06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég verð að hryggja hv. þm. G.-K. með því, að því að hann læsi upp í 3. skiptið ræðu þá, sem hann flutti hér um daginn, þá myndi það ekki breyta minni skoðun. Það verður ekki framhjá því komizt, að það er mikill munur á því, sem stj. tilkynnir um það, hvað hún hefir í hyggju að gera, og almennum hugleiðingum einstakra þm. Það er misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi verið að tala um hnútukast í yfirlýsingu hans, en hitt sagði ég, að ef tekið væri upp á því, að taka upp ummæli úr ræðum einstakra þm. þá gæti verið um hnútukast að ræða þar til annara þm.

Ég hirði ekki um að svara því, sem hv. þm. sagði um það, að ég hefði brotið hlutleysisreglur útvarpsins í ræðu, sem ég flutti í útvarpið í sumar. En það var eitt atriði í ræðu hv. þm., sem ég get ekki látið ósvarað. Hv. þm. sagði, að það væri óskylt þessu máli, að Sjálfstfl. hefði neyðzt til að slíta samvinnu við stj.flokkana í utanríkismálanefnd. En hann veit, að þetta er alrangt. Hann veit, að það hefir verið haldinn fundur í utanríkismálanefnd eftir að samvinnuslitin urðu, þar sem rætt var um þetta mál. Og hann veit ennfremur, að af þessum samvinnuslitum hlýtur það að leiða, að um þau mál, sem falla undir utanríkismálanefnd, er ekki hægt að hafa samvinnu við Sjálfstfl. Það hlýtur að verða óhjákvæmileg afleiðing af þessu tiltæki sjálfstæðismanna. En ég verð enn að harma það, að til þessa ráðs hefir verið gripið.