30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

59. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

N. hefir orðið sammála um að mæla með þessu frv. með nokkrum breyt., og lúta þær að því, að réttur sá, sem Holtshreppi er veittur skv. 4. gr. frv. til þess að taka þátt í virkjun Fljótaár á allt að 200 hö., nái og til hrepps þar fyrir vestan, sem sé Haganeshrepps, og verður þá miðað við Holtshrepp hinn forna, og virðist það eðlilegt, þar sem Fjótaá skiptir mörkum á parti milli hreppanna. Og það því fremur virðist ekkert þessu til fyrirstöðu, þar sem þær vatnsrennslisathuganir, sem lágu fyrir, þegar áætlanir um virkjun þessarar ár voru gerðar, bera með sér, að öruggt má telja, að virkja megi ána upp í 2300 hö., og sennilega allt upp í 3000 hö., með því að aðstaðan þykir hentug. Ef miðað er við mannfjölda þann, sem var í Siglufjarðarkaupstað og þessum 2 hreppum árið 1933, þá svara þessi 2500 hö. til þess, að þarna komi um 600 volta afl á mann, og er það tvöfalt afl við það, sem gera má ráð fyrir, að notað verði framan af. Nú má gera ráð fyrir, að Siglufjarðarkaupstaður vaxi allmjög hér eftir sem hingað til, en þar sem gera má ráð fyrir, að auka megi virkjunina enn meir, þá virðist ekkert sérstakt vera í veginum fyrir því að veita Haganeshrepp þessa ívilnun, jafnvel þó Ólafsfjarðarkaupstaður fengi og að taka þátt í þessari virkjun.

Hinar aðrar breyt. á frv. eru að mestu leyti í sambandi við þessa aðalbreyt., sem n. gerir. En ég vil aðeins geta þess, að n. ætlast til, að aftan við 3. gr. frv. — þar sem gert er ráð fyrir, að ef Siglufjarðarkaupstaður reisi og reki raforkustöð við ána, þá skuli virkjunin rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi — bætist: „Samkv. reglugerð, sem atvmrh. staðfestir“, og ætla ég, að það sé hliðstætt við önnur dæmi, þar sem líkt stendur á.

Ég skal svo taka það fram, að svo ber að líta á, að ef Siglufjarðarkaupstaður notar sér þann rétt, sem honum er veittur skv. 2. gr. frv., til að framselja rétt sinn til virkjunar og rekstrar raforkustöðvarinnar og sölu rafmagns til annara, þá hafi þessir hreppar, Holtshreppur og Haganeshreppur, hlutfallslegan rétt til þátttöku í þeim samningi.