02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

115. mál, útflutningur vikurs

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér er mikil ánægja að biðja hv. 4. landsk. afsökunar á, að ég skyldi gera honum upp svona óhreinar hvatir, af því að mér þótti hann koma undarlega fram í hinu málinu í gær. Þér finnst það skjóta skökku við, þó að það sé algengt, að menn greiði atkv. með afbrigðum, að tefja hitt málið, en greiða fyrir þessu, sem getur orðið til þess, að það verði samþ. nú, því að það er honum kunnugt, að þegar leitað er afbrigða undir þinglokin, þá er það í þeim tilgangi að keyra málið í gegn.

Hv. þm. S.-Þ. fór að gefa upplýsingar í þessu máli. Mér skildist það vera tvennt, sem hann teldi mæla með þessu máli. Annað var það, að það hefði gengið í gegnum skipulagsn., en maður sér hennar fingraför lítið á málinu. Mér fannst hann gefa litlar upplýsingar um málið og hvers vegna væri svo hættulegt að sleppa því úr höndum ríkisins í 5 ár. Hitt, sem hann mælti með þessu frv., var það, að þessar vikurnámur væru í hans kjördæmi. Mér sýndist það eiga að vera sú stóra ástæða fyrir því, að engin hætta væri á ferðum. (JJ: Því betra sem hann er betur ættaður!). Já, það er sérstaklega vel ættaður sá vikur, sem er úr auðnunum fyrir ofan hans kjördæmi. Nú er víkur víðar til en þarna, og ef gefinn er einkaréttur til útflutnings á honum, þá hlýtur hann að ná yfir hann líka.

En sem sagt, mér finnst vera rétt að leyfa einstaklingum að brjóta hér brautina, hvað sem menn annars segja um einstaklingsframtakið. Jafnvel þeir, sem vilja láta þingið grípa yfir allt, ættu að geta fallizt á, að hentugt væri að láta einstaklingana brjóta hér brautina, en að mörgum millj. verði kastað burt við að leyfa mönnum að gera tilraun með þetta í 4—5 ár, það nær engri átt.

Annars er talsvert mikill munur á þessum tveimur frv. Fyrst er það, hvað tíminn er mislangur, í þessu frv. er hann 5 ár, en 10 ár í hinu frv. Í öðru lagi á að greiða 50 aura útflutningsgjald af hverri smálest af þessari útflutningsvöru, en í hinu frv. er gert ráð fyrir 3 kr. útflutningsgjaldi auk venjulegs útflutningsgjalds, svo að þetta er þá hreint sérleyfisgjald. Aftur á móti á aldrei að verða meira en 50 aura gjald af hverju tonni af hinni vörunni, hvað hátt sem verðið verður á henni. Ég er ekki að segja, að ég sé á móti þessu, því að það verður að stuðla að þessu, því að það er erfitt að vinna upp svona markaði, en ég skil ekki þann mun, sem hér er á gerður. Ef það er rétt að veita einstaklingum svona sérleyfi, og það álít ég að sé rétt, þá á ekki að gera þennan mun, sem hér ræðir um.

Það eina, sem gerir mig hikandi við afgreiðslu þessa máls, er grunsemd hjá mér um það, að gera eigi mun á þessum tveimur málum.

Annars skal ég ekki, af því að hitt málið er síðar á dagskrá, fara nánar út í það nú.