22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

106. mál, eftirlit með skipum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og segir í grg. fyrir frv. þessu, voru tvær alþjóðasamþykktir gerðar í London, sem gengu í gildi fyrir Ísland árið 1933. Var önnur um öryggi mannslífa á sjónum, en hin um hleðslumerki skipa. Með frv. þessu er breytt lögum um skoðun skipa og færð til samræmis við samþykktir þessar, og hefir skipaskoðunarstjóri samið frv. þetta eftir beiðni minni.

Annað nýmæli er í frv. þessu, að fellt er niður, að lögreglustjórar skuli annast skráningu skipa, eða m. ö. o. að gefa út haffærisskírteini.

Ég skal geta þess, að ef frv. þetta verður samþ., er ætlunin að fá árlega skoðun skipanna hingað heim, og sjá þá svo um, að hér verði fær maður, er kunni þetta verk til fulls, að mæla skip og setja hleðslumerki. Yrði þá afstýrt, að árlega fari nokkurt fé út úr landinu fyrir þetta verk, eins og nú er. — Sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta, en vil mælast til, að því verði vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni.