02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Magnús Guðmundsson:

Ég varð í minni hl. í allshn. um þetta mál. Ég áleit, að það væru komnar fram þær upplýsingar í málinu, að það hefði gott af því að bíða, a. m. k. til hausts, því að n. fékk bréf frá háskólanum um þetta mál, og mér skilst, að þar séu skilyrði, sem háskólinn setur, sem ekki er fullnægt í þessu frv.

Ég vildi, að n. fengi háskólaráðið til viðtals, en n. vildi það ekki, svo að ég get ekki neitt haft eftir háskólaráðinu. En mér þykir sennilegt, að hæstv. ráðh. sé þessu máli kunnugur og geti sagt, hvort hér er um eiginleg skilyrði að ræða. Mér skilst á niðurlagi aths. við þetta frv. eins og það kom fram fyrst, að það megi a. m. k. skilja það svo, að um reglulegt skilyrði sé að ræða fyrir framlagi til rannsóknarstofubyggingar, þar sem háskólaráðið áskilur sér rétt til að koma fram með brtt., ef þurfa þyki eftir nánari athugun á frv. Þessi áskilnaður, að mega koma fram með brtt., er mér ekki alveg ljóst, hvað þýðir. Ef hann á ekki að þýða annað en það, að háskólaráðið muni ef til vill koma með brtt., þá er þetta þýðingarlaust, því að náttúrlega getur háskólaráðið, án þess að gera nokkurn áskilnað, komið fram með brtt. Ég var í nokkrum vafa um þetta og óskaði eftir að fá háskólaráðið til viðtals, en það fékkst ekki. Eftir upplýsingum, sem ég fékk eftir að meðferð n. á málinu var lokið, hygg ég, að hér sé um eiginlegt skilyrði að ræða þannig, að tilgangslaust sé að samþ. þetta frv. nema skilyrðinu sé fullnægt. Með þetta fyrir augum hefi ég flutt nokkrar brtt. við frv. á þskj. 313. Brtt. þessar eru fluttar til þess að fullnægja skilyrði háskólans. Annars skildist mér á meiri hl. n., að hann væri ekki búinn að athuga frv. nægilega, en óskaði þó, að það yrði tekið til 2. umr., og mundi n. síðan athuga frv. milli 2. og 3. umr. Nú hefir 2. umr. dregizt, svo að meiri hl. n. hefir haft nægan tíma til þess að athuga frv., og vil ég spyrja hv. frsm., hvort það hefir verið gert. Mér skilst, að ekki geti liðið langur tími milli 2. og 3. umr., ef afgr. skal frv. á þessu þingi, eins og ætlunin mun vera. Annars er mér sagt, að töluvert skiptar skoðanir séu um ýms atriði frv. meðal kennara og nemenda háskólans, en ef svo er, þá held ég, að málið hefði ekki nema gott af því að hvíla sig a. m. k. til haustsins, til þess að séð verði, hvort ekki er hægt að ná góðu samkomulagi um það innan háskólans. Það sjá allir, að það er alveg unnið fyrir gýg að samþ. frv., ef háskólinn reynist svo ofáanlegur til þess að leggja fram það fé, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég ætla svo ekki að fara lengra út í að ræða málið fyrr en ég hefi heyrt, hvað hæstv. atvmrh. upplýsir um, hvað gerzt hefir í málinu. Ég get getið þess, að ég hefi átt tal við rektor um málið og spurt hann um viðskipti stj. og háskólans út af því, og hefi nú gaman af að vita, hvernig frásögn hæstv. ráðh. ber saman við frásögn rektors.