11.03.1935
Sameinað þing: 4. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

500 ára afmæli sænska ríkisþingsins

forseti (JBald):

Mér hefir fyrir nokkru borizt skeyti frá sænska ríkisþinginu, sem nú er staðfest með bréfi, þar sem Alþingi er boðið að senda 4 fulltrúa á 500 ára afmæli ríkisþingsins. Vil ég því beina þeirri ósk til þingfl., að þeir taki afstöðu til málsins fyrir næsta fund, sem haldinn verður í Sþ.

Á lokuðum fundi í Sþ., 14. marz, var samþykkt í einu hljóði svolátandi ályktun:

„Út af boði sænska ríkisþingsins til Alþingis um að senda 4 fulltrúa á 500 ára afmæli ríkisþingsins 28. maí næstkomandi, samþykkir Alþingi að taka þessu boði og felur forseta sameinaðs þings og deildaforsetum að tilkynna það.

Jafnframt ályktar þingið að fela forsetum, í samráði við væntanlega fulltrúa, að láta gera skrautritað ávarp til ríkisþingsins sænska frá Alþingi og ennfremur að velja vandaða gjöf til þess aðsenda Svíum.

Þingflokkar tilkynni forseta sameinaðs þings sem fyrst val á mönnum til fararinnar.“ Fulltrúarnir voru þessir, einn tilnefndur af hverjum þingflokki:

Gísli Sveinsson,

Hannes Jónsson,

Jónas Jónsson,

Stefán Jóh. Stefánsson.

Gefið var málverk af Þingvöllum eftir Ásgrím Másson í útskorinni eikarumgerð eftir Ríkarð Jónsson.

Ávarp Alþingis var skrautritað af Tryggva Magnússyni, með litmyndum, en kápuna gerði Ársæll Árnason. Ávarpið er á þessa leið:

Allt frá dögum Yngvifreys og hinna goðbornu Ynglinga, í árdaga norrænna sagna, hafa afrek Svía varpað ljóma á sögu allra Norðurlanda.

Frá ómuna tíð hafa bændur og búalið með Svíum og Gautum varið réttindi almúgans á þingum sínum, byggt land sitt með lögum og mælt málum sátta og friðar.

Mikil hafa orðið örlög Svíþjóðar á þeim fimm öldum, sem liðnar eru síðan öll lönd og allar stéttir ríkisins tóku höndum saman á hinu fyrsta Ríkisþingi. Þjóðin hefir sótt fram til frelsis og frægðar. Svíþjóð var um heillar aldar skeið eitt af stórveldum Norðurálfu. En aldrei hefir Svíum úr minni fallið, að sátt og friður eru sæmst í lögum. Og Svíum hefir hlotnazt sú gæfa, sem öllu veldi er meiri, að verða ein af sannmenntuðustu þjóðum veraldar.

Vér Íslendingar gleymum því eigi, að sænskur maður, Garðar Svavarsson, steig fyrstur Norðurlandabúa fótum á íslenzka jörð. Skipti vor við Svía hafa að vísu verið færri en vér mundum hafa kosið. Þar hefir verið fjörður milli frænda og vík á milli vina. En á þau skipti hefir aldrei neinn skugga borið. Íslenzkir höfðingjar og skáld, frá Gunnlaugi ormstungu til Snorra Sturlusonar, sóttu heim konunga Svía og stórmenni, þágu af þeim miklar sæmdir og námu þar fornar sagnir. Fyrir fjögur hundruð árum kom sænskur klerkur með fyrsta prentverk til Íslands. Svíar urðu fyrstir allra þjóða til þess að prenta íslenzkar sögur, og margir af ágætismönnum þeirra hafa lagt alúð við íslenzk fræði. Sænskar bókmenntir og sænskir söngvar hafa lengi verið yndi Íslendinga. Vér höfum dáðst að sænskri lýðmenntun, listum og vísindum og margt og mikið af þeim lært. Fastar og fastar hafa bræðraböndin milli fjölmennustu og fámennustu þjóðar Norðurlanda tengzt á síðustu áratugum. Á þessari minningarhátíð berast ekki einungis kveðjur frá þingi til þings, heldur frá alþjóð Íslendinga til alþjóðar Svía, þakkir fyrir liðnar aldir og óskir um vaxandi vináttu og kynni.

Ríkisþing Svía hófst á ófriðaröld, hófst til varnar lögum og landsrétti. Enn á vorum dögum er sorti í lofti, enn er víðar en skyldi gripið til óyndisúrræða um landsstjórn og deilumál landi á. milli. Ríkisþing Svía, með fornfræga sögu að bald, en vaxið vandamálum hins nýja tíma, stendur nú sem einn öruggasti vörður þjóðræðis og lýðfrelsis meðal löggjafarþinga heimsins.

Íslendingar telja það auðnu sína og sóma að vera í bræðralagi við hinar norrænu þjóðir, sem engum þjóðum standa að baki í menningu anda og handa, en standa fremstar meðal þjóða um skipun deilumála sín á milli með friði og lögum.

Heill og hamingja fylgi Svíþjóð og Ríkisþingi Svía á ókomnum öldum. Vér óskum þess, að skeggöld og skálmöld sneiði hjá hinni göfugu sænsku þjóð og hinum fögru byggðum hennar og borgum. Ver óskum, að sem flestar þjóðir mættu bera giftu til þess að taka sér hið glæsilega og vegláta dæmi Svía til fyrirmyndar um menningu og stjórnmálaþroska.

Alþingi Íslendinga

Jón Baldvinsson

forseti sameinaðs Alþingis

Einar Árnason

forseti efri deildar

Jörundur Brynjólfsson

forseti neðri deildar

Á 12. fundi í Sþ., 4. apríl, að lokinni dagskrá. mælti