04.04.1935
Efri deild: 42. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

115. mál, útflutningur vikurs

Frsm. (Páll Hermannsson) [óyfirl.]:

Við 1. umr. var minnzt á þetta mál, svo að ég þarf ekki að ræða mikið um það. Er málið einfalt, og er því nokkurnveginn lýst að fullu í frv. Frv. ætlast til, að tveim mönnum, þeim Jóni S. Loftssyni í Reykjavík og Sveinbirni Jónssyni á Akureyri, verði veitt einkaleyfi í 10 ár til að vinna úr vikri og flytja það út.

Um þetta verk liggja fyrir nokkrar áætlanir. Er gert ráð fyrir, að hægt verði að selja til Noregs 20 þús. m3 af vikursandi. Verðið er að vísu lágt, en þó viðunandi. Gengið er út frá því, að vinna megi úr vikri efni til að þetta hús, er komið gæti í staðinn fyrir kork og slíkt.

Eins og bent var á við l. umr., hagar svo til, að vikursandur er í stórum breiðum um öræfi landsins, sérstaklega þó vestan Jökulsár á Fjöllum. Þetta er eldfjallaaska frá Dyngjufjallagosinu mikla, sem lagði í eyði stóra landshluta. Er þarna af nógu að taka, vikurlagið er 25—30 cm. þykkt, og liggur það yfir óhemjusvæði öræfanna, einkum Ódáðahraun.

Gert er ráð fyrir að láta Jökulsá á Fjöllum flytja efnið til sjávar. Er hugsað til að ná sandinum þannig, að láta vatnið úr ánni flæða yfir sandana.

Talið er, að til þess að koma fyrirtæki þessu af stað muni þurfa 100 þús. kr. stofnfé og 20 þús. kr. til rekstrar 1. árið. Áætlað er, að það, sem hægt er að selja árlega, unnið og óunnið, muni nema 185 þús. kr. Af þessu fé er meiri hlutinn vinnulaun, sem verða hér eftir. Bæði þarf að greiða fyrir vinnu við flutninga um öræfin að ánni, einnig vinnu við útskipun auk vinnu þeirrar, sem skapast við þann vikuriðnað, sem fyrirhugað er að setja á stofn við árósana. Frv. er búið að ganga gegnum hv. Nd. og var þar flutt af iðnn. og samþ. mótatkvæðalaust. Var aðeins gerð á því lítilsháttar breyting við niðurlag 2. gr., um að veita fjmrh. heimild til þess að lækka útflutningsgjaldið, ef á þyrfti að halda.

Iðnn. þessarar d. hefir nú athugað frv. og leggur einróma til, að það verði samþ.