar hann flutti fyrirlestur um fisksöluna, þegar hann vissi, að forsvarsmenn andstöðuflokksins voru fjarstaddir. Þessa ræðu heyrði ég ekki, en þó honum kunni að þykja það ótrúlegt, þá hefir þessi ræða legið í fórum mínum þangað til í gær. Og þegar ég las hana, rak mig í rogastans á því hlutleysisbroti, sem þar var framið. En ég vona bara, að þetta komi ekki fyrir í þriðja skiptið.